BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra


HANDBÓK

Bragfræðihandbók

Bragháttur

Bragarháttur (ljóðform) fer eftir:

  1. Lengd braglína
  2. gerð bragliða
  3. fjölda braglína í erindi
  4. rímskipan

Lengd braglína

braglína (ljóðlína, lína, vísuorð, hending) er gerð af bragliðum (kveðum) og ræðst eðli hennar og lengd af fjölda þeirra og gerð. Til þess að mynda erindi og þar með ákveðinn bragarhátt þarf minnst tvær línur. Braglína getur verið frá einum braglið upp í tíu. Fari braglína yfir fimm kveður verður í henni svonefnd braghvíld (bragrof, rof). Braglína er í lyklinum táknuð sem lárétt röð af kveðum og braghvíld mörkuð með litlu bili á milli þeirra.

Gerð Braglína

Bragliður (kveða) getur verið eitt áhersluatkvæði sem nefnist einliður. Bragliðir geta einnig verið eitt áhersluatkvæði + eitt eða fleiri áherslulétt atkvæði og nefnist þá tvíliður eða þríliður eftir því hvað atkvæðin eru mörg

  1. Steinn
    (Einliður)
  2. Dagur
    (Tvíliður)
  3. Dagurinn
    (Þríliður)

Í þessum dæmum er áhersluatkvæðið fremst og svo er því farið í öllum bragarháttum rímna og því óþarfi að auðkenna það sérstaklega í braglykli þeirra. Slíkir liðir eru kallaðir réttir liðir á íslensku.


Forliður nefnist áherslulétt atkvæði fremst í braglínu og er hann í braglykli táknaður með hring


Ljóðlínan
Nú fellur regn á frjóa jörð
yrði í braglyklinum táknuð svo:

Nú fell-ur regn á frjó-a jörð

Hún byrjar á forlið. Þá koma þrír tvíliðir og að lokum einn einliður. Einliður í lok braglínu nefnist stúfur eða stýfður liður.

Ljóðlínan
Þykir mér á þessum slóðum þrengjast hagur
yrði aftur á móti táknuð svo:

Þyk-ir mér á þess-um slóð-um þren-gjast ha-gur

 

Hún er sexkvæð, gerð af eintómum tvíliðum, og verður braghvíldá eftir fjórðu kveðu.


Áhersla á bragliði (kveður) Misjöfn áhersla er á bragliðum (kveðum) á svipaðan hátt og áhersla er misjöfn á atkvæðum. Áhersluþungir bragliðir nefnast hákveður en áhersluléttir lágkveður. Hákveður og lágkveður skiptast á og byrjar ljóðlína alltaf á hákveðu í íslensku. Þar sem skiptingin er svo regluleg er óþarfi að tákna hana í braglyklinum.

Rím

Rímgerð

Í íslenskum kveðskap er einkum gerður greinarmunur á tvenns konar rími eftir gerð þess, alrími og hálfrími.


Alrím er kallað þegar atkvæði enda á sömu sérhljóðum: frá - brá, eða þegar bæði ríma saman sérhljóð og lokasamhljóð áhersluatkvæða: góð - rjóð. Alrím er í braglyklinum táknað með því að lita reitina sem ríma saman með sama lit eða litum:

rímar við


Aftur hljóma lögin ljúf,
lengja tekur daginn.
Vísu ritar höndin hrjúf.
Hugur dvelst við rímnastúf.
(Sveinbjörn Beinteinsson)


Hálfrím er kallað þegar lokasamhljóð áhersluatkvæðis eru þau sömu en sérhljóðin mismunandi: góð - dáð. Það er táknað með því að lita helming reitanna eða hluta þeirra í sama lit.

rímar við

Hálfrím er algengast inni í braglínum eða fremst í þeim:


Hafladalur heitið var,
hjörðum gengið svið.
Eflist hagur aldar þar
arð og hagsæld við
(Sveinbjörn Beinteinsson)


Stundum blandast hálfrím og heilrím saman eins og í eftirfarandi vísu þar sem heilrímið er einnig hálfrím við grannlínurnar:


Værrar hvíldar nú í nótt
njóti fólkið vinnuþreytt.
Svefninn gefur þrek og þrótt
þeim sem hafa kröftum eytt.
(Sveinbjörn Beinteinsson)


Rauði liturinn táknar t-hljóðið í lok atkvæðis, sá ljósblái táknar ó og sá guli ey.


Í raun gætu litirnir í hverjum reit orðið jafnmargir sérhljóðum málsins sé nægilega dýrt kveðið.


Fullrím má kalla ef bragliður, sem er fleiri en eitt atkvæði, rímar allur (þ.e. öll atkvæði hans ríma): góður - fróður; skínandi - hlýnandi. Rími einliðir (stúfar) saman í lok braglínu nefnist það karlrím en kvenrím rími tvíliðir saman í línulok. Þríliðarím í lok línu kallast veggjað rím.


Rímskipan

Rím er einnig flokkað eftir því hvar það stendur í braglínu og stöðu orðanna sem það rímar við í vísunni. Endarím kallast þegar orð ríma saman í lok braglína en framrím þegar orð ríma saman í upphafi braglína. Innrím nefnist þar á milli en það má flokka nánar eftir því hvort það stendur framarlega eða aftarlega í línu eða hvort orðin ríma þversetis eða langsetis. Þversetis er það kallað ef orðin ríma á milli lína (þ.e. þvert á línurnar) en langsetis ef orð ríma innan sömu línu (þ.e. langs eftir línunni). Þetta getur svo blandast allavega saman.


Endarím er nær alltaf fullrím og er því táknað með því að lita allan reitinn:

Í innrími breytir það ekki hætti hvort allur bragliðurinn ber rímið eða aðeins áhersluatkvæði hans. Í slíku rími er því aðeins áhersluatkvæðið litað nema fullrímið sé algert (þ.e. allir rímliðir hafi fullrím).


Dæmi: 

Fólkið þreytta flúið er
fjalls úr skreytta salnum,
minjum eytt að mestu hér,
margt er breytt í dalnum.
(Ólína Jónasdóttir)


Hér eru aðeins lituð áhersluatkvæði innrímskveðanna þótt fullrím sé á milli fyrstu og annarrar braglínu: þreytta - skreytta. Í næstu vísu er fullrímið aftur á móti algert í innríminu og því hver kveða öll lituð:


Græna haga gyllti sól,
glæddust bragayrði
þar ég daga æsku ól
innst í Skagafirði.
(Ólína Jónasdóttir)


Ekki breytir það heldur hætti hvort framrím er fullrím eða ekki. Því er þar í braglyklinum fylgt sömu reglu og með innrím og aðeins áhersluatkvæði kveðunnar litað nema rímið sé algert. Þess ber þó að gæta að framrím fyrstu og annarrar braglínu sléttubanda verður að vera fullrím því þær kveður bera endarím sé vísan höfð aftur á bak. Í braglykli eru fyrstu kveður frumlína í sléttuböndum því alltaf litaðar allar.

