Rímur af Lykla-Pétri og Magelónu – Sjötta ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Rímur af Lykla-Pétri og Magelónu 6

Rímur af Lykla-Pétri og Magelónu – Sjötta ríma

RÍMUR AF LYKLA-PÉTRI OG MAGELÓNU
Fyrsta ljóðlína:Kvæða sprettur kornið smátt
bls.195–204
Bragarháttur:Gagaraljóð – gagaravilla – víxlhend – rímliðasneidd
Viðm.ártal:≈ 1675
Flokkur:Rímur

Skýringar

Sjötta ríma
Gagaravilla víxlhend rímliðasneidd
1.
Kvœða sprettur kornið smátt,
kemur það skjótt með blómstrið nýtt,
orða réttur akurinn þrátt,
ávöxt þótt að fœri lítt.

2.
Veit eg héldu vitug skáld
virðing gilda fyr á öld,
ljóða seldu lýðum sáld
þó listin snillda nú sé köld .

3.
Næsta vandan Fjölnis fund
fróðir kenndu máls af grind,
njótar branda bragarins mund
blíðri sendu menja lind.

4.
Edda grannt hefur öllum þént,
orðin sýnt og vísað beint,
skilnings pant so kláran kennt,
að kvœðin brýnt þeir fengu greint.

5.
Mig nú skortir málið skýrt
mansöngs art að dikta bert,
visku portið verður rýrt,
vísdóms parti dýrum skert.

6.
Fyrir mér virði eg falda skorð,
frekt á herða vanda mærð,
þó mín hirðir þungsett orð,
þau munu verða úr laginu fœrð.

7.
Sögunnar vitja senn eg hlýt,
svinn þess gœti þjóð með gát,
því skal flytja nœsta nýt
náms úr sœti ljóðin kát.

8.
Getið var í fræði fyr,
fleina Týr og meyjan skær
hvíldu þar með blíðu byr
er blóminn dýr í skógi grær.

9.
Höfuðið mæt í herrans skaut
hafði látið, minnkar sút,
værðir sætar hlaðsól hlaut,
hún fær grátið síðar út.

10.
Herrann ungi hrings á spöng
horfði lengi og skoðar kring,
sorgar þungi og sútar föng
settust engi geðs um bing.

11.
Buðlung festi blíða ást,
brugðið ljóst á menja Rist,
hjálma lestir hyggur skást
hennar brjóst að skoða fyrst.

12.
Líns af tróðu ljóst í stað
leysti klæði hetjan þýð,
litlu góðu þenki eg það
þeim að næði stýra um síð.

13.
Hirðir linna hýru vænn
hringa Nönnu athugar senn,
dúk nam finna kappinn kænn,
klárt mun bönnuð gleði enn.

14.
Hann var rauður, hef eg það tjáð,
á hennar fríðu brjósti stóð,
happa snauður rauna ráð
reyndi um síðir þeygi góð.

15.
Sundur rakti hann silkið mjúkt
og sinn þar þekkti hringinn glöggt,
bölið vakti brjóstið sjúkt,
blíðu hnekkti lukkan snöggt.

16.
Lofðungs son á lítinn stein
lagði vænan orma dún,
með heillavon að hringa rein
hvarma kléna setur tún.

17.
Bar so til sem birta skal,
brigðult sælu veltur hjól,
í því bili að hoskum hal,
hrafn um kælu renndi ból.

18.
Greitt nam hníga gulls að baug,
er glóði fagur á allan veg,
hugs um stíga hraður flaug,
harma slagur þyngist mjög.

19.
Hrafninn móður hugði bráð,
hringinn rauða fékk hann séð,
kappinn hljóður kyr á láð
kenndi nauða um sinnu beð.

20.
Hringa lundur heldur leynt
hugsar vont í fenju vind,
virðast mundi véla reynd
veiga strönd sú athöfn blind.

21.
Undir lokka ljósan bekk
lagði hann skikkju hafnar stakk,
burt sér smokkar greitt og gekk
með grimmdar þykkju ótt á flakk.

22.
Mjög sér flýtti milding skjótt,
mæði létta kunni ei neitt,
hrafninn grýtti hratt og ótt
svo hringana detta léti greitt.

23.
Hafið er fyrir hendi þar,
hilmir nær honum þangað fór,
lítið sker við landið var,
langt ei fjær um síldar kór.

24.
Býtir pella að báru völl
böli fullur ganga vill,
sýndist fella á frosta höll
fingurgullið krákan ill.

25.
Skall fyrir framan flæðin naum
við frosta heim í bragði gröm,
óhagsaman yfir straum
ei fékk sveimað hetjan fröm.

26.
Kringum fljóta fiska lút
fleygir ríta hafði gát,
geymir spjóta gyrtur sút
gamlan líta náði bát.

27.
Þennan kaus við karfa bás
kappinn ljós en minnkar prís,
áralausum ýtti á rás,
ótöm sjós var ferðin vís.

28.
Hýr frá láði halda réð
hilmirs niður skerinu að,
fljóta náði greitt með geð,
gamall orðskviður sannar það.

29.
Nær sem lemur neyðin næm
náms um geima minnis ham,
ein ef kemur ánauð slæm,
aðra teyma með sér nam.

30.
Stormi lysti af landi fast,
lofðung traustur er haldinn verst,
vatnið hristi veðrið hvasst,
vasaði flaustur undan mest.

