A 194 - VII [7.] sálmur. Domine Deus meus | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

A 194 - VII [7.] sálmur. Domine Deus meus

Fyrsta ljóðlína:Á þig, Drottinn, er öll mín vo
Bragarháttur:Sjö línur (tvíliður+) fer- og þríkvætt:ababccb
Viðm.ártal:≈ 0
VII [7.] sálmur. Domine Deus meus
Er bænar sálmur í móti ofsóknurum og bakmálugum öfundarmönnum, þar með áminning, að menn syndgi ekki upp á Guðs náð, því Guð hann hefnir og refsar þó seint verði.
Má syngja sem: Væri Guð oss nú ekki hjá.

1.
Á þig, Drottinn, er öll mín von,
af óvinum mig leysir,
að grípi ei mína önd sem leon,
ef enginn mig við reisir.
Herra minn, hafi eg svo breytt,
með höndum mínum gjört órétt,
styggt þann mig friðar fýsir.
2.
Og hafi eg minn mótstöðumann
móðgað án fullra saka,
sál mína þá ofsæki hann,
svo hana kunni taka.
Til jarðar niður troði hann líf,
tign minni veiti öngva hlíf,
þar til í duft kann þjaka.
3.
Herra, rís nú og upp hef þig
yfir óvina bræði,
aftur í stétt þá innset mig,
í hvörri bauðst eg stæði.
Svo til mín fólkið safni sér,
sökum þessa að vinnist mér
aftur koma í hæðir.
4.
Dómari allra Drottinn er,
dæm þú um mitt réttlæti,
ákefð guðlausra endist hér,
ósekur liðsemd mætir.
Hjörtun og nýru þekkir þú,
því sért minn skjöldur, Herra, nú
sem prúðsinnaðra gætir.
5.
Réttur dómari Drottinn er,
dagliga ógn því gefur,
vilji nú menn ei sjá að sér,
sínu sverði rykkt hefur.
Boga sinn spennt og búið hann,
banvæn skeyti ei vanta kann,
handvís þá hefndin kemur.
6.
Gæt þess hvörninn sem guðlaus mann,
grimm ráð hefur í sinni,
stóra ólukku stofna kann,
stað þó það öngvan vinni.
Opnaði gröf og öðrum bjó,
í hana sjálfur fellur þó,
svikræði sín að finni.
7.
Ólukka, sem hann öðrum býr,
á hans höfuð mun detta,
ofan á hvirfil honum snýr
hefnd sinna illskupretta.
Herrans réttlæti hrósa eg,
hans nafn lofa á allan veg
og þakka honum þetta.
8.
Föður, syni og anda sé
æðst dýrð um jörð og himin,
eins sem hann var að upphafi
án enda verði framinn.
Kenn oss að halda kristinn sið,
kvittast og skiljast syndir við,
sá það vill syngi amen.