Stuðlasetning

Stuðlasetning byggir á endurtekningu sömu eða líkra hljóða með ákveðnu millibili. Slík hljóð kallast stuðlar (hljóðstafir, ljóðstafir). Allir sérhljóðar geta stuðlað saman og áður gat hálfsérhljóðinn j einnig stuðlað á móti öllum sérhljóðum. Hver samhljóði getur aftur á móti bara stuðlað á móti sjálfum sér, til dæmis s við s og r við r o.s.frv. Frá þessu eru þó þær undantekningar að sk stuðlar aðeins við sk ; sp við sp ; st við st (sl); sm við sm; sn við sn; sl við sl (st).


Stuðull er í braglyklum táknaður með þykkari línu í upphafi bragliðs.


Stuðlar standa alltaf í áhersluatkvæði og er þá rétt að hafa í huga að á íslensku er áhersla nær alltaf á fyrsta atkvæði orðs, líka þótt orðið sé samsett: verðbréf, oddviti, veðmangari.
Sé fyrri liður samsetts orðs tví- eða fleirkvæður fær síðari liðurinn einnig áherslu eins og um tvö orð sé að ræða: kattafár; sólarolía.
Stuðlar binda gjarnan saman tvær ljóðlínur en líka getur verið að ein ljóðlína sé sér um stuðla. Reglur um stuðlasetningu fara eftir því hversu langar ljóðlínur eru. Í tvíkvæðum ljóðlínum (ljóðlínum með tveim kveðum eða tveim risum) eins og til dæmis fornyrðislagi eru ýmist einn eða tveir stuðlar í oddalínum en einn í þeim jöfnu.


Dæmi:

  1. Hvað er skammlífi?
  2. Skortur lífsnautnar,
  3. svartrar svefnhettu
  4. síruglað mók.
  5. oft dó áttræður
  6. og aldrei hafði
  7. tvítugs manns
  8. fyrir tvær stigið


Stuðullinn í jöfnu línunni kallast höfuðstafur og er alltaf í fyrsta áhersluatkvæði línunnar, hvað löng sem hún er. Í þríkvæðum línum (með þrem bragliðum) eru oftast tveir stuðlar í oddalínum og er sama í hvaða kveðum þeir standa.

Blómknappar bresta í sundur.
Bjartur er himinninn.
Og vorsins eilífa undur
fer eldi um huga minn.
(Jakob Jóh. Smári)


ferkvæðum ljóðlínum (til dæmis í fyrstu og þriðju ljóðlínu ferskeytlu) gildir eftirfarandi regla:
Alltaf er stuðull í þriðju kveðu (sem er hákveða) oddalína en frjálst er hvar hinn stendur.

dæmi:
Finnir þú ei traust og tryggð,
tök á lífsins seimi,
af því leiðir auðnubrigð
oft í þessum heimi.
(Jón Jónsson Skagfirðingur)



Hér var áður yndi mitt
oft um kvöld að fara
beint í ljúfa ljósið þitt
lét ég augun stara
(Guðmundur Ingi Kristjánsson)



Á bragmyndunum sést vel hvernig allir þrír kostir stuðlasetningar í ferkvæðum línum eru nýttir.
Braglína getur mest orðið fimmkvæð (með fimm bragliðum) án þess að í henni verði braghvíld (rof). Um stuðlasetningu í slíkum línum gilda eftirfarandi reglur:

  1. Annar stuðull verður alltaf að vera í hákveðu.
  2. Ekki má vera meira en ein kveða á milli stuðla og ekki meira en ein kveða frá seinna stuðli í höfuðstaf ef hann er í lágkveðu, annars tvær. (Stuðlar geta því staðið í eftirfarandi kveðum: fyrstu og þriðju; annarri og þriðju; þriðju og fjórðu; þriðju og fimmtu; fjórðu og fimmtu).

Dæmi þar sem allir kostir eru nýttir:


Vornóttin hlýja vermdi kaldar rætur.
Vaknaði syfjað nýgras milli steina.
Smáblómið litla var að fara á fætur,
fallega ljósið dreymdi það um nætur,
meðan það svaf við mjallarbarminn hreina.

Hún var að koma, sólin út´við sæinn,
sást eins og rönd við bláa loftið hreina.
Smáblómið unga hló í hlýja blæinn,
hlakkaði til að þekkja nýja daginn.
Blómsálin litla - barn á milli steina.

Árdegið kom og geislinn gekk úr sæti,
glaður og fríður milli steina að tifa.
Smáblómið hýra hló í eftirlæti -
hló - og svo dó það - marið undir fæti.
- Blómsálin litla - barn sem vildi lifa.

(Friðrik Hansen)




Hér er vert að veita því athygli að fimmta ljóðlína hvers erindis er sér um stuðla.

Af rímnaháttum eru aðeins tveir sem hafa fimm kveður í línu og eru það stuðlafall og vikhending en í þeim er fyrsta línan fimmkvæð. Nokkrir rímnahættir hafa sex kveður í fyrstu línu og verður þá bragrof í henni á eftir fjórðu kveðu eða í fjórðu kveðu, á eftir áhersluatkvæði hennar. Í slíkum línum eru þrír stuðlar og verkar rofið eins og línuskil þannig að seinasti stuðull (höfuðstafur) kemur í áhersluatkvæði fyrri kveðu eftir bragrof.

Yfirleitt ræður skipan stuðla ekki bragarhætti þó vissulega hafi hún áhrif á hann og ljái erindinu sinn svip. Þá krefjast einstaka hættir bundnari stuðlasetningar en aðrir, til dæmis verða stuðlar í frumlínum sléttubanda að standa í tveim seinustu kveðunum, þar sem sá fyrri breytist í höfuðstaf sé vísan lesin aftur á bak.

Braglykill

Skilgreining braglykils

Einliður (Stúfur)
Tvíliður
Þríliður
Forliður
 
Braghvíld

 
Rím (Samstæðir litir)
Hálfrím
Stuðull

Notkun braglykils

Braglykillinn byggir á því að einingar bragarins séu túlkaðar myndrænt án sambands við merkingu orða.

Fyrir sýnidæmi um notkun einstakra tákna braglykils er vísað til notkunar þeirra í bragfræðihandbókinni hér að ofan.

Allan jafnan eru stuðlar ekki sýndir í háttatali.

Hugtök

Áhersla

Í Málfræði er talað um tvenns konar áherslu: orðaáherslu og setningaráherslu. Með orðaáherslu er átt við þunga eða vægi einstakra atkvæða í orðum í framburði en með setningaráherslu þunga eða vægi einstakra orða í setningu eða samfelldu máli. Í íslensku liggur áhersla (meginþungi) alltaf á fyrsta atkvæði fleirkvæðra orða. Þá bera einkvæð nafnorð alltaf áherslu. Áhersla annarra einkvæðra orða ræðst mjög af stöðu þeirra í setningu. Samtengingar og forsetningar eru þó oftast áhersluléttar. Bundið mál fylgir ekki alveg sömu reglum um áherslu og óbundið og því er einnig talað um bragfræðilega áherslu.

Alrím

Alrím er kallað þegar áhersluatkvæði enda á sama sérhljóði: frá – brá eða þegar lokasamhljóð áhersluatkvæða eru þau sömu og einnig sérhljóð þeirra: góð – rjóð. Atkvæði með aukaáherslu geta einnig borið alrím.

Að skipta háttum

Sagt er að ákveðið atriði skipti háttum ef það breytir einum bragarhætti í annan.

