Rímur af bókinni Rut – Önnur ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Rímur af bókinni Rut 2

Rímur af bókinni Rut – Önnur ríma

RÍMUR AF BÓKINNI RUT
Fyrsta ljóðlína:Annað sinn skal óðurinn minn
bls.142–145
Bragarháttur:Ferskeytt – skáhent eða skáhenda (fráhent)
Viðm.ártal:≈ 1600
Flokkur:Rímur
1.
Annað sinn skal óðurinn minn
af þeim góða stofni
fram í letur færast betur
fyrr en mærðin dofni.
2.
Guðs vill náð og gæsku ráð
gæta best að einu.
Ekkert sáð hefur enn forsmáð
sem er með hjarta hreinu.
3.
Hvör sem tryggð og hreina dyggð
í hjarta náir að geyma,
herrann sá sem himni er á
honum mun aldrei gleyma.
4.
Dæmin góð um dyggðafljóð
drósir bið eg að læri.
Möversk Rut fékk hæstan hlut
þó heiðin áður væri.
5.
Nú með því að Naemí
naumu gulls vel unni
hún hóf svo tal sem herma skal
af hreinum elsku brunni.
6.
Dóttir góð, kvað dyggða fljóð,
duga mun ráðið svinna.
Hlýð þú mér til hvíldar þér
eg hlýt með brögðum vinna.
7.
Bóas sá, sem fórstu frá,
er frændi niðja minna.
Hann vinsar korn, kvað veiga norn,
þú verður í nótt hann finna.
8.
Smyr og þvo og sýn þig svo
með sæmd og blóma þínum.
Hann liggur nú, kvað listar frú,
í laua garði sínum.
9.
Til fóta hans, þess fróma manns,
far þú niður í klæðum.
Athuga senn að öngvir menn
ykkar viti af ræðum.
10.
Ei kva[ð]st* sú hin unga frú [Ath. 2. útg.]
af því skyldi bregða.
Hún veik af stað svo vel var það,
þar varð af engin tregða.
11.
Í laua* garð hún leynast varð
lærð til allra dáða.
Mettur og glaður, hinn göfgi maður,
genginn var til náða.
12.
Blæju þá sem breidd var á
braut hún upp til fóta.
Leggst hún niður en laufa viður
lét hana dyggða njóta.
13.
Um miðja nótt kom ógn svo ótt
yfir Bóas í svefni.
Vaknar þá og síðan sá
svinna hringa gefni.
14.
Hann spyr þá sem heyra má
hvör sú kvinna væri.
Ambátt þín, kvað auðar lín,
eðla maðurinn kæri.
15.
Lifandi Guð þig létti nauð
og láti blessan finna.
Ljóst er það í þessum stað,
þú ert ein dyggðar kvinna.
16.
Manndyggð sú, en mæta frú,
er meir en gjörvallt annað.
Þú sagðir nei og sinntir ei
um sjáleik yngismanna.
17.
Hún nefnir sig svo siðsamlig
hjá svinnum heiðursmanni.
Arfurinn ber sá einum þér;
á mig breið, kvað svanni.
18.
Þó beri mér, hann Bóas tér,
bæði arfur og kvinna
annar er hér sem enn er nær,
áður vil eg hann finna.
19.
Hafðu, dóttir, náð í nótt,
næm á allt hið góða.
Þegar í ár svo ætt sé klár
arfinn skal honum svo bjóða.
20.
Ef neitar hann vor nándarmann
naumu gulls að festa
eg tek þig þá, þú átt mig svá,
ekki skal það bresta.
21.
Hreinlífis blóm fær hæstan róm,
þú haf til morguns náðir,
af saurgan hrein í hvörri grein;
heiður er slíkt og dáðir.
22.
Vert óhrædd, í heiðri gædd,
hér skal alls við leita.
Hvað segir þú mér, með þýðleik þér
það skal eg gjörvallt veita.
23.
Um dægra mót hin mæta snót
að morgni upp réð standa;
einninn hann, sá eðla mann,
eftir sínum vanda.
