Þuríður Kúld | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Þuríður Kúld

Fyrsta ljóðlína:Drottning minnar ungu ævi
bls.451
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) AbAbccDD
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1899

Skýringar

Undir heiti ljóðs stendur: D.1899.
Prentað í Þjóðviljanum 6.3.1900.
1.
Drottning minnar ungu ævi,
oft er vinarhöndin sein;
eptir langa leið á sævi
lítinn knör eg bind við stein, –
stein? Nei, það er þúfa sú,
þú sem hvílir undir nú.
Feginn vildi vegfarandi
verið hafa fyrri’ að landi.
2.
Ég kom seint að kveða og kvaka
kvæðin mín við göfugt sprund,
ég kom seint hjá veikri vaka
vinu minni litla stund, –
seint, að þerra sveitta brá,
seint ég kom, er mest á lá,
heldur seint að hvísla’ og segja:
„Hræðstu’ ei! Það er gott að deyja“.
3.
Hverju líkist lifið manna?
leiftri, draumi, sjónhverfing;
það er blik á brjósti hranna,
botnlaust djúp er allt í kring;
ó, mín vina, veik og mædd,
varstu enn við dauðann hrædd?
Höfðu’ ei sannleikssjónir göfgar
sefað gamlar hræðslu-öfgar?
4.
Skal þá enn þeim ógnar myndum
andans niðjar verða að bráð? —
Svíf frá gröf á sólartindum
sál mín, engri sturlun háð!
Lengi þekkti’ eg víl og vol,
veit nú betur hóf og þol.
Fækki lífs og lukku-gjafir
lækka verða blindar krafir. —
5.
Man ég kalda ungdóms-ævi,
efnin veik, en sterka þrá;
man ég hvar eg sat hjá sævi,
sólargull á bárum lá.
„Þú átt sjálfur sól og gull“,
sagði önd mín gremjufull.
Og mér fannst sem allt mig smáði;
enginn gullið sá né þáði.
6.
Allt í einu sá eg svanna:
sú var björt og stolt á brá,
ennið fránt sem faldur hranna,
fagur roði kinnum á.
Aðalslegri augum snót
aldrei leit á hjörvabrjót;
ekkert gróm þau augu blekkti:
allt mitt gull hún sá og þekkti.
7.
Það var hún, sem gefins greiddi
götu mína raunum frá,
hún, sem fyrstu blómin breiddi
brautu minnar listar á, —
þekkti mína þyrnirós,
þrá og kraft og bundið ljós —
líkt og móðir lífs á hjarni
ljóma Guðs á skirðu barni.
8.
Lengi dáð og drengskap manna
drósar vöktu frýju-orð.
Bráðum tókst að sýna og sanna
sæti mitt við lífsins borð.
Sæi snót mér véla von,
varði’ hún mig sem einkason,
bauð þeim mönnum mig sem níddu,
mér að duga, og strax þeir hlýddu.
9.
Hjarta hvert á helga dóma
hugans geymdu fylgsnum í.
En eg vildi’ að sól þess sóma
sæist lengi fersk og hlý.
Þúsund-þúsund fræin fríð
feykjast enn við storm og hríð,
deyja út i eymdum sínum,
aldrei mæta sjónum þínum. —
10.
Ormar þeir, sem aldrei deyja,
ekki hlífðu lífs þíns rót.
Veikum reyr er vant að segja:
vertu fjall og stattu mót!
Margan heyrði’ eg hrafna-róm
heyja kaldan féránsdóm,
frekara þó en flesta hina
fella þig, mín dáin vina.
11.
Það er búið, blindir dómar,
blóðið rótt og hjartað stillt.
En í tómi til mín ómar
tónn svo engilskært og milt:
„Kvíð þú ekki banablund,
blessaðu’ yfir dáið sprund;
láttu hljótt við harki nauða,
horfðu rótt á líf og dauða„. —
12.
Dreypifórn á þúfu þína
þetta litla veri tár,
láti frá því liljur skína
ljóssins Guð, í þúsund ár!
Enginn heyrir orðin mín —
engill Guðs! ég sný til þín:
Sálar engill vertu’ á verði,
verðu leiðið björtu sverði!