Ljóssins konungur | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Ljóssins konungur

Fyrsta ljóðlína:Ljóssins konungur, kom þú hér við í leið,
Viðm.ártal:≈ 1975
Ljóssins konungur, kom þú hér við í leið,
kom þú við hjá þeim er í skuggunum bíða.
Ég heyrði jódyn er fylkingin framhjá reið,
þín för er mikil en tíminn fljótur að líða.
Legg þína hönd á hörpunnar strengjaborð
svo hljómarnir berist út í myrkrið svarta.
Það veitir nýjan þrótt hvert einasta orð
ef einhver talar um daga, hlýja og bjarta.

Ljóssins konungur, láttu þinn geislandi mátt
lýsa og verma jörðu dimma og kalda.
Vísa þeim hröktu og villtu rétta átt
veittu þeim kraft er einir mót storminum halda.
- Þú sérð í gegnum myrkur og móðuský
þinn máttur rekur skuggavaldið á flótta.
Þín rödd er sefandi kraftur, hönd þín hlý
þín hljóða nálægð, fælir burt kvíða og ótta.