Vort föðurland, vort fósturland (þjóðsöngur Finna) (Úr Fänriks Ståls sägner) | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Vort föðurland, vort fósturland (þjóðsöngur Finna) (Úr Fänriks Ståls sägner)

Fyrsta ljóðlína:Vort föðurland, vort fósturland
bls.828–829
Bragarháttur:Sex línur (o tvíliður) fer- og þríkvætt:abaabb
Viðm.ártal:≈ 1875
1.
Vort föðurland, vort fósturland,
ó, fagra veldis-orð,
ei lækkar fold við lagarsand,
ei lyftist fold við sólarbrand
meir elskað en vor óðalsstorð,
vor allra lífsins-borð.
2.
Af gulli lítil gnægð er hér,
en glöð er lund vor þó.
Oss þykist fremri þjóðin hver
en þetta landið elskum vér,
með útsker, fjöll og eyði-mó
er oss það gullland nóg.
3.
Vér elskum vorra vatna klið
og vorra fossa spil,
vors dimma skógar dapra nið,
vort dýrðarljós, vorn næturfrið,
allt hvað í sýn og söng er til
og sálar- vekur -yl.
4.
Hér háðu áar öll sín stríð
með anda hjör og plóg;
og hér um langa heimsins tíð,
við heillakjörin þung sem blíð,
hið finnska hjarta fólksins sló
er fram sitt líf það dró.
5.
Hver reiknar allt það raunatal
er reyndi lands vors þjóð?
Er styrjöld fór um fold og dal
og frost og hungur gjörði val
hver hefir Finnans metið móð
og mælt hans úthellt blóð?
6.
Og það var hér sá fossinn flaut
og fyrir oss það var,
og hér það sinna happa naut
og hér þess tár af augum hraut,
þess fólks er vorar byrðar bar
frá byrjun vegferðar.
7.
Vort land er hér með lán og þraut,
svo ljúft, svo hollt, svo vært;
hver forlög sem oss falla í skaut,
sitt fósturland þó hver vor hlaut;
og hvað er sælla, hvað er fært
að hafa eins dýrt og kært?
8.
Ó, helga land, vor heimagrund
sem hér vort auga sér,
vér réttum blítt út beina mund
og bendum yfir sjó og lund
og segjum: Láð og lögur hér,
sjá, landið vort það er!
9.
Og svífum vér við sólarglans
í sölum gullinblá,
og stígum vér þar stjörnudans
er stríð vort yrði sigurkrans;
hið auma land vort aftur sjá
vér eflaust myndum þrá.
10.
Ó, þúsund vatna ljúfa land
með ljóðum vígða dyggð!
Hér lentum vér við lífsins sand
og ljóssins festum tryggðaband, –
þótt fátæk sértu, fróma byggð,
ver frjáls, ver glöð ver tryggð!
11.
Þitt lán er ennþá lokuð rós
er líta skal sinn dag.
Af vorri elsku vex þitt hrós,
þín von, þín tign, þitt sólarljós
þá flytjum vér með fyllra lag
vorn fósturlenska brag.