Aðalhending (alhenda, alhending)

Alrím í sama vísuorði (braglínu, hendingu) langsetis. Dæmi:


Hvert stefnið þér hrafnar,
hart með flokk enn svarta?


hart og svart- mynda hér aðalhendingu með alrími sínu þar sem bæði ríma saman sérhljóðar og lokasamhljóðar atkvæðanna tveggja. (Sjá alrím). Í fyrri línunni mynda atkvæðin stefn- og hrafn- aftur á móti hálfrím þar sem aðeins ríma saman lokasamhljóðar en sérhljóðar eru ekki þeir sömu. Sú hending kallast skothending. Aðalhending og skothending eru gömul heiti á hendingum dróttkvæða. Síðar var farið að nefna vísuorðin (braglínurnar) sjálf hendingar og þá vísuorð með aðalhendingum langsetis aðalhendingu og vísuorð með hálfrími langsetis skothendingu. Á sextándu öld er farið að kalla aðalhendingu alhendu og talað er um að kveðið sé alhent séu aðalhendingar (alhendur, alhendingar) í hverju vísuorði og er það ákveðið nánar eftir því hvernig þeim er skipað innan vísuorðsins og vísunnar í heild. Rímskipan eftirfarandi vísu er til dæmis nefnd framalhent eða framaðalhent:


Dró hann þó frá dapri neyð
dýrðar skýrður herra,
illum kvilla, andar deyð
og öllu, er köllum verra.
(Kolbeinn Jöklaraskáld: Sveins Rímur Múkssonar XXII, 12)


Aðalhending: Alrím á milli atkvæða hvort heldur sem það er langsetis eða þversetis í vísu. Þannig myndar önnur kveða í fyrstu braglínu hringhendrar vísu aðalhendingu við aðra kveðu í hinum braglínunum þrem:


Sunna háa höfin á
hvítum stráir dreglum,
veröld má sinn vænleik sjá
í vatna bláum speglum.
(Sigurður Breiðfjörð)

Baksneitt

Baksneitt kallast það þegar endarím er hálfrím. Í rímnaháttum er það algengast þriggja línu háttum, einkum í braghendum. Myndar þá endarím fyrstu línu hálfrím við endarím hinna tveggja. Dæmi um baksneidda braghendu er til dæmis þessi vísa Páls Ólafssonar:


Sólskríkjan mín situr þarna á sama steini
og hlær við sínum hjartans vini
honum Páli Ólafssyni.

Braghvíld (bragrof, rof)

Braghvíld er hlé sem verður í braglínu við lestur hennar. Íslensk braglína sem lengri er en fimm kveður hefur alltaf braghvíld. Einstaka rímnahættir hafa sex kveður í fyrstu braglínu, til dæmis braghenda og afhending. Í þeim línum er alltaf föst braghvíld á eftir fjórðu kveðu eða í fjórðu kveðu á eftir áhersluatkvæði hennar. Braghvíld getur einnig verið í styttri braglínum en verður í þeim við setningarleg skil en ekki á neinum föstum stað í línunni.

Braglína (Ljóðlína, lína, vísuorð, hending)

Braglína er gerð af kveðum (bragliðum), áhersluatkvæða (í edduháttum) eða bragstaðna í dróttkvæðum háttum og ræðst eðli hennar og lengd af fjölda þeirra og gerð. Til þess að mynda erindi og þar með ákveðinn bragarhátt þarf minnst tvær línur. Braglína getur verið frá einum braglið upp í tíu. Fari braglína yfir fimm kveður verður í henni svonefnd braghvíld (bragrof, rof). – Braglína var oftast nefnd vísuorð í fornum skáldskap, til dæmis í dróttkvæðum.

Bragliður

Sjá "Kveða"

Bragstaða

Bragstaða er bragfræðileg eining í dróttkvæðum og fleiri forníslenskum bragarháttum. Bragstöður mynda vísuorð og hrynjandi hins forna bragar líkt og kveður (bragliðir) eru undirstaða kveðskapar í klassískum málum og íslenskum kveðskap síðari alda. – Bragstaða er jafnan eitt atkvæði, langt eða stutt, en hún getur einnig verið tvö stutt atkvæði og nefnist þá klofin bragstaða.

Einliður

Einliður nefnist bragliður (kveða) sem aðeins er eitt áhersluatkvæði. Algengastir eru einliðir í lok braglínu og nefnast þar stúfar eða stýfðir liðir. Seinustu kveður í frumlínum ferskeytlu eru til dæmis slíkir liðir. Eru þeir þá oftast rímorð þótt ekki þurfi það að vera. (Sjá enn fremur karlrím):


Yfir kaldan eyðisand
einn um nótt ég sveima.
Nú er horfið Norðurland,
nú á ég hvergi heima.
(Kristján Jónsson Fjallaskáld)


Einliðir koma einnig fyrir inni í ljóðlínum og eru þeir hættir kallaðir hnepptir sem byggja á slíkri notkun einliða.


Hlýtt er, vott var,
víst blítt, síst strítt,
hýrt loft, súrt svift,
sætt skín, hætt dvín,
flest sælt, fæst fúlt,
flýr þraut, býr skraut,
lán eykst, hrun hrekst,
hryggð fjær, tryggð nær.
(Hallgrímur Pétursson)

Endarím

Endarím er rím í enda braglína (vísuorða) sín á milli. Endarím er nú oftast fullrím þar sem öll atkvæði bragliðanna ríma. Ýmsar kenningar eru um uppruna endaríms og hefur það meðal annars verið rakið til forns skáldskapar araba og gyðinga. Þeir síðarnefndu þuldu langar rímaðar bænir í bænahúsum sínum og giskað hefur verið á að þangað hafi Evrópubúar sótt sér fyrirmyndir. Í latneskum skáldskap finnast þegar á annarri öld eftir Krist einstaka dæmi um grafletur þar sem lokasérhljóð ljóðlína voru þau sömu. Langur tími leið þó þar til endarím festist í sessi í latneskum kveðskap en smám saman fékk það þó sitt fasta form þar sem það varð föst regla að ríma á áhersluatkvæði og kvenrímið (tvíliðarím), fundo – mundo, kom til sögunnar.


Erfitt er að átta sig á hvenær farið var að yrkja með endarími á þjóðtungunum þar sem víst má telja að mestur hluti slíks kveðskapar sé kominn í glatkistuna. – Fyrsti þekkti skáldskapur á germönskum málum var stuðlaður en órímaður. Þjóðverjar sýnast hafa orðið fyrstir germana til að innleiða endarímið á síðari hluta 9. aldar og er Evangelienharmonie eftir munkinn Otfrid í Weisenburgarklaustri í Elsass elsta varðveitta ljóð með endarími sem nokkuð kveður að í löndum þeirra.


Endarím kemur fyrst fyrir í norrænum kveðskap í runhendri vísu sem eignuð er Skalla-Grími og síðan hjá Agli, syni hans, í Höfuðlausn. Þá kemur endarím og fram í því afbrigði dróttkveðins háttar sem nefnt er dunhent, meðal annars hjá Agli Skalla-Grímssyni.

