Ástavísur til Íslands | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ástavísur til Íslands

Fyrsta ljóðlína: Minn ljóðgöngull hugur á hánorður leið
bls.126–128
Bragarháttur:Sex línur (þríliður) fer- og þríkvætt aBaBcc
Viðm.ártal:≈ 1900–1925

Skýringar

Tvær síðustu vísurnar eru prentaðar í Skólaljóðum undir yfirskriftinni „Til Íslands“.
1.
Minn ljóðgöngull hugur á hánorður leið
mig hrífur að ættarjörð sinni,
er vorsólin lýsir um lágnættis-skeið
sem ljóshvel í útfjarðamynni,
þar eyjan vor hjartkæra heitkennd við ís
sem hafmey úr báróttum Norðursæ rís.
2.
Já, mig — sem var þrásinnis kveðinn í kút,
og kaus mér að hlusta og þegja,
er hjúfrandi ástaskáld helltu sér út –
ef hendingar kvæði’ eg til meyja:
Hver tólf-vetra Rósalind reigðist við mér
með „rómaninn“ fyrsta í kjöltunni á sér!
3.
Samt vaki eg nú meðan norðurfrá skín
þér náttsól á andvöku-göngum,
Og ástaljóð kveð eg hér, ísland, til þín,
Sem óma í vormorgun-söngum,
og sendi þau titrandi að eyrum þér inn
með árgölum vorsins um húsgluggann þinn.
4.
En svo kemur tískan og varar mig við
og vitnar í þegnskyldu-bréfið:
að þér hafi’ eg, ættjörð mín, horfið frá hlið
og heitorð mitt annarri gefið.
Það land sem mig beri á brjóstinu nú
svo blítt, hafi lögfest sér ást mína og trú.
5.
En ég sem ei áhyggju’ um orðstír minn ber,
en æfði – mér stundum til baga –
þá sérviskuíþrótt, að segja eins og er,
ó-sýnn um í felur að draga,
eg löngun og hug mínum lýsa hér verð,
og legg síðan málið í tímanna gerð.
6.
Eg gleð mig við hvað sem er fagurt og frítt,
jafnt fjöllin sem vel stílað handrit,
við mannsaugað skæra og skynsemis-blítt,
þó skreyti það stúlknanna andlit –
að það sé neitt ljótara á laglega mey
að lítast en blómknapp – eg trúi því ei.
7.
En segulafl yndi því öflgara veit
– en ekki frá hverju það leiðir –
og það er sú ósjálfráð ástin og heit
sem andanum brautina greiðir,
sem brennir hvert varmensku bindandi haft,
sem blæs upp hvern neista af göfugum kraft.
8.
Og allar þær listir sem láta þér best
hún lífgar, sem vorblómin ylur –
en svo ert þú, Ísland, í eðli mitt fest,
að einungis gröfin oss skilur,
og þannig er ást sú til þín sem eg ber –
og þó léstu að fjölmöigum betur en mér.
9.
Þín fornöld og sögur mér búa í barm
og bergmál frá dölum og hörgum,
þín forlög og vonir um frægðir og harm
mér fylgja á draumþingum mörgum.
Þinn svipurinn ljúfi, þitt líf og þitt mál,
í lögum þeim hljóma, er kveður mín sál.
10.
Ég óska þér blessunar, hlýlega hönd,
þó héðan þér rétt geti’ ei neina, –
og hvar sem ég ferðast um framandi lönd,
ég flyt með þá vonina eina:
að allt, sem þú, föðurland, fréttir um mig,
sé frægð þinni að veg, – því ég elskaði þig.