Merkisdagur í þorpinu | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Merkisdagur í þorpinu

Fyrsta ljóðlína:Horfi ég upp og horfi ég niður
Viðm.ártal:≈ 1975
Tímasetning:1972
Flokkur:Gamankvæði

Skýringar

Úr gamanpistli sem settur var saman í tilefni af því, þegar sundlaugin við Víkurröst ( kennslulaug við íþróttahúsið ) var vígð 1972 við hátíðlega athöfn!
Tilhögun hátíðar var á þessa leið:
1. Þorpsskáldið flytur vígsluljóð
2. Sveitastjórinn heldur ræðu
3. Hreppsnefndin syndir
4. Boðsund milli Kvenfélagsins og Samtaka frjálslyndra og vinstri manna
5. Alþýðan baðar sig
Horfi ég upp og horfi ég niður.
Ég held það sé flestra skálda siður.
Sé ég búna sundlaug fríða
sólina uppi á himni bíða.
Vel sé þeim, sem hnossið hlýtur
hans mun belgur verða hvítur.
En hreppsnefndin flýtur.

Alltaf tala afreksverkin
enda sjást þess víða merkin.
Hér er vatn í volgum polli
verjum hann frá lífsins solli.
Vei sé þeim er bönnin brýtur
hjá baðverðinum fær hann vítur.
En hreppsnefndin flýtur.

Þó að líði æviárin
alltaf fækki á mönnum hárin.
Þennan dag skal þjóðin muna
þegar hún fékk sundlaugina.
Ánægja fólksins aldrei þrýtur
þótt í hana falli stundum skýtur.
Því hreppsnefndin flýtur.