Út á djúpið | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Út á djúpið

Fyrsta ljóðlína:Út á djúpið, Út á djúpið
Höfundur:Valdimar Briem
bls.3–5
Bragarháttur:Fjórar línur (tvíliður) OAOA
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1906
1.
„Út á djúpið!“ „Út á djúpið!“
einhver raust mér heyrist kalla.
Því er hvíslað hljótt í eyra
heyrist þó sem klingi bjalla.
2.
„Út á djúpið!“ Hver svo hrópar?
hvort er það hinn sami’ og forðum
mælti svo við sveininn röskva,
sjómenn hvatti slíkum orðum?
3.
Út á djúpið leið skal leggja,
ljúft er slíku boði’ að hlýða,
fylgja dæmum feðra vorra, –
fóru þeir um höfin víða.
4.
Hér er kyrrð og logn í landi,
lítið hér á kappann reynir;
fátt er hér til vegs að vinna,
varla heldur sigrar neinir.
5.
Það er annað úti’ á sænum,
öldur hafs þar fram oss knýja
til að leita fjár og frama,
finna sífelt vegu nýja.
6.
Hér er þröng og haft á mörgu,
hér er kreppa’ á allar síður.
út á rúmsjó rúm ei brestur,
Rán þar ærið starfsvið býður.
7.
Hátt er loft og létt um anda,
láin undir spegilfögur.
Vindar syngja kappa-kvæði,
kyljur þylja hetju-sögur.
8.
Út á djúpið æskudrauma!
út á djúpið manndóms-starfa!
út á djúp að afla’ og vinna
eitthvað fósturjörð til þarfa!
9.
Þegar á þó á að herða
eitthvað mig til baka dregur.
Starfið fyrir mig og mína
meira þó en annað vegur.
10.
Það er eins og að mér setjist
einhvers konar hulinn geigur.
Eigi læt það á mér festa
enda þótt ég væri feigur.
11.
Margt ég á þó hjartkært heima,
heldur það mér samt ei kyrrum.
Ekki tjáir um að tala,
„Út vil ég“ — sem landinn fyrrum.
12.
Vertu sæll, minn vin og faðir!
vertu sæl, mín góða móðir!
vertu sæl, mín væna systir!
vertu sæll, minn kæri bróðir!
13.
Vertu sæl, min vina kæra!
vertu sæll, minn ljúfi niðji!
Verið blessuð öll í einu!
Ykkur guð á hæðum styðji!
14.
Verið sæl, og sjáumst aftur,
sjáumst brátt af hjarta fegin!
En ef það er ei guðs vilji,
aftur sjáumst hinum megin.
15.
Vel eg man, að völt er skeiðin,
vel eg man, að kvik er alda;
legg eg þó án æðru’ og ótta
út á regin-djúpið kalda.
16.
Út á djúpið, undan landi!
allur glæsti flotinn bíður.
Stafar sól í seglin björtu;
sjá hvar fyrsta gnoðin skríður!
17.
Út á djúpið! út í stríðið!
Áfram þá í drottins nafni!
Eg er ætíð hans í hendi,
hann er ætíð með í stafni.
18.
Út i stríðið, út í lífið
eða dauðann nú skal leggja;
út að sigra eða falla
eða máske hvorutveggja.
19.
Út á djúpið allir halda,
yfir djúpið sí-streymandi.
Heill sé þeim, sem ævi-alda
ungum skilar heim að landi!