Brot af sóknarlýsingu | Kvæða- og vísnasafn Mosfellinga
Kvæða- og vísnasafn Mosfellinga

Innskráning ritstjóra

Brot af sóknarlýsingu

Fyrsta ljóðlína:Í sókninni hérna er sjaldan neitt gaman
Viðm.ártal:≈ 1950
Tímasetning:1933-1942
Í sókninni hér er sjaldan neitt gaman,
menn seigjast við ólund með minnkandi dug.
Menn reyna svo sjaldan að rotta sig saman
og ræða um mál sín með festu og hug.
En hjónaballið er afbrigðið eitt,
sem okkur er hérna til samtaka veitt.

Hér vantar þó alls ekki verkhæfa krafta,
er vildu þeir starfa í samfélagsátt.
Menn skokka og brokka innan skipulagshafta,
sem skepnur, er líður víst dæmalaust bágt.
Og allt væri næstum í eyði og tóm,
er ekki væru til refir og blóm.

Hann séra Hálfdán minn stígur í stólinn
og staðhæfir margt það, sem allir menn þrá.
Hann talar með hrifningu um heilögu jólin,
sem hverjum sé boðin, er vilji þau sjá.
Að þau séu skárrri, við skiljum víst það,
en skipulagsjólin frá Breiðabólstað.

Hann Kristinn á Mosfelli er maður, sem dugar,
hið mesta og nýjasta samlagsins ljós,
því skyrið er eitt það, sam alla hér bugar,
og ostarnir fá ekkert dásemdarhrós.
Hann réðst á ostana og skammaði skyr,
en skammturinn er ekkert minni en fyr.

Um mæðiveikina menn eru í ótta,
en mest þó hann Hallur, því hann á til flest.
Hann grunar að ærin ein golshösmögótta,
hún gangi með pestina og líkar það verst.
En Birnir er maður, sem voðanum ver,
og veikin er ekki í sókninni hér.

Og hér eru menn eins og Magnús á Blika,
sem mjólkandi skattbeljur færir úr stað.
Við kýrflutningana er hann ekki að hika,
því heimildir vantar í lögin um það.
En þar kom ei skipulagsheimskan á hefnd,
því hann er stór maður í skipulagsnefnd.

Og Magnús í Tungu er maður í standi,
á mjólkinni græðir, þó verðið sé lágt.
Það halda nú sumir hann heimildum blandi
og hrífurnar eigi í því dálítinn þátt.
En Magnús er skarpur og skyn ber á flest,
og skipulagskempan er hann okkar mest.

Við eigum hér voldugan veganna stjóra,
hinn vinsæla oddvita Jónas í Dal.
Hann gjörir hér vegina góða og stóra,
er guggna ei neitt, þegar mest duga skal.
En væri ekki í fyrstunni vegurinn beinn,
þá verða þeir planlagðir tveir fyrir einn.

Hann Valdimar skipstjóri ræðir um refi;
þar rífa skal gróðann í milljónavís.
Á málinu sama eru menn eins og Stefi,
sem melónur ræktar og „bílæruprís„.
Samt festir hann aldrei neitt blóm við neinn barm,
en blessuðum stúlkunum vekur það harm.

Í Grafarholti hann gamli Björn skrifar
um gallaða sálma hjá þjóðskáldunum.
Og andinn í penna hans iðar og tifar
og allt er að fyllast af leiðréttingum.
Og tjón var það fyrir hann Matthíast minn,
að mátt’ann ei not’ann sem kennarann sinn.

Og Kolbeinn er ennþá að klifa um gengið
og kveðst vera handviss um sigur síns máls.
Hann telur hér efalaust allt vera fengið,
er andskotans krónan er strax gefin frjáls.
Það vill enginn þiggja þá vizkunnar gjöf,
nema Valdimar hálfur og Jónas í Gröf.

Hann Bjarni á Reykjum með fuglinn er flúinn
úr fádæma hita í sárkalda borg.
Já, svona eru örlögin öfug og snúin,
hún er ekki létt þessi Framsóknarsorg.
Það reynist í tempraða beltinu bezt,
að bjarga við klíkum, sem misst hafa felst.

