| Vísnasafn Skagfirðinga
Vísnasafn Skagfirðinga

Innskráning ritstjóra
AAAA2


Tildrög

Jóhann Ó. Haraldsson. In Memoriam.
Söngva og gleðigjafi.
Þín gnoð er komin af hafi
heim í friðarins höfn.
Velti þér alla vega
viðsjál dröfn.

En auðlegð þú áttir í sjóði.
Unað í söng og ljóði
skapandi listamannslund.
Afl sem gat frjófgað og fegrað
frosna grund.

Gott var án græsku að una
við gamanmálanna funa.
Af alhug ég þakka þér
glitfagrar gleðirósir
er gafstu mér.

Í rödd þinni heyrði ég hljóma
himinsins leyndardóma.
Lyftist ég langt í hæð
upp fyrir hversdags annir
og alla smæð.

Þökk fyrir ljúfu lögin
lifandi hjartaslögin
í þínum svásna söng.
Hringdi svo lengi yfir landið
þín Líkaböng.

Hljóðnuð er hljómþýð tunga.
Hrundið er dagsins tunga.
Bíður þín heiðið blátt.
Fljúðu nú söngvasvanur
í sólarátt.