Styrjöld | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Styrjöld

Fyrsta ljóðlína:Heyr vígdunur, skothríð og angistaróp
bls.50
Bragarháttur:Fimm línur (þríliður) fer- og þríkvætt oAbbA
Viðm.ártal:≈ 1950
Tímasetning:1948
1.
Heyr vígdunur, skothríð og angistaróp.
Að eyrum slíkt berst hvaðanæva.
Á ljósvakans öldum á augnabliks sprett
fer umhverfis hnöttinn hver vábeiðu frétt
og hlustir alls mannkyns þær hæfa.
2.
Og er ekki vorkunn þótt vonin sé beygð
og vissan um framþróun manna
er grimmdin og illmennskan hreykja sér hæst
og hælast um glæpi af drambinu æst
og sverta hið fagra og sanna.
3.
Og þarf ekki meira en mannlegan þrótt
að missa ekki trú á það góða.
Og deprast ei öllum hin andlega sýn
að eygja þá glætu er í myrkrinu skín
og birginn því örðuga að bjóða.
4.
Þá birtast hin eilífu lífgjafans lög,
þeim lærðu og vitru oft falin,
að mannúð og bróðerni er betra en hjör.
Af brynvörnum kærleikans hrekkur hver ör,
og betri hlíf varð ekki valin.
5.
Því skamma stund verður harðstjórans hönd
af hrakförum smælingjans fegin.
Því níðingsins skóm er á hálkunni hált
og hatrið það eitrar og étur sig sjálft.
Af sjálfshönd er sjálfselskan slegin.
6.
Það reynist oss mannbót að minnast þess æ
að meira er hið góða en illa
og reyna þá björtu hlið sífellt að sjá,
að seilast í geislana myrkrinu frá
og hugann af fegurð að fylla.
7.
Því hátt yfir manndýrsins ófriðar óp
ber ásthlýjar raddir hins sanna.
Og aldrei var fyrr jafn einlægum hug
þess óskað að vinna á meinunum bug
og byggja upp bróðerni manna.
8.
Að spyrja ekki um hörundslit, tign eða trú,
en treysta á kærleik til varna.
Því það er sú hugsjón sem hatri er fjærst
og heimi mest nauðsyn og göfgust og stærst
og brú milli alheimsins barna.