Mannskaðinn í Vestmannaeyjum 16. 12. 1924 | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Mannskaðinn í Vestmannaeyjum 16. 12. 1924

Fyrsta ljóðlína:Hljóðnar um byggð, sig hjúfrar barn að móður
bls.15–16
Viðm.ártal:≈ 0

Skýringar

Þennan dag fórst bátur við Vestmannaeyjar og 8 manns með, þ. á m. Halldór Gunnlaugsson héraðslæknir. Gullfoss hafði lagst vestan við Eiði. Héraðslæknirinn þurfti að fara um borð áður en skipinu yrði leyft að leggjast að landi. Þaulreyndir sjómenn fóru með honum, en bátnum hvolfdi skammt undan landi og fórust allir um borð nema einn maður sem komst á kjöl. Kvæðið birtist í Eyjablaðinu Þór 17. febr. 1925.

Mannskaðinn í Vestmannaeyjum 16. 12. 1924


1.
Hljóðnar um byggð, sig hjúfrar barn að móður,
helgustur napur læðist hljótt um bæinn.
Þýtur í skýjum, rymur Ránar óður,
rökkvar í lofti, skyggir út við sæinn.
Orrustu harða heyja fyrir sandi
hugprúðir garpar móti Ægis brandi.
2.
Volduga alda, ennþá fékkstu sigur,
enn gastu valdið mörgum sárum harmi.
Hreystin ei dugði, hvass þinn reyndist vigur,
halla sér fallnir kappar þér að barmi.
Ættum vér þrótt mót orku þinni að standa,
aldrei þú framar mættir nokkrum granda.
3.
Þungt er að heyra dánarklukkur kalla,
kalla til grafar marga bestu vini.
Sárt er að vita vaska drengi falla,
válegt að missa lands vors góða syni.
Hví varstu, bára, bátinn litla að fylla?
Bágt áttu enn þitt heljarafl að stilla.
4.
Þú sem að aldrei býður nokkrar bætur,
brúnharða Dröfn, þótt valdir sorg og dauða,
líður þér best ef alltaf inni grætur
aflvana barn og konan hjálparsnauða?
Fyndirðu það hve sárin mörgum svíða,
settist þú við að hjúkra þeim sem líða?
5.
Alvaldi guð, sem þekkir tregatárin,
trúfasti guð, sem einn oss hjálpað getur,
líknaðu þeim, sem þrútin blæða sárin,
þerraðu hvarm, gef sumar eftir vetur.
Friðarins blóm í blíðu sólarheiði
blómgist og vaxi á góðra drengja leiði.


Hallfreður