Erindi (vísa, vers)

Erindi nefnist afmarkaður fjöldi braglína sem geta verið með ýmsu móti. Þegar talað er um bragarhátt er oftast átt við form hvers erindis fyrir sig. Erindi skipast svo gjarnan saman í ljóð og líka er algengt að ljóð sé aðeins eitt erindi, einkum sé erindið langt. Erindum undir misjöfnum bragarháttum er stundum skipað saman í ljóð eftir ákveðnum reglum. Þannig er því til dæmis farið í sonnettu. Ítölsk sonnetta er gerð af tveim ferhendum (erindum með fjórum braglínum) og tveim þríhendum (erindum með þremur braglínum). Slík samsett form eru fremur ljóðbygging en bragarháttur.


Stystu sjálfstæð erindi geta verið tvær línur. Erfitt er að ákvarða efri mörk en sjaldgæft er að þau verði yfir 14 línur. Reyndar eru til bragarhættir sem ekki hafa erindaskiptingu og unnt er að spinna í það óendanlega. Má þar nefna ítölsku tersínuna og íslenska þuluhætti.


Einstakar kveðskapar- eða kvæðagreinar einkennast af ákveðnum bragarháttum. Þannig eru til dæmis hættir rímna stuttir og formfastir. Enginn þeirra er lengri en fjórar braglínur. Svo stutt erindi eru yfirleitt nefnd vísur. Vers er nú einkum haft um erindi í sálmum.


Ferhenda

Ferhenda er vísa (erindi) með fjórum hendingum (braglínum, vísuorðum).

Forliður

Forliður er áherslulétt atkvæði fremst í braglínu á undan fyrsta áhersluatkvæði eða risi. Í braglykli er hann táknaður með hring. Forliðir breyta ekki hrynjandi vísu eða erindis nema þeir séu ríkjandi, sé til dæmis forliður í hverri línu. Sé notkun forliða þannig reglubundin verður hrynjandin stígandi og skipta þá forliðir háttum. Dæmi:


Sveinn var fús að finna þann
er ferðum hans í móti rann,
af því vissi ekki par
að engill drottins þetta var.
(Jón Bjarnason: Rímur af Tobías II, 13)

Einn sólskinsfagran sumardag
ég söng af hjarta lífs míns brag.
Nú falla vötn í vesturátt
og vegferð minni lýkur brátt.
(Ókunnur höfundur)


Í fyrri vísunni er hnígandi hrynjandi þrátt fyrir tvo forliði í annarri og fjórðu braglínu og er hún því venjuleg stafhenda. Allar braglínur seinni vísu byrja á forlið og við það verður hrynjandi stígandi og hátturinn annar. Hér er á ferðinni Ambrosíusarháttur eða hið svonefnda hymnalag.

Forn lengd

Í fornu máli var lengd sérhljóða föst. Löng voru einhljóðin: á, é, í, ó, ú, æ og tvíhljóðin: au, ei, ey. Atkvæði skiptust í löng og stutt atkvæði.


Langt atkvæði. Áhersluatkvæði með löngum sérhljóðu var langt nema atkvæðið endaði á löngu sérhljóði á undan sérhljóðsendingu, til dæmis -a. Þá varð atkvæðið stutt. – Færi langt samhljóð eða tvö samhljóð á eftir stuttu sérhljóði varð atkvæðið langt, til dæmis spjall-a og vild-a. Einnig varð atkvæði langt þótt sérhljóð þess væri stutt og aðeins færi eitt samhljóð á eftir ef næsta atkvæði orðsins hófst á samhljóði, til dæmis skipreið-u þar sen bæði atkvæðin, skip og reið, eru löng. Aðeins áhersluatkvæði gat verið langt. Forsetnignar, samtengingar og ýmis önnur smáorð voru því stutt.


Stutt atkvæði. Áherslulaus smáorð og lokaatkvæði fleirkvæðra orða, til dæmis: og, á, fór-um. Þá er atkvæði stutt ef í því er stutt sérhljóð og aðeins eitt atkvæði fylgir á eftir, til dæmis dal-a. Seinna atkvæðið er hér vitaskuld einnig stutt. – Endaði atkvæðið á löngu sérhljóði á undan sérhljóðsendingu, til dæmis -a, varð atkvæðið stutt.

Framhent (framaðalhent)

Framhent nefnast aðalhendingar milli fyrstu og annarrar kveðu allra braglína langsetis. Rímskipan þversetis milli þessara kveða er táknuð með öðrum bragorðum (sjá mishent, hálfhent og samhent).

Framlyklað

Framlyklað nefnist rím þversetis fremst í vísu og má ákvarða það nánar eftir því hvort fyrstu kveður allra lína ríma saman (alframlyklað, svifhent), hvort fyrstu kveður frumlína ríma saman (frumframlyklað) eða hvort fyrstu kveður síðlína ríma saman (síðframlyklað).

Framrím

Framrím er rím fremst í braglínum. Getur það ýmist verið langsetis (sjá framhent og framsniðhent) eða þversetis (sjá framlyklað).

Frumframhent (frumframaðalhent)

Frumframhent heitir þegar aðalhendingar eru milli fyrstu og annarrar kveðu frumlína. Séu ekki hendingar þversetis milli línanna kallast það frumframhent mishent.


Séu sniðhendingar (skothendingar) milli frumlína þversetis kallast það frumframhent hálfhent en séu aðalhendingar milli frumlína þversetis kallast það frumframhent samhent.

Frumhending (sjá viðurhending)

Frumhending er kölluð fyrri hending í vísuorði í dróttkvæðum háttum.

Frumhent

Frumhent merkir í rauninni með hendingar í frumlínum (sjá frumlína) og þá gjarnan langsetis og er orðið þá tíðum samsett eftir því hvar í línunni hendingar eru: frumframhent eða frumbakhent. Séu ólíkar hendingar í frumlínum kallast það mishent, annars samhent séu hendingar þær sömu (aðalhendingar) eða hálfhent sé hálfrím (skothendingar, sniðhendingar) milli þeirra. – Þá var háttarafbrigðið skothent, þegar önnur kveða frumlína gerir aðalhendingar sín á milli, einnig stundum nefnt frumhent.

Frumlína

Frumlína nefnist oddalína í bragarháttum sem hafa jafnan fjölda braglína (þ.e. tvær, fjórar, sex eða átta línur). Oftast eru til dæmis oddalínur (þ. e. fyrsta, þriðja lína o.s.frv.) í dróttkvæðum hætti og ferskeyttum hætti nefndar frumlínur. – Þá er fyrsta braglína í þríhendum hætti eins og braghendu nefnd frumlína en önnur og þriðja lína báðar nefndar síðlínur enda eru þær jafnan samstæðar.