24.
Fara vill burt með fremd og kurt
fyrr en vakna sveinar.
Við því sá, hún vildi ei fá
vonda ófrægð neina.
25.
Láttu hér, kvað hann, hjá mér
hafnar skikkju þína.
Svo verður þú, hin væna frú,
vís um ætlan mína.
26.
Byggmjöls korn að bauga norn
Bóas gefur hinn svinni.
Mæla sex, því mildin vex,
mágkonu færir sinni.
27.
Hún spyr nú, hin nýta frú,
Naemí hvörsu gengi,
auðar lín um erindi sín
hvör endalok að fengi.
28.
Hún sagði þá eð sanna frá
að sæmdarmaðurinn veitti
kornið sitt og hér með hitt
hvörsu hann við hana breytti.
29.
Hún sagði þá við seima ná:
Svo réð Bóas inna:
Tómhent má ei menja ná
mágkonu sína finna.
30.
Nú með frí, kvað Naemí,
með náðum skaltu bíða
því að eg veit hann heldur heit
við hringa gefni fríða.
31.
Hvað lofaði hann sá listarmann
leitar víst að efna
hvört sitt orð við hringa skorð
og hvað sem til skal nefna.
32.
Að morgni fríður Bóas bíður
beint í staðarins porti.
Erfingjann þar hitti hann,
hugvit ekki skorti.
33.
Hann hóf þá tal við tiginn hal:
Þú tef hjá mér um stundir.
Hinn sest niður sem hann biður;
segir hann: Hvað býr undir?
34.
Hann tók þar meður og til þess kveður
tíu öldunga svinna
að athuga meir hvað mæltu þeir
svo megi þar ekki að finna.
35.
Með því nú að Naemí sú
náin er okkur báðum;
akurinn sinn vill selja svinn
svo með bestu ráðum.
36.
Því býð eg þér það byrjar mér
bæði akurinn þenna
og menja grund, það möverskt sprund
sem mágkona er nú hennar.
37.
Akurinn þann, kvað ungi mann,
til eignar vil eg mér játa,
borga eg hann ef kaupa kann
en konuna í öngvan máta.
38.
Ef akurinn ber til eignar þér,
enn réð Bóas inna,
það er svo sett og reyndar rétt
að Rut skal vera þín kvinna
39.
því enginn er sá arfurinn ber
utan þér rétt með sanni
ellegar eg á annan veg
ef þig fær ei svanni.
40.
Máttu nú því menja brú
með þeim akri festa
ellegar eg á annan veg;
ekki skal það bresta.
41.
Þetta allt þú eignast skalt,
erfinginn réð svo mæla,
segi eg því nei og ætla ei
arfvon mína að tæla.
42.
Ísraels lið hefur soddan sið
sem segir í óði mínum;
annan skó þá af sér dró
ef arfi neitar sínum.
43.
Ef arfa góss aða annað hnoss
af sér gjörir að játa
sinn skó á þann er hreppti hann
hlaut til vitnis láta.
44.
Svo breytti sá við Bóas þá
er bauð hann akurinn þenna.
Á fót hans dró þann fagra skó
svo fólkið mátti kenna.
45.
Bóas innir annað sinn
við öldungsvald og lýði:
Nú kaupi eg djarfur allan arf
undir mig með prýði.
46.
Af Naemí eg fæ með frí
það féll til hennar niðja
og Mahlóns hlut, hans húsfrú Rut,
til handa mér skal biðja.
47.
Mahlóns nafn, sá mér var jafn,
mun þá gleymast eigi.
Þér eruð víst, það villist síst,
mér vitni á þessum degi.
48.
Fyrst Mahlón sá er fallinn frá,
frændi vor enn góði,
Guðs míns náð mun gefa mér sáð
gott af þessu fljóði.
49.
Treysti eg framt um fræða skammt
sem fræknir menn á glímu.
Málfar samt að mér er ótamt,
mun hér endir á rímu.