31.
Seltu frekur sjórinn rauk,
sjóli bleikur verða tók,
bylgjan hrekur báru hauk,
borða veikum nauðir jók.

32.
Um hyggju sjóði hryggðar vað
hirðir dáða finna réð,
lista fróður lausnarann bað
með ljúfri náð að hugga geð.

33.
Hálfan dag um humra lög
herrann frægur reyndist nóg,
vinda slag um visku veg
vakti nægur harma róg.

34.
Trú eg yrði tjalda borð
Tyrkja hurð á reyðar jörð,
so með furðusamleg orð
sáu stirðan bauga Njörð.

35.
Heiðnir venda hrings að lund,
honum grandar sorgin vönd,
frækinn henda af fiska grund
og færa að vanda út um lönd.

36.
Harmi lest var hjartað tvist,
með heiðnum reisti fylldur þjóst,
þolinn mest fyrir menja Rist,
meinið geyst er huldi brjóst.

37.
Hilmir branda í hægum vind
heiðnir renndu á laxa grund,
við Alexandríam hafna hind
hoskir lenda um nokkra stund.

38.
Stýrði heiðinn stillir þjóð,
stór með dáðir bragna við,
höldum greiðir hrannar glóð
hvörgi staður að eyða frið.

39.
Skips nam stýrir skjalda grér
skjótt að færa kóngi þar,
mennta skýr það soldán sér,
að sið og æru riddarinn bar.

40.
Þengill stirður þessi orð
við þýðan sverða talar Njörð:
„Raunum firrður að reiða borð
rétt skal verða þín aðgjörð.„

41.
Í lofðungs höllu lyndisdæll
lundur pella varð með snill
so af öllum ástarsæll,
að enginn hrella maður vill.

42.
Látum fangaðan dvelja dreng,
drjúgum þvingar sorgin ströng.
Víkjum þangað Fjölnis feng
sem fögur hringa sefur spöng.

43.
Vaknaði glóða báru blíð
bríkin við og mæla réð:
„Tók eg góða hvíld um hríð,
hafði frið og náðir með.“

44.
Í því lítur hún upp með gát,
af odda njót þá hvörgi veit,
huggun þrýtur, herðir grát,
hvarma fljóta vötnin heit.

45.
Hátt nam pella væn um völl
vefjan kalla búin snill,
ómegin féll á þorna þöll,
þrautin varla linast vill.

46.
Raknar aftur refla nift,
raunatæpt stóð hyggju loft,
minnkaði kraftur, megn er svipt,
meyjan æpti títt og oft.

47.
Þá nam tala þeygi sæl,
þrungin víli, tvist og föl,
Sviðris vala sortnar dæl,
seint trú eg hvíli þetta böl.

48.
„Ó minn kæri elskhuginn trúr,
illa fór þú gleymdir mér,
næsta særir sinnu múr
sorgin stór, eg treysti þér.

49.
Barstu kurt og kærleiks art,
það kalla eg rýrt og ónýtt gjört.
Hvör þér burtu héðan snart
hefur stýrt?“ kvað meyjan björt.

50.
Klögumál slík bar kyrtla eik
klén og mjúk, er nauðir jók,
hringa brík í bragði bleik
af bölinu sjúk þá verða tók.

51.
Með það slag um myrkvan skóg
meyjan fögur heldur sig,
heilan dag með harma róg,
hryggðar slög og raunastig.

52.
Nóttin há yfir himininn sló,
hringa brú eitt finnur tré,
sorgin lá í sinni þó,
siðug frú þar upp á sté.

53.
Mátturinn kífi minnkar af,
meyju krefur að halda töf,
unga vífið ekkert svaf,
alla kefur værðar gjöf.

54.
Næsta líður Njörva jóð,
nistils Þundar birtust ráð,
sæll og fríður so upp stóð
sonur brúðar Hárs á láð.

55.
Sætan rík úr sagðri eik,
sorgar frek en gleðilök,
auðar víkur ey á kreik
með eymda þrek og hryggðar mök.

56.
Hafnar loga hýrutreg
Hlökkin fögur, sómalig,
hitta vogar víðan veg
vagna drögur og manna stig.

57.
Víkur mæt frá vegi út
um veldið hvíta trés við rót,
enn tók sæti angruð sút,
ef einhvör líta næði snót.

58.
Litlu síðar lyndisgóð,
lúin af mæði getur séð,
götur víðar gengur fljóð,
gömul klæði bera réð.

59.
Pílagrímsreisu hin prúða drós
plagar vís og bænir les,
flæðar eisu foldin ljós
á fætur rís úr skugga trés.

60.
Svanninn hvíti hýr í mát
hyggst að bæta nú um skraut,
klæða býti bað með grát
brúður teita haldin þraut.

61.
Hin kvað lítt sér henta spott:
„Hafa máttu klæðin sett.“
Aftur blítt með yndið gott
ansar hún brátt: „Mig skil þú rétt.

62.
Í meining góða mæli eg það“,
menja hlíð þá greina réð,
„hringa tróða, beint eg bað
byggist fríð ef lysti geð.“

63.
Um þær skiptu klæðin keypt,
kvíða loft var blíðu heft,
gullhlaðs nift þá gengur dreift,
götum oft þó fengi sleppt.

64.
Andlits höll og augna stall
eikin pella hylja vill,
bauga þöll fékk blíðu spjall,
böls nam hrella nauðin ill.

65.
Sætan gengur, leið var löng,
ljóst hefur fangað harma bing.
Vil eg ei lengur geðs um göng
gagara banga ljóðin slyng.