Frumtáskeytt (táaðalhent, tásamhent)

Frumtáskeytt heitir þegar aðalhendingar eru milli síðustu kveða í frumlínum langsetis. Rímskipan þversetis milli þessara kveða er sú sama ef endarím er milli línanna. Dæmi:



Hans var byggðin háum hjá
hömrum dals í leyni.
Bónda þeim ei brá að sjá
brenna ljós í steini.
(Ókunnur höfundur)

Frumtásneitt

Frumtásneitt nefnist þegar sniðhendingar eru milli síðustu kveða í frumlínum (þriðju og fjórðu kveðu) langsetis og þversetis í þriðju kveðu. Sé endarím frumlína það sama verða annaðhvort aðalhendingar í þriðju kveðu þversetis eða sniðhendingar (sjá samhentog tályklasneitt). Dæmi um frumtásneitt – tályklasneitt:


Nú skal yrkja um okkar rekk,
aldrei tungustaður.
Kvinnu blíða frakkur fékk
fleinaþollur glaður.
(Ókunnur höfundur)

Fullrím

Fullrím má kalla þegar kveður (bragliðir), sem fleiri eru en eitt atkvæði (tvíliðir eða þríliðir), ríma alveg. Ríma þá bæði saman ris (áhersluatkvæði) og hnig (áherslulétt atkvæði): góður – fróður; leitandi - veitandi. Endarím er oftast fullrím en fullrím er einnig algengt sem innrím og framrím. Dæmi:


Kóngsson ríkur ljóni líkur
lagði að hernum þá,
áfram strýkur, undan víkur
öldin hvar sem má.
(Guðmundur Bergþórsson: Olgeirs rímur danska XLIX, 74)

Hákveða

Hákveða er áhersluþung kveða. Kveður (bragliðir) eru ýmist áhersluþungar eða áhersluléttar. Nefnast þær áhersluléttu lágkveður. Hákveður og lágkveður skiptast á í braglínu og hefst línan alltaf á hákveðu.

Hálfhent

Hálfhent er gjarna hnýtt á eftir öðru bragorði til að sýna að aðalhendingar eru aðeins langsetis en sniðhendingar þversetis. Þannig merkir frumframhent (frumaðalhent) - hálfhent að aðalhendingar í tveim fyrstu kveðum frumlína séu aðeins langsetis en hálfrím (sniðhendingar) séu milli þeirra þversetis. Dæmi:


Svanna ann með augu blá
undir brúnum fríðum.
Ennþá brennur ástarþrá
eins og fyrr á tíðum.
(Ókunnur höfundur)

Hálfrím (Sniðrím)

Hálfrím er kallað þegar áhersluatkvæði enda á misjöfnum sérhljóðum: frá – brú eða þegar lokasérhljóð áhersluatkvæða eru þau sömu en sérhljóð atkvæðanna misjöfn: góð – ráð. (Sjá einnig skothent, skothending, sniðhending, sniðhent og sneitt).

Hending

  • Hending eru áhersluatkvæði (ris) sem ríma saman í sömu línu (langsetis). Hún myndast ýmist með alrími, aðalhending, eða hálfrími, skothending. Slíkar hendingar koma fyrst fyrir í dróttkvæðum og er skipan aðalhendinga og skothendinga nokkuð á reiki í elsta kveðskap af því tagi. Síðar varð það nánast regla að skothending var í oddalínum en aðalhending í þeim jöfnu.
  • Hending er einstakur rímliður (sjá rímliður). Er þá sagt að rímliðurinn sé hending á móti samsvarandi rímlið hvort heldur sem rímið er langsetis eða þversetis. Orð eins og víxlhent og samhent lýsa innbyrðis stöðu hendinga (rímliða).
  • Hending er samheiti við braglínu, ljóðlínu, línu og vísuorð (sjá braglína). Sú merking kom upp á seini öldum.
  • Hending (henda) getur merkt vísa eða erindi. Er þessi merking ýmist leidd af hendingu í merkingunni rímliður eða í merkingunni braglína. Hending (henda) í þessari merkingu er oftast skeytt aftan við orðstofn sem kveður nánar á um bragarhátt vísu eða erindis. Dæmi: samhenda, ferhenda, þríhenda o.s.frv.

Hluthending (sjá frumhending)

Hluthending er frumhending (fyrri hending í vísuorði dróttkveðinna hátta) sem stendur í miðju vísuorði.

Hnig

Hnig er áherslulétt atkvæði. Það er táknað með x í bókstafaframsetningu. (Sjá ris og kveða).

Hnígandi hrynjandi

Hnígandi er hrynjandi þar sem réttir bragliðir eru ríkjandi en réttir eru þeir bragliðir nefndir á íslensku sem hefjast á áhersluatkvæði eða risi og enda á áherslulausu eða áherslulausum atkvæðum. (Sjá kveða).

Höfuðstafur

Höfuðstafur er stuðull síðlínu sé hún stuðluð við frumlínu. Ef frumlína hefur tvo stuðla er höfuðstafur þriðji stuðull en sé frumlína mjög stutt og í henni aðeins einn stuðull þá verða stuðlar aðeins tveir í línutvennd og höfuðstafur sá síðari. Höfuðstafur er nær alltaf í áhersluatkvæði fyrstu kveðu línunnar. Þó eru undantekningar frá þessu sums staðar í eddukvæðum. (Sjá nánar stuðull og stuðlasetning).

Hringhent

Hringhent er kallað þegar innrím (aðalhendingar) er þversetis í annarri kveðu allra braglína vísunnar.

Hrynjandi

Hrynjandi er reglubundin endurtekning hljóða. Í bundnu máli ræðst hrynjandi af reglubundinni endurtekningu áhersluatkvæða (risa) þar sem kveður (bragliðir) eru grunneiningar. Gerð bragliða og samleikur þeirra, ásamt línulengd og braghvíld ákvarðar hvernig ljóðið hrynur í eyrum manna.

Innrím

Innrím er rím inni í braglínu, ýmist langsetis og kallast þá gjarnan á við endarím eða framrím eða það er þversetis og rímar þá (gerir þá hendingar) við rímliði í öðrum bragliðum. Innrím langsetis og þversetis getur svo blandast saman á ýmsa vegu eins og til dæmis í oddhendri hringhendu.


Margan Jói hníf með hjó,
hló og spjó í meinið.
Artir nógar á hann þó
inn við rófubeinið.
(Káinn)

Karlrím

Karlrím (einrím) er rím einliða eða stúfa í lok vísuorðs og ber þá aðeins eitt atkvæði rímið. Sem dæmi um karlrím má taka oddalínur (frumlínur) ferskeytlu en þær eru stýfðar sem kallað er. (Sjá enn fremur einliður, stúfur eða stýfður liður):


Yfir kaldan eyðisand
einn um nótt ég sveima.
Nú er horfið Norðurland,
nú á ég hvergi heima.
(Kristján Jónsson Fjallaskáld)

Klofarím

Klofarím er endarím sem lykur um línur sem ríma saman og aðskilja eða kljúfa rímorðin hvort sínu megin við sig.


Sá ég haustsins héluskrúða.
Hníptu blöð á fölum runni.
Sólskinsblettir, sem ég unni,
svifu brátt til hinstu búða.
(Gísli Ólafsson frá Eiríksstöðum)

Klofin bragstaða

Klofin bragstaða (sjá bragstaða) er gerð af tveimur stuttum atkvæðum.

Kvenrím (tvírím) er rím tvíliða í lok vísuorðs og bera þá tvö atkvæði rímið. Sem dæmi um kvenrím má taka jafnar línur (síðlínur) ferskeytlu en þær eru óstýfðar sem kallað er. (Sjá tvíliður og óstýfður liður).

