Vísur af ríka manni og Lasaró | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Vísur af ríka manni og Lasaró

Fyrsta ljóðlína:Lofaður sértu lausnarinn góði
bls.350–352
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður) ferkvætt AbAbAb
Viðm.ártal:≈ 1600
Með sama lag
1.
Lofaður sértu, lausnarinn góði,
fyrir lánið allt þú veittir mér.
Mætta eg nú í mínum óði
mæla gott svo líki þér
út af þínu eigin blóði
sem allra mesta hjálpin er.
2.
Mildur Drottinn, miskunn þína
muntu öllum veita nú.
Heftast mun þá hryggðar lína
ef höldum oss við rétta trú.
Vér fáum þá lyst og lukku fína
ef leið og veginn greiðir þú.
3.
Eg kann segja af einum manni,
undra ríkur í heimi var,
þá hann sat í sínum ranni
og sæmilegustu klæðin bar.
Búið var til við borð hans hans frammi
bestu krásir að fengust þar.
4.
Brúkaði sig með bjór og víni
burgeis ríkur nátt sem dag.
Með gulli, silfri og guðvefslíni
gleðikvæði og hörpuslag.
Hugsaði um það halurinn fíni
hvörgi að víkja sínum hag.
5.
Lasarus var að nafni nefndur
nauðum hlaðinn og kaununum,
í sorg og pínu sá var stefndur,
sat og var í raununum.
Í sæmdum Drottins sá mun vendur
sem seinna er getið í laununum.
6.
Hörmulega tók hungra þenna,
með hryggð og stórum nauðunum,
fékk hann hvörgi fæðu að kenna
af fiski eða brauðunum
en halurinn ríki réð horn að spenna
og hugsaði lítt fyr sauðunum.
7.
Þangað réð hinn volaði víkja
sem var sá ríki fæðu að fá.
Undralengi ætlar að ríkja,
auma vildi hann ekki sjá.
Sannlega gjörir sá sig að svíkja
sem svo vill falla miskunn frá.
8.
Hundar sleiktu kaun hins kalda
sem kvalinn fyr dyrunum lá.
Dauðinn vildi drengnum halda
í dýrð himnanna inn mun gá.
Faðir vor, Guð, mun fæðu gjalda,
í faðm Abrahams var borinn sá.
9.
Dauðinn sótti heim drenginn ríka,
djöflar komu fljótlega þar.
Illri pínu að honum víkja,
ekki varð þá af svörunum par
og eilíf nauðin einninn líka,
allt hans hjarta í sundur skar.
10.
Í dauðans nauðum drengurinn stendur,
djöflar píndu þennan mann.
Loginn gaus um líf og hendur,
líkaminn allur þanninn brann.
Sá mun vel að visku kenndur
sem voðann kann að forðast þann.
11.
Upp leit hann þá auga sínu
og yfir sér vera Lasarum
undra fagurt með englum skína
og er svo kveðið í vísunum:
Abraham, faðir, fyrir elsku þína
af mér sviptu pínunum.
12.
Láttu mig fá, Lasarus góði,
lítinn dropa af fingri þín
af köldu vatni í kvalanna flóði,
að kæla mætta eg tungu mín.
Fyrir sællífið, kvað seggur enn fróði,
sit eg nú í kvölum og pín.
13.
Svaraði Abraham svo á móti:
Sælu alla hefur fengið þú
áður í heimi með Afmors hóti,
ekki þarftu mín við nú,
en Lasarum aldrei ljósið þrjóti
og líf eilíft fyrir sína trú.
14.
Vegur er hár úr víti neðan,
því verður þú að blífa þar,
og enginn heldur ofan héðan
ætla eg greiði fyrir þig svar.
Þig sögðu margir á miskunn tregan,
má þér ekki hjálpa par.
15.
Frændur á eg fimm á lífi.
Fara láttu Lasarum,
að segja þeim frá sútakífi,
að sit eg nú í pínunum,
svo flokkurinn djöfla frá þeim drífi
og forði þeim við raununum.
16.
Abraham svarar aftur á móti:
Eru til nógir spámenn nú.
Móyses með mjúku hóti,
mega þeir honum hlýða af trú.
Svo fátækir þeirra fjárins njóti,
felast mun ei ömbun sú.
17.
Sagði hann nei við Abrahams orðum,
eigi vildi hann hlýða á það,
nema framliðinn nökkur færi úr skorðum
fram á þeirra eigin stað
og iðran gjörði sem aðrir forðum,
aumt að firrast sorgar bað.
18.
Dauða menn trú eg ei dugi að senda,
dauflega munu þeir hlýða þeim,
fyrst spámanns orðum þeir spyrna og venda
en spenna að sér myrkra eim.
Í dauðans nauð munu drengir lenda
og dragast svo í kvalanna hreim.
19.
Gjörist hér endinn guðspjalls orða
sem getið var fyrr í textanum.
Guð himnanna gjöri oss forða
við grimmri pín og myrkrunum.
Heilags anda hæsta skorða,
hjálpi oss frá pínunum.
20.
Fyrir hugskots augum höfum nú þetta,
hvað hlaut hinn ríki af veraldar makt.
Vér stillum oss að steyta og metta
og stynja út af matarins frakt.
Hungraða skulum vér heldur við rétta
og hugsa um það sem Guð hefur sagt.
21.
Guð vor faðir, geymi oss alla,
svo göngum ei af réttri trú.
Bið eg þar um konur og karla
að kærlega honum hlýðum nú.
Svo megum vér ekki í mistraust falla,
þá mönnum hjálpin kemur sú.
22.
Lofum nú allir lausnarann þjóða
og látum oss vera hjartnæmt það.
Hann mun víst oss visku bjóða,
vér ef höllunst honum að.
Rekkum vill það ritning hljóða
að ríkan fái þeir hvíldarstað.
23.
Aldrei skulum vér án Guðs ótta,
allra helst þá vel vill gá.
Ef vér kunnum að fara á flótta,
fullvel mun oss það hlífa þá.
Spámanns orð það spaklega votta,
hann spyrni oss aldrei miskunn frá.
24.
Heilagur andi huggi oss alla,
hin hjartanlegasta guðdóms náð.
Verða nú þessar vísur að falla,
viskuna brestur og mælskusáð.
Helgi Drottinn, konur sem karla,
eg kann ei finna betra ráð.