Signýjar kvæði | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Signýjar kvæði

Fyrsta ljóðlína:Signý sat í húsi ein
bls.112-113
Viðm.ártal:≈ 0
Flokkur:Sagnadansar
Signýjar kvæði

Listilega rennur sig
jórinn undir ey,
þó ber riddarinn vald
yfir þá vænu mey.

1.
Signý sat í húsi ein,
jórinn undir ey,
Heyrði hún kall um náttartíð
þó ber riddarinn vald yfir þá vænu mey.

2.
Svaraði karl og sagði þá:
„Signý, flyttu mig yfir á."
3.
„Mér líst þú svo stór að sjá,
eg get ei flutt þig yfir um á.“
4.
Sú fór fregnin þaðan í frá,
karlinn gat hún flutt yfir á.
5.
„Þú skalt þjóna í laugum mér
ellegar set eg þrautir þér.“
6.
Hún þjónaði í laugu sem hún kann,
hún horfði þrátt á þennan mann.
7.
„Því horfir þú svo þrátt á mig
og gáir ei að þú brennir þig?“
8.
„Því horfi eg þrátt á þig
einn mann hef eg séð líkan þér.“
9.
„Hvað hét sá hinn vaski mann
að þú þreyir eftir hann?“
10.
„Sigmundur hét hann,“ sagði víf,
„eg man hann meðan mitt endist líf.“
11.
„Hrintu sorg og hrintu þrá,
jórinn undir ey,
hér máttu hann Sigmund sjá,“
þó ber riddarinn vald yfir þá vænu mey.