Reisuvers* | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Reisuvers*

Fyrsta ljóðlína:Hvar sem þín liggur leið,
Höfundur:Gunnar Pálsson
bls.25-28
Viðm.ártal:≈ 0
Reisuvers (8 erindi) [b]

1
Með lag: Princeps stelliferis.
Hvar sem þín liggur leið,
leiði þig drottins náð,
náðin hans gæsku greið
greiði þinn veg um láð.
Láð og sjór þjóni þér,
þér gangi að óskum ferð,
á ferðinni, hvar þú fer,
ferji þig engla mergð.

2.
Tón: Far heimur farsæll.

Öll yðar spor
greiði til farsældar frelsarinn vor.
Ljósið hans skærasta lýsi yður best,
lífið hans kærasta gleðji yður mest;
ástin hans þýðasta leggi yður lið,
:,: lifið í hans frið :,:

3.
Tón: Faðir vor, sem á himnum ert.

Leiði þig drottins hægri hönd,
hvar sem þú fer um sjó og lönd,
víki til baka gjörvöll grönd,
greiðst hæglega efnin vönd,
elskunnar Jesú blessuð bönd
bindi að sér þitt líf og önd.

4.
Tón: Hrópaði Jesús hátt í stað.

Leiði þig drottins hægri hönd,
hvar sem þú gjörir fara;
gæti þín best um láð og lönd
liðsemd hans englaskara.

5.
Tón: Kom, skapari, heilagur andi.

Leiði þig drottins hægri hönd,
hvar sem þinn vegur liggja kann;
loksins færi þitt líf og önd
ljóssins í hæsta dýrðar rann.

6.
Tón: Hvör sem að reisir hæga byggð.

Leiði þig drottins hægri hönd,
hans blessað nafn þig geymi,
hvört sem þú fer um haf eða lönd,
hamingjan að þér streymi;
heimkominn glaður hrósir þá
herrans aðgæslu veginum á
hér og í öðrum heimi.

7.
Tón: Í Babylon við vötnin ströng.

Leiði þig drottins heilög hönd,
hvört sem þinn vegur liggur,
geymi þig bezt um storð og strönd
styrkur hans engla tryggur;
allt hið vonda veginum á
víki þér langt í burtu frá,
glaður svo finna fáir
ástvini kæra yndi með,
sem ævinliga verði téð
og síðar sælu náir.

8.
Tón: Sæll ertu, sem þinn guð. [?]

Leiði þig herrans hönd
heilan án trega,
annist þitt lif og önd
á alla vega.