Sigurbjörn Jóhannsson frá Fótaskinni | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Sigurbjörn Jóhannsson frá Fótaskinni

Fyrsta ljóðlína:En var það ei lán gegnum andstreymið allt
bls.156
Bragarháttur:Átta línur (þríliður) fer- og þríkvætt aBaBcDcD
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1903
1.
En var það ei lán gegnum andstreymið allt
jafn öruggt á hending að fleytast?
Og varð hún ei ylur, þá annað var kalt,
og örvun er tókstu að þreytast?
Hvort varð ekki bragur þér blessunar-nyt
í búi, er lítil var eigan?
Og brýndi ekki óður þinn unað í strit
og eggjaði ljáinn þinn deigan?
2.
Og víst máttir and-vökur illskárri þú
en aldar-hátt svefnpurku-lyndan,
því ekki er glaðvært hjá morrandi múg
sem mókar sig hugsjóna-blindan.
Og yrði ei huganum hagurinn smár
að heiminum, lífinu sjálfu
er veitir sem sæmdar-gjöf sextíu ár:
að sofa þau út nær að hálfu.
3.
En hitt er samt mann-raun, og nærri því nauð
of nær-göngul öllum, sem reyna,
að metast við heiminn um menntunar-brauð.
fá mola og úrkast og steina –
fá sáðland sér úthlutað óræktarmest
í urð og með jarðvegi grunnum,
og sjá sér svo ákveðinn uppskeru-brest
í alls-lok á hrjóstrum svo þunnum.
4.
Og ætli að sú tunga með úrkostinn þann
ei áfrýi vandlætis dómum
sem matti það sjálfþægð að syngja við mann,
var samkvæða almanna rómum?
Sem varði um málsnilld og ljóðauð síns lands
í landeign ins ríkara og stærra,
sem dró að því athygli útsveita manns
ef einhver söng gleggra eða hærra.
5.
Á horfinni öld þótti harpan sú snjöll,
er hirðskáldin strengina knúðu,
sem lang-spentir náðu um Norðurlönd öll
frá Niðarós suður um Rúðu.
Við könnumst við vörumark ómum þeim á
um ofjarl og skattkónga raðir
og einkvæður hróður var hátturinn sá,
en hann varð þó sögunnar faðir.
6.
Og aukin er harpan vor norðlenska á ný,
en nú liggja strengirnir vestur –
og þinn söng um mannkomu óbyggðir í,
um íslenskar héraða-festur.
Og þú ristir ljóðstaf á akur og eik
með yfirbragð þjóðlífs og foldar,
og kveðandi vígðir þú lýðmót og leik,
og landnemann söngst þú til moldar.
7.
Ef hlýviðri félst þér, að hending varð það,
og hríðin á sumardag fyrsta –
og sneyðir finnst nágrenni orðinn þér að,
og autt vera skarð sinna lista.
Því um það er sveitin, sem ber nú þín bein
í barmi sér, ljósust til vitna:
Hún gull-fáði nafnið þitt, gróf það í stein
til geymslu yfir strenginn sinn slitna.