Hann Kjartan á Hraðanum kann vel að búa,
það komast ei lengra þeir sniðugu menn,
sem ætla sér hiklaust á alla að snúa
með allskonar svindli og viðhorfin tvenn.
Hann Gvendur í Lundi má gæta sér að,
með gróðann af refnum þegar í stað.

Og Óli á Keldum í íhaldsins gleði,
hann ætlaði á þing, sem á Klébergi var.
Þeir gleymdu honum allir, það undur nú skeði,
hún er sjaldan viðbúin nærgætnin þar.
Svo beið hann við veginn sinn harða með hatt
og hélt enga ræðu, það talið er satt.

Ef Jónas í Gröf væri jafnan á þingi,
þá jöfnuðust kjörin, það mundum við sjá.
Hann einhverju hneysklinu upp í þá styngi,
og ætli það færi ekki um suma menn þá:
Að Ólafur Thors hefði ekki neitt gert,
sem er fyrir kjördæmið túskildings vert.

Og Valfells er ein okkar vakandi stjarna;
hann var hér með refi, sem landstjórnin drap.
Já, það er þó undarlegt athæfi að tarna,
og ætli það rynni ekki fleirum í skap?
Ég spyr, ef að kvikindin voru ei neitt veik,
hvort var það ei Hannes minn dýri, sem sveik?

Í Gufunesi hann Geiri minn þraukar,
sem gæðinga þenur á kappreiðum bezt,
en þess á milli við beljurnar baukar
og braskar svo á þeim, og græðir þá mest.
En tjónið samt verður því meira þess manns,
ef minkarnir skríða úr pokanum hans.

Á Fossi er einn, sem að framleiðir dúka
og fegurstu teppi með miðstöðvaryl.
En einum munni samt allir upp ljúka,
þar eðlilegt lággengisverðlag sé til.
En krónuna niður vill Sigurjón samt
og sjálfsagt nú þegar og kveður við rammt.

Og Hafliði er ennþá að laumast í laxinn
og Leirvogsárfriðurinn tjón með því vann,
því maðurinn sá reyndist málinu vaxinn,
ef miðar hann pípu, þá steinliggur hann.
Ef Bogi minn yrði nú ljúfur á laun,
hann líklega vinnu þeim bölvaða raun.

Hann Lárus er ennþá að halda í Héðin
og heitir á marga til samfylkingar,
en ekkert samt minnkar hér íhaldsmannsgleiðin,
hún er ekki veðurnæm breytingin þar.
Þeir oft voru skrítnir, sem uppfræddu lýð;
þeir eru víst líkir á þessari tíð.

Hann Trygggvi í Miðdal með tófur og refi,
hann tekur upp gróða, sem munur er að.
Þó innsiglað loðdýr hann Gunnari gefi
og Gunnar svo líklega misskilji það.
Hann Króka-Refur það afrek vann eitt,
að auminginn fékk ekki að leika sér neitt.

Hann Ási er horfinn úr Framsóknarflokknum
og fordæmir Eystein og líka Hermann.
Hann mest segir vitið í mórauða sokknum
og mundi nú guðsfeginn skríða í hann.
Ég efast það taksit, þó Ási sé mjór,
þá er hvorki sokkurinn víður né stór.

Í kirkjunni hann Þórður minn kyrjar oft sálma
og klerkana skrýðir, þá messa er gjörð.
Á guðsríkisbraut með þeim brýtur hvern tálma
og býður svo inn hinni syndugu hjörð.
Ef einhverjir hlýða ei þeim unaðaróm,
þeim öllum hann stefnir með þrumandi róm.

Nú minnzt hefur verið á mennina flesta,
sem marka helzt viðhorf í sókninni hér,
en þagað er aftur um allt þetta bezta,
sem alltaf sér leynir, en hver maður sér.
En það er í sókninni mikils til mest,
og mest því hún á til af því, sem er bezt.

Og blessuð sé sóknin með fellum og fjöllum
og fegurstu túnum, sem landið vort á.
Og blessuð sé sóknin með börnunum öllum,
til batnandi lífs snúist hver hennar þrá.
Það var hér svo áður og verði svo enn,
hér vaxi upp ágætis konur og menn.