Allra augu í senn | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Allra augu í senn

Fyrsta ljóðlína:Allra augu í senn
Ætlaður höfundur:Hallgrímur Pétursson
bls.6–9
Bragarháttur:Fjórar línur (tvíliður) þríkvætt aaBB
Viðm.ártal:≈ 1650
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Borðsálmurinn í söngvísu snúinn.
Eignaður séra Hallg. Pétur S: Sa fyrri
Tón: Faðir á himnahæð etc.
1.
Allra augu *um sinn
á þig vona drottenn.
Þú gefur þeim þeirra fæðu
í þægan tíma án mæðu.
2.
Hönd þinni helgri nú,
*herra, upplykur þú,
allar skepnur so seður,
með sætleiks blessan gleður.
3.
Sé Guði sönnum dýrð,
hans syni og anda skýrð,
sem var fyrir öld eilífa,
er og jafnan mun blífa.
4.
Faðir á himnum hæst,
helgað sé nafn þitt stærst.
So trú vor og líf þér líki
lát hér koma þitt ríki.
5.
Verði þinn vilji hér
víst sem á himnum sker.
Nauðþurftar brauðið neyta
nú í dag virstu veita.
6.
Forlát oss illverk skeð,
allar skuldir þar með,
sem vér vægð viljum veita,
þeim við oss illa breyta.
7.
Í freistni leið oss ei inn
þó angri holds veikleikinn
heldur frels oss frá illu,
ógn, synd, skömm, hræsni, villu.
8.
Því að ríkið þitt er,
þar með öll magtin hér
og dýrð án afláts framen
um aldir alda Amen.
9.
*Blessa oss og einninn þær
ástgjafir sem nú vær
þiggjum af góðgirnd þýðri
og þinni miskunn blíðri.
10.
Fyrir þinn sæta son,
sem er vor hjálparvon,
heyr oss, himneski faðir,
höldum so máltíð glaðir.


Athugagreinar

(Hallgrímur Pétursson: Ljóðasafn 4, bls. 6–9. Í útgáfunni er handritið JS 272 4to I, bl. 113v–114r valið sem aðaltexti en vikið frá því á þrem stöðum: í 1.1, 2.2 og 9.1 og er því fylgt hér). Önnur þekkt handrit eru; JS 229 8vo, bl. 41v–42r, 42v; ÍB 585 8vo, bl. 27r–v, og AM 89 8vo, bl. 69r (brot).
Lesbrigði:
1.1 um sinn] < 229, 585, 89. i senn 272.
2.2 herra] < 229, 585. hægre 272.
9.1 Blessa oss] < 229, 585. Bless' oss og 272.