Yfir kaldan eyðisand
einn um nótt ég sveima.
Nú er horfið Norðurland,
nú á ég hvergi heima.
(Kristján Jónsson Fjallaskáld)

Kveða (bragliður)

Kveða eða bragliður er bragfræðileg eining. Gerð kveða (bragliða) og skipan þeirra ræður mestu um hvernig braglína verður. Kjarni kveðu (bragliðar) er alltaf áhersluatkvæði og stundum er kveða (bragliður) aðeins eitt atkvæði. Slík kveða nefnist einliður (sjá einliður). Einliðir koma einkum fyrir í lok braglína. Algengara er þó að kveða sé áhersluatkvæði að viðbættu einu eða fleiri áhersluléttum atkvæðum. Í íslensku draga þær nafn sitt af hversu mörg atkvæði eru í þeim (sjá tvíliður og þríliður). – Sagt er að bragliður sé réttur ef áhersluatkvæðið er fremst í liðnum annars er hann sagður öfugur. Sagt er að erindi sé tvíkvætt, þríkvætt eða ferkvætt séu tvær, þrjár eða fjórar kveður í braglínum. Þannig eru frumlínur (fyrsta og þriðja braglína) ferskeytlu ferkvæðar en síðlínur (önnur og fjórða braglína) þríkvæðar. Ferskeytt erindi er því í braglýsingu sagt fer- og þríkvætt.

Lágkveða

Lágkveða er áherslulétt kveða. Kveður (bragliðir) eru ýmist áhersluþungar eða áhersluléttar. Nefnast þær áhersluþungu hákveður. Hákveður og lágkveður skiptast á í braglínu og hefst línan alltaf á hákveðu.

Liðhending

Liðhending er það kallað þegar rímliðir í dróttkvæðum háttum (skothendingar eða aðalhendingar) stuðla saman. Dæmi: íthugaðr – ýtum – otrgjöld; þings – þröngvi – þungfarmr.

Mishent

Orðinu mishent er gjarna hnýtt á eftir öðru bragorði til að sýna að hendingar séu aðeins langsetis. Þannig merkir frumframhent (frumaðalhent) - mishent að aðalhendingar í tveim fyrstu kveðum frumlína séu aðeins langsetis en ekki þversetis. Dæmi:

Rollant hollur þungan þá
Þór lét pústur fanga;
högg gaf snöggur Olgeir á
Óðins snoppu vanga.
(Guðmundur Bergþórsson: Ferakutsrímur XIV, 33)

Oddhent

Oddhent nefnist þegar aðalhendingar eru milli annarrar kveðu frumlína og fjórðu kveðu (endarímsliðar) þeirra langsetis og þversetis. Dæmi:


Gróskan ör að engu spör
ýtum hygg ég fái
dágóð kjör sem dýrlegt smjör
drypi af hverju strái.
(Sveinbjörn Beinteinsson: Háttatal 24)

Parrím

Parrím nefnist sama endarím í tveim samstæðum línum. Parrím er einkenni á stafhendum hætti.


Hringa tróðan hjartanlig
hlýtur drjúgum kyssa mig
ef mér skyldi heppnast hér
Hanga-Týs að spenna ker.
(Bólu-Hjálmar: Göngu-Hrólfs rímur VII, 4)

Rím langsetis

Rím langsetis er það kallað ef kveður gera hendingar (ríma) innan sömu línu (þ.e. langs eftir línunni).

Rím þversetis

Rím þversetis er það kallað ef kveður gera hendingar (ríma) á milli lína (þ.e. þvert á línurnar).

Rím

Rím er endurtekning hljóða eða hljóðasambanda. Í bundnu máli hlítir þessi endurtekning vissum reglum og má bæði flokka það eftir rímgerð (sjá t.d. hálfrím, alrím og fullrím) og rímskipan (sjá t.d. endarím og innrím). Í hefðbundinni bragfræði er endarím táknað með bókstöfum. Táknar þá bókstafurinn a eða A fyrsta rímorð erindis, b eða B næsta rímorð og svo framvegis. Lítill bókstafur táknar karlrím, þ.e. rím sem aðeins tekur til eins atkvæðis, en stór bókstafur kvenrím, þ.e. rím sem tekur til tveggja atkvæða.


Yfir kaldan eyðisand
einn um nótt ég sveima.
Nú er horfið Norðurland,
nú á ég hvergi heima.
(Kristján Jónsson Fjallaskáld)

Rímgerð

Rímgerð fer eftir því hvers eðlis rímið er (sjá til dæmis alrím, hálfrím og fullrím).

Rímliður

Rímliður er sú bragstaða, kveða eða hluti kveðu sem ber rím.

Rímskipan

Rímskipan fer eftir því hvernig rím skipast í erindi eða jafnvel á milli erinda, hvort það er endarím eða innrím og þá til dæmis hvort endarím er víxlrím eða runurím eða hvort innrímið er langsetis eða þversetis og þannig mætti lengi telja.

Ris

  • Ris er áhersluatkvæði í braglínu. Í fornum skáldskap norrænum réðst gerð braglínu af fjölda risa í línunni og reyndar einnig skipan þeirra innbyrðis. En tæpast er unnt að ræða um kveður í nútímaskilningi fyrr en eftir hljóðdvalarbreytingu. Segja má þó að í venjulegum dróttkvæðum hætti hafi braglína alltaf endað á réttum tvílið (tróka) þar sem þriðja ris var alltaf langt atkvæði og aðeins eitt áherslulaust atkvæði (hnig) á eftir því.
  • Ris er áhersluatkvæði í kveðu, oftast aðeins eitt, og er það jafnframt kjarni hennar.

Riðhending

Riðhending er það kallað þegar hendingar standa aftarlega í vísuorði í dróttkvæðum háttum (í 3. og 5. bragstöðu).

Runurím

Runurím nefnist þegar sama endarím er í tveim eða fleiri braglínum í röð. Sé sama rímið aðeins í tveim braglínum í röð er það þó oft nefnt parrím. Runurím er til dæmis einkenni á samhendum hætti þar sem allar fjórar línur vísunnar ríma saman.


Vandsamt er sjómanns fag,
sigla og stýra nótt og dag.
Þeir sem stjórna þjóðarhag
þekkja varla áralag.
(Örn Arnarson)

Samhending

Samhending er það kallað þegar rímliðir í frumlínum dróttkveðinna hátta (aðalhendingar) stuðla saman og mynda jafnan sömu atkvæði í samstofna orðum. Dæmi: ýtandi – ýta; virðandi – virðum.

Samhent

Samhent er gjarna hnýtt á eftir öðru bragorði til að sýna að hendingar séu bæði langsetis og þversetis. Þannig merkir frumframhent (frumaðalhent) - samhent að aðalhendingar í tveim fyrstu kveðum frumlína séu ekki aðeins langsetis heldur einnig þversetis. Dæmi:

Heiðin breiða hugumkær
hvetur viljann ofar.
Leiðin seiðir, fráum fær,
fögrum sýnum lofar.
(Sveinbjörn Beinteinsson: Háttatal, 3)

Samrímaður (lo.)

[tvær eða fleiri límur í röð] sem ríma saman.

Sexkvæð/ur (lo.)

[vísa] með sex kveðum (bragliðum) í braglínu (vísuorði).

Síðlína

Síðlína nefnist jöfn lína í bragarháttum sem hafa jafnan fjölda braglína (þ. e. tvær, fjórar, sex eða átta línur). Oftast er þó talað um síðlínur sem jöfnu línurnar (þ. e. aðra, fjórðu línu o. s. frv.) í dróttkvæðum hætti og ferskeyttum hætti. – Þá eru önnur og þriðja braglína í þríhendum hætti eins og braghendu nefndar síðlínur enda eru þær jafnan samstæðar. Í þeim háttum er einungis fyrsta lína nefnd frumlína.

