Skjaldmeyjarkvæði | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Skjaldmeyjarkvæði

Fyrsta ljóðlína:Kosts og gæða kennir þar
Bragarháttur:Tíu línur (tvíliður) fer,- þrí- og fimmkvætt aBaBaccaDD
Viðm.ártal:≈ 1750
Flokkur:Vikivakar

Skýringar

Skjaldmeyjarkvæði eður lofkvæði um Hornstrandir, í hvörju upp eru talin landgæði og hlunnindi þessa landsins norðlægasta útkjálka.
Viðkvæðið:
Góður þykir *grautur méls,

girnist eg hann löngum,
ef mér skemmtir skjaldmeyin á Dröngum.

1.
Kosts og gæða kennir þar,
kólgurekstur hranna;
kjötið feitt og kálið var
kæti ferðamanna
en jómfrúin af öðru bar,
öllum sýndi gæsku þels.
Góður þykir grautur méls.
Ljóss hún getur gefið skar,
girnist eg hann löngum,
ef mér skemmtir skjaldmeyin á Dröngum.
2.
Brenniviðar er ei án
í þeim góðu löndum;
eins og mý við mykjuskán
morkefli eru á Ströndum.
Vetrar hirði eg lítt um lán
þó leggi hann að fyrir Mikaels.
Góður þykir mér grautur méls.
Eldurinn, þó rjúki Rán,
rýkur eftir föngum
ef mér skemmtir skjaldmeyin á Dröngum.
3.
Þar eru berin blá og svört,
besta hvönn í heimi,
jurtin grá og grösin björt
galdurs ráða sveimi.
Allt er sem í sögu gjört,
særing færir upp til mels.
Góður þykir mér grautur méls.
Niðriksstein og agat ört
þeir aftra draugagöngum
ef mér skemmtir skjaldmeyin á Dröngum.
4.
Margt er í þræsum, þorngrund mjó!
Þar um ekki fleira.
Vísir menn þar verka nóg
þó vilji fæstir heyra.
Enginn gleypir allt við sjó
þó ætti hann vit og maga Bels.
Góður þykir mér grautur méls.
Eg vil setjast hér í hró
og hlýða fræðasöngum
ef mér skemmtir skjaldmeyin á Dröngum.
5.
Á Ströndum eru fén svo feit
fæstir síður eta
þeir sem eru úr annarri sveit,
innlendir það geta.
Mjólkin, þó að hún sé heit,
hnígur vart við bólið þéls.
Góður þykir mér grautur méls.
Skeifan flaut um rjóma reit,
mig rankar til þess löngum
ef mér skemmtir skjaldmeyin á Dröngum.
6.
Því er ei kyn að þar sé gott
og þægilegt að búa;
þó að kæli veðrið vott
viðurinn kann að hlúa.
Enginn haldi spaug né spott
þótt spyrjist þaðan koma éls.
Góður þykir mér grautur méls.
Klæðin aldrei þurfa þvott,
þornar hár á vöngum
ef mér skemmtir skjaldmeyin á Dröngum.
7.
Hafið auðinn sýnir sinn
sem eg virði ei minna.
Hvað er betra en hákarlinn
hér á landi að finna?
Fátt eg tala um fiskinn hinn:
flyðru, þorsk og afla sels.
Góður þykir mér grautur méls.
Af honum hengjast ósköpin
upp í hjall á stöngum
ef mér skemmtir skjaldmeyin á Dröngum.
8.
Strandir margan hafa hver
haf- og jökulísa,
þeir gefa pétursalt af sér,
samt um nætur lýsa.
Í stuttu máli birta ber
blíðugleði sjónahvels.
Góður þykir mér grautur méls.
Paradís að íslensk er
útá þessum töngum
ef mér skemmtir skjaldmeyin á Dröngum.
9.
Strandir kom eg eitt sinn á,
auðar leit og tómar,
seint mér vinnst að segja frá
sögðum jarðarblóma
en mig gjörir það að þjá
þær eru sagðar bæli déls.
Góður þykir mér grautur méls.
Samt eg vil þeim hírast hjá,
hrinda stúr og öngum
ef mér skemmtir skjaldmeyin á Dröngum.
10.
Æði veðurs olli grett
að eg kvað um þetta.
Tvisvar lýsu þakið þétt
þá réð sundur detta,
veitu spjót í sárin sett
síðan tvö þá mæðin hels
– góður þykir mér grautur méls –
Andar handan vana vett
við er reiða þröngum
ef mér skemmtir skjaldmeyin á Dröngum.


Athugagreinar

* Grautur er hið besta fágæti á Hornströndum, hvar skjaldan er farið í kaupstað.
3.3 Grájurt eður fjandafæla brúkast til galdra.