Ljóshræddur | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ljóshræddur

Fyrsta ljóðlína:Í æskunni hljóp ég upp hólinn
Höfundur:Henrik Ibsen
bls.788
Bragarháttur:Fjórar línur (þríliður+) þríkvætt: AbAb
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Í æskunni hljóp ég upp hólinn
og hræddist ei álf eða draug
svo lengi sem ljómaði sólin
á löndin og fjallanna baug.
2.
En óðar en forsælan færðist
og foldin varð döpur og hljóð
þá færðist í huga minn hræðsla
og hrollur við myrkranna þjóð.
3.
Og lokaði' ég augunum aftur
þá var útséð um værð og grið,
ég hrökk upp við huldur og vofur
og hélst ekki' í sænginni við.
4.
En nú verð ég nóttunni feginn,
því nú er það einkunnin mín
að mátturinn þverrar og megin
á morgnana' er röðullinn skín.
5.
Nú hræðist ég dagmála-drauga
með dunum og óskapa-glaum;
það tryllir og töfrar mitt auga
og truflar minn hugsæisdraum.
6.
En sjái ég fölleita faldinn
og felist við brjóstin þín, nótt,
þá yngist upp hugurinn aldinn
með arnsúg og magnaðan þrótt.
7.
Þá storka ég stáli sem báli,
þá stikla ég hátt yfir ský
og sinni' ekki sorg eða táli
uns sólin er risin á ný.
8.
Ef skuggann og fylgsnin ei finn ég
þá flýr mig öll hjálp og náð;
ef afrek í veröldu vinn ég
þá verða þau myrkra-dáð.