Síðstuðlun

Síðstuðlun heitir þegar stuðlar standa í tveim síðustu kveðum braglínu.

Skáhent

Skáhent er bragorð um rím langsetis í frumlínum sem ekki hafa endarím við aðrar línur. Hendingarnar eru milli annarrar og fjórðu kveðu. Dæmi um ferskeytt skáhent:


Leit hann brátt hvar lýsti hátt
linna bólið rauða;
ofnis má þar unga sjá,
öllum veitti hann dauða.
(Konráðsrímur IV, 20)

Skothending

skothending nefnist hálfrím langsetis í vísuorði (braglínu, hendingu). Dæmi:


Hvert stefnið þér hrafnar,
hart með flokk enn svarta?


stefn- og hrafn- mynda hér skothendingu með hálfrími sínu þar sem aðeins ríma saman lokasamhljóðar atkvæðanna tveggja. (Sjá hálfrím). Í seinni línunni mynda atkvæðin hart- og svart- aftur á móti alrím þar sem bæði ríma saman lokasamhljóðar atkvæðanna og sérhljóðar eru þeir sömu. Sú hending kallast aðalhending. Aðalhending og skothending eru gömul heiti um hendingar dróttkvæða. – Skothendingar geta einnig verið þversetis, einkum varð það algengt í rímnakveðskapnum. Á sextándu öld er farið að kalla skothendingu sniðhendu eða sniðhendingu. Þá er líka farið að nota lýsingarorðin sniðhent og sneitt um kveðskap sem byggir á hálfrími.

Skothent (Frumhent)

Skothent (frumhent) nefnist aðalhendingarím í annarri kveðu frumlína í ferhendum rímnaháttum. Nafnið á þessum hætti eða háttarafbrigði er trúlega upphaflega komið til fyrir misskilning á orðunum „skothendur þáttur“, til dæmis í fyrstu vísu fjórðu rímu Mágusrímna, þar sem skáldið er líklega að niðra kveðskap sínum. (En orðið skothent hefur einnig lifað í málinu sem vondur kveðskapur.) Nafnið hefur hins vegar fest á þessari rímskipan þótt stundum sé hún einnig nefnd frumhent.

Sniðhending

Sjá skothending.

Sterk bragstaða (sjá bragstaða og ris)

Sterk bragstaða (ris) hefur bragfræðilega áherslu, til dæmis vegna þess að í henni er langt atkvæði, rím eða ljóðstafur.

Stígandi hrynjandi

Stígandi hrynjandi nefnist ef ljóðlínur hefjast á einum eða tveim forliðum þannig að áhersla verður á öðru eða þriðja atkvæði en ekki því fyrsta. Séu allar (eða nær allar) línur vísu (erindis) af þeirri gerð verður stígandi hrynjandi ríkjandi.

Stúfur (Stýfður liður)

Einliður í lok braglínu nefnist stúfur eða stýfður liður.

Stuðlasetning

Stuðlasetning er endurtekning sömu eða líkra hljóða með vissu millibili. Slík hljóð eru kölluð hljóðstafir (ljóðstafir, stuðlar). Allir sérhljóðar geta stuðlað saman og áður gat hálfsérhljóðinn j einnig stuðlað á móti öllum sérhljóðum. Hver samhljóði getur aftur á móti bara stuðlað á móti sjálfum sér: s við s, r við r og svo framvegis. Frá þessu eru þó þær undantekningar að sk stuðlar aðeins við sk; sp við sp; st við st eða sl; sn við sn; sm við sm; sl við sl eða st.

Stuðull

Stuðull (hljóðstafur, ljóðstafur) (sjá Stuðlasetning)

Svifhent

Svifhent nefnist rím (aðalhendingar) þversetis í fyrstu kveðu allra braglína í vísu.


Tályklasneitt

Tályklasneitt nefnist þegar sniðhendingar eru þversetis í næstsíðustu kveðu í línu (fyrri kveðu í vísutá). (Sjá einnig tályklað).

Tályklað

Tályklað er kallað þegar aðalhendingar eru þversetis í næstsíðustu kveðu í línu (fyrri kveðu í vísutá). Dæmi um frumtályklaða vísu:

Vil ég á það venja mig
að vera í máli tregur.
Þegar flestir þenja sig
ég þegi viturlegur.
(Ókunnur höfundur)

Tvíhenda

Tvíhenda er vísa (erindi) með tveim hendingum (braglínum, vísuorðum).

Tvíhendur (lo)

[Vísa (erindi)] með tveim hendingum (braglínum, vísuorðum).

Tvíliður

Tvíliður er bragliður (kveða) með tveim atkvæðum. Tvíliður er ýmist réttur tvíliður (tróki) eða öfugur (jambi). Réttur tvíliður (tróki) nefnist hann ef hann byrjar á risi (áhersluatkvæði) og eftir fer eitt hnig og er það í bragfræði táknað svo: -x. Dæmi: Auðunn, Þórður, Pétur. Öfugur tvíliður (jambi) myndast í íslensku með því að eitt áherslulétt atkvæði fer á undan risi (áhersluatkvæði).

Vatnsfelldur (lo)

Vatnsfelld er vísa kölluð ef fullrím er milli allra kveða í fyrriparti og seinniparti. Dæmi um aldýr vatnsfelld sléttubönd:

Þægur, rjóður, gildur, gegn,
glaður, fríður, mestur,
frægur, góður, mildur, megn,
maður, þýður, bestur.
(Árni Böðvarsson: Úr Hugarímum)

Veggjað rím

Veggjað rím (þrírím, þrírímað) er rím þríliða í lok vísuorðs og bera þá þrjú atkvæði rímið. Orðið kemur fyrst fyrir í þessari merkingu í Háttalykli Lofts ríka Guttormssonar. Sem dæmi um veggjað rím má taka oddalínur (frumlínur) eftirfarandi ferskeytlu:


Verði sakir sannaðar
svo að treysta megi,
eru bjargir bannaðar
bæði á nótt og degi.

(Konráð Erlendsson)


Veggjaða rímið sannaðar – bannaðar er hér skáletrað. Veggjað rím er sjaldgæft í rímnaháttum enda þar ríkjandi tvíliðir í gerð braglína. Algengust er þessi rímgerð í braglínum sem gerðar eru af eintómum þríliðum. Dæmi:


Drangey var risin úr rokinu og grímunni,
rétti upp Heiðnaberg hvassbrýnt að skímunni.
– Drangana hillti úr hafsjónum flæðandi. –
Hríðin var slotuð og stormurinn æðandi.

(Stephan G. Stephansson)

Veik bragstaða

(sjá bragstaða og hnig)

Veik bragstaða (hnig) er bragfræðilega áherslulítil.

Vísufjórðungur (fjórðungur)

Vísufjórðungur er einn fjórði dróttkvæðrar vísu, en hún er jafnan átta vísuorð í heild og vísufjórðungur því tvö vísuorð, frumlína og síðlína. Í dróttkvæðum kveðskap njóta vísufjórðungar ákveðins sjálfstæðis í þeirri merkingu að þeir stuðla jafnan saman (oftast eru tveir stuðlar í frumlínu og höfuðstafur í síðlínu), og hendingamunstur fullkomnast einnig innan vísufjórðungs (jafnan eru skothendingar í frumlínum en aðalhendingar í síðlínum). Vísufjórðungar segja þó ekki endilega sjálfstæða hugsun.

