Bernskujól | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Bernskujól

Fyrsta ljóðlína:Ég sé að ljósin lifna
Viðm.ártal:≈ 1975
Tímasetning:2005
Flokkur:Jólaljóð
Ég sé að ljósin lifna
er líða að jólum fer.
Himinn heiður, fagur
þá hátíðleikann ber.
Myndin mætra stunda
frá morgni lífsins skín.
Ég finn þann ljúfa ljóma
leggja um sporin mín.

Í foreldranna faðmi
fegurst lífið var.
Þar gleði og hjartahlýja
hæst af öllu bar.
Að vernda sérhvern veikan
vota þerra kinn,
og breiða blessun yfir
barnahópinn sinn.

Ykkar þrá var alltaf
ástrík, heilög jól,
að vaka og vinna saman,
veita okkur skjól,
að búa skó úr skinni,
skapa nýja flík.
Í fábreytninni fundum
hve feikn við vorum rík.

Við vorum líka látin
leggja í hjálparsjóð,
sópa salla úr jötu,
setja í troðna slóð,
svo fugl sem skaust af skafli
í skjól við gluggann minn
fyndi í salla fræin
og fengi matinn sinn.

Er allt var fínt og fágað
og friður kominn á
ljós frá litlum kertum
lýstu andlit smá.
Þann ljóma ennþá leggur
svo ljúft um huga minn.
Við helgiblæinn heima
ég hjartans gleði finn.

Okkur fannst við eygja
í austri stjörnu þá
sem vitringunum veginn
vísaði forðum á.
Bærinn fylltist friði,
sem færði okkur inn
að jesúbarnsins jötu
við jólalesturinn.

Þann arf þið okkur gáfuð
sem ekkert grandað fær.
Birta bernskujóla
svo blítt um hugann nær.
Geisli guðabjartur
og gleðin mesta er,
ef helgiblæ að heiman
heimilið mitt ber.