A 193 - LXXIII [73.] sálm. Quam bonus Israel | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

A 193 - LXXIII [73.] sálm. Quam bonus Israel

Fyrsta ljóðlína:Ísraels Guð er góður þeim
Bragarháttur:Sjö línur (tvíliður+) fer- og þríkvætt:aBaBccB
Viðm.ártal:≈ 0
LXXIII [73.] sálm. Quam bonus Israel
Í móti þeirri skapraun í þessum heimi, að illum gengur vel en góðum illa.
Með lag: Frá mönnum.

1.
Ísraels Guð er góður þeim
girnd hjartans hafa hreina,
fall horfðist mínum fótum tveim,
fest gat eg ei göngu mína.
Að heimskum var mér hugraun mest,
hjá guðlausum er lukka best,
öðlast þeir alla ósk sína.
2.
Lífsháska ei sem aðrir sjá,
eins sem hallir vel standa,
alþýðu mótgang öngvan fá,
ei mæta þyngslum landa.
Rétt kristnir verða að reyna kvöl,
ranglátum mönnum gengur vel,
brúki við lukku blanda.
3.
Þeirra ofsi má þykja snilld,
þar með vilja sig prýða,
forsug er þeirra feiti gild,
flest verður þeim að hlýða.
Níðliga mjög óvirða allt,
illyrða, skamma hratt og snjallt,
ofstærð með öllum þýða.
4.
Sinn munn í himin setja hátt,
sveimar tungan um jörðu,
alþýðan flykkist að þeim brátt
eins sem vötn áfram keyrðu.
Segja, hvað hirðir Guð um hinn,
hæsti virðir hann ekki sinn,
slíkt háð að Guði gjörðu.
5.
Sjá þar og merk guðlausan lýð,
lukku í heim þó hljóti,
í iðjuleysi alla tíð,
eigna og hefðar hljóti.*
Guðs börn lifa í örbirgð hér,
og bera kross á herðum sér,
öll veröld er þeim í móti.
6.
Skal þá útgjört til einkis sé,
að hafða eg hjartað hreina?
Þvo mér hendur í meinleysi,
mæðu varð þá að reyna.
Um heilan daginn hirting leið,
hafði eg að morgni stóra neyð,
hlaut frið og huggun ei neina?
7.
Hjá mér sagði mitt sinni hrætt,
sönn mun þá meining hinna,
í því fordæmdi eg alla ætt,
útvöldu barna þinna.
Eg hafði mér í huga sett
hverninn skyldi eg það skilja rétt,
ofþungt var það að finna.
8.
Þar til eg gekk í Guðs helgidóm,
glöggva kenning hans heyrði,
augljós varð þeirra útför tóm,
um það mig vissan gjörði.
Valta og hála bjóst þeim braut,
brátt hrapa því í mestu þraut,
svo þeir að öngvu verði.
9.
Grimmlig er þeirra útför aum,
óvart með sút fráfalla,
sem sá skjótliga skilst við draum
skemmtun strax missir alla.
Í hvörjum stað svo, Herra, lést
hefð þeirra, mynd og skrautið mest
í eymd og háðung halla.
10.
Mitt hjarta mjög sú mannraun lýr,
mín nýru stakk og þjáði,
að vitlaus eg telst sem annað dýr
og þurs sá einkis gáði.
Hjá þér er eg þó hvörja stund,
heldur þú mér við hægri hönd,
leiðir með þínu ráði.
11.
Í heiður loksins hefur mig,
hvað finnst svo gott í himni
og jörðu að stoði jafnt við þig?
Eg gleðst af elsku þinni.
Ei sinni eg um allt annað hitt,
en þó holdið og lífið mitt
til fulls týnist og linni.
12.
Sanni Guð ert mitt sálartraust,
sæla og langgæð eiga,
hvörjir sem við þig halda laust,
heill og náð missa mega.
Hvörjir sem frá þér hórast nú,
hefnd og kvöl grimma veitir þú,
hér og þar ævinliga.
13.
En það mitt hjarta hyllist Guð,
held mér gleði eilífa,
mína von í allri neyð,
á honum læt eg blífa.
Að dýrð Guðs, lof og dásemdir
dagliga öllum birti hér
meðan mig lætur lifa.
14.
Föður, syni og anda sé
æðst dýrð um jörð og himin,
eins sem hann var að upphafi
án enda verði framinn.
Kenn oss að halda kristinn sið,
kvittast og skiljast syndir við,
sá það vill syngi amen.

* 5.4 Mun svo skv. 1619, opnu 131. Er þó trúlega misritun fyrir 'njóti'.