Minni Alberta | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Minni Alberta

Fyrsta ljóðlína:Þú fagra sveit í fjalla arm
bls.106
Bragarháttur:Tvöföld ferskeytla með forlið
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1893
Þú fagra sveit í fjalla arm,
vor fóstran unga, nýja,
sem vermir milt þinn mjúka barm
við morgunsólu hlýja,
með silfurtæru fjótin fríð,
með flöt og kletta-hallir,
og marga græna grenihlíð
við gljáar vetrar-mjallir.

Sem réttir dala-faðminn fram
með fellum, hólum, skörðum
og mörgum hlé-skóg, hlýjum hvamm,
til hælis veðurbörðum.
Með grænna slétta gárótt höf,
sem golur aldrei hræra,
Með hundrað vatna heiðblá tröf
og hlíða-læki tæra.

Með náttbjart vor, með norðurljós
á nyrzta jökulhorni,
með hrímið hvítt um rauða rós
á rökum sumarmorgni.
Með vorrjóð, þykkleit Þorra-ský,
sem þeysa um sólar-glampa,
uns þýðu-brosin hreyfast hlý
um hrímga vetrar-kampa.

Þú fóstran ung, sem fjöll þig kring,
hjá frelsi og þjóðheill vaktu,
og að þér margan Íslending
í útlegð sinni taktu –
en spenntu lengst þitt fjalla-fang,
með frosti og jökulstáli,
á móti auðvalds yfirgang’
og ofsa-trúar báli.