Vísuhelmingur

Vísuhelmingur kallast helmingur dróttkvæðrar vísu, en hún er jafnan átta vísuorð í heild og vísuhelmingur því fjögur vísuorð (tveir vísufjórðungar). Helmingar í dróttkvæðum kveðskap eru fremur sjálfstæðir. Þeir eru til dæmis sér um mál og segir hvor um sig fulla hugsun.

Víxlrím

Víxlrím er rím sem skiptist á í braglínum þannig að kveður í fyrstu línu ríma við samsvarandi kveður í þriðju línu og kveður í annarri línu ríma við samsvarandi kveður í fjórðu línu o. s. frv. Endarím í venjulegri ferskeytlu er dæmigert víxlrím. Víxlrím getur einnig verið innrím og sýnir eftirfarandi vísa hvort tveggja:


Vinskap mildan fyrir fann,
fagnar gæðum bestu.
Líta vildi þegninn þann
þar sem ræður mestu.

(Sveinbjörn Beinteinsson: Háttatal, 31)


Hér er víxlrím í lok vísunnar en einnig ríma saman mildan og vildi í annarri kveðu frumlína (fyrstu og þriðju línu) og gæðum og ræður í annarri kveðu síðlína (annarri og fjórðu línu). Með víxlrími er oftast átt við rím þversetis (þ. e. þvert á braglínur).

Víxlrímaður (lo.)

[vísa, erindi, háttur] sem hefur víxlrím.

Viðurhending

sjá frumhending.

Viðurhending er kölluð síðari hending í vísuorði í dróttkvæðum háttum.

Þríhenda

Þríhenda er vísa (erindi) með þrem hendingum (braglínum, vísuorðum).

Þríhendur (lo)

[Vísa (erindi, háttur)] með þrem hendingum (braglínum, vísuorðum).

Þríliður

Þríliður er bragliður (kveða) með þrem atkvæðum. Þríliður er ýmist réttur þríliður (daktíli) eða öfugur (anapesti). Réttur þríliður (daktíli) nefnist hann ef hann byrjar á risi (áhersluatkvæði) og eftir fara tvö hnig og er það í bragfræði táknað svo: -xx. Dæmi: kallaði, sannaður, Þorvaldur, Ásmundur. Öfugur þríliður (anapesti) myndast í íslensku með því að tvö áherslulétt atkvæði fara á undan risi (áhersluatkvæði).

Heimildaskrá

Helstu stuðningsrit

  • Björn Karel Þórólfsson: Rímur fyrir 1600. Safn Fræðafjelagsins um Ísland og Íslendinga IX. Kaupmannahöfn 1934.
  • Craige, William A. Sýnisbók íslenzkra rímna. London og Reykjavík 1952.
  • Eide, Tormod: Retorisk leksikon. Oslo 1990.
  • Einar Ólafur Sveinsson: Íslenzkar bókmenntir í fornöld. Reykjavík 1962.
  • Eysteinn Sigurðsson: Bólu-Hjálmar. Reykjavík 1987.
  • Fafner, Jörgen: Dansk vershistorie 1. Fra kunstpoesi til lyrisk frigörelse (Dansk verskunst II,1). Köbenhavn 1994.
  • Fafner, Jörgen: Dansk vershistorie 2: Fra romantik til modernisme (Dansk verskunst II,2). Köbenhavn 2000.
  • Fafner, Jörgen: Digt og form. Klassisk og moderne verslære (Dansk verskunst, Bind I) Köbenhavn 1989.
  • Finnnur Jónsson: Stutt íslenzk bragfræði. Kaupmannahöfn 1892.
  • Gade, Kari Ellen. The Structure of Old Norse Drottkvætt and other Old Icelandic Poetry. (Islandica XLIX.) Cornell University Press. Ithaca and London 1995.
  • Helgi Sigurðsson: Safn til bragfræði íslenzkra rímna að fornu og nýju. Reykjavík 1891.
  • Hugtök og heiti í bókmenntafræði (Jakob Benediktsson ritstýrði). Reykjavík 1983.
  • Íslenzk miðaldakvæði. Islandske digte fra senmiddelalderen I.2-II. Útg. Jón Helgason. Köbenhavn 1936-1938.
  • Jón Þorkelsson: Om digtningen paa Island I det 15. og 16. Aarhundrede. Köbenhavn 1888.
  • Kristján Árnason: The Rhytms of Dróttkvætt and other Old Icelandic Metres. Reykjavík 1991.
  • Kristján Eiríksson: Stíltækni. Reykjavík 1990. [Ath. Ýmsar skilgreiningar eru teknar orðréttar eða því sem næst upp úr þessu riti án þess að vitnað sé beint til þess].
  • Jón Helgason: Að yrkja á íslensku. Ritgerðarkorn og ræðustúfar, bls. 1-38. Reykjavík 1959.
  • Latinske hymnor og sekvenser. På norsk ved Ragnhild Foss. Bokverk frå millomalderen - 7. Oslo 1938.
  • Lie, Hallvarde: Norsk verslære. Oslo 1967.
  • Den norsk-islandske skjaldedigtning. Útg. Finnur Jónsson. Bd. A I – B II. Kh. 1912-1915.
  • Oddur Einarsson: Íslandslýsing (Sveinn Pálsson þýddi) Reykjavík 1971.
  • Óskar Halldórsson: Bragur og ljóðstíll. 3. útg. endurskoðuð. Reykjavík 1977.
  • Sachwörterbuch der Mediävistik. Peter Dinzelbacher. Kröners Taschenausgabe band 477. Stuttgart 1992.
  • Sekvensene i Missale Nidrosiense. På norsk ved Ragnhild Foss. Bokverk frå millomalderen - 8. Oslo 1949.
  • Smirnitskaja, O. A.: [Verse and Language of the Old Germanic Poetry]. 2 bd. Moscow 1994.
  • Rímnasafn. Samling af de ældste islandske rimer. Udg. …ved Finnur Jónsson. I-II. Kh.1905-1922.
  • Rímnatal I-II. Finnur Sigmundsson tók saman. Reykjavík 1966.
  • [Rögnvaldur kali:] Háttalykill enn forni. (Bibliotheca Arnamagnæana, 1) Útg. Jón Helgason og Anne Holtsmark. Kh. 1954.
  • Snorri Sturluson: Edda: Háttatal. Ritstjóri: Anthony Faulkes. Oxford 1991.
  • Snorri Sturluson: Edda Snorra Sturlusonar. Nafnaþulur og Skáldatal. Guðni Jónsson bjó til prentunar. Akureyri 1954.
  • Stefán Einarsson: Íslenzk bókmenntasaga. Reykjavík 1961.
  • Sveinbjörn Beinteinsson: Bragfræði og háttatal. 2. útg. Akranesi 1985.
  • Vésteinn Ólason: Íslensk bókmenntasaga I. Reykjavík 1992. [um eddukvæði og dróttkvæði] bls. 13-262 og [um kristileg trúarkvæði til loka 13. aldar] bls. 483-515.
  • Vésteinn Ólason: Kveðskapur frá síðmiðöldum. Íslensk bókmenntasaga II. Reykjavík 1993. Bls. 285-378.