Önnur ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ésúsarrímur 2

Önnur ríma

ÉSÚSARRÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Einn er búinn bragurinn
bls.17–28
Bragarháttur:Samhent – hringhent (hagkveðlingaháttur)
Viðm.ártal:≈ 1950
Flokkur:Rímur
1.
Einn er búinn bragurinn,
burt er flúinn þróttur minn.
Bifurs fúinn báturinn
bröltir nú á ljóðpollinn.
2.
Á öllu vetur vinnur slig,
væri betra að hvíla sig,
skelfa hretin mögnuð mig,
mín aðseta’ er hörmulig.
3.
Öðruvísi var sú tíð,
vann úthýsa frá mér kvíð
Himnavísis herlegt smíð,
hrundin lýsigulls dáfríð.
4.
Þá var hossað högum mín,
hresstum oss með fögur vín,
Ægis blossa eikin fín
ótal kossa gaf mér sín.
5.
Þrjóta náir söngva sagl,
sjótir þjáir mansöngsstagl,
ljótum á er óði bagl,
áfram má við ljóðaþvagl.

> * * *
6.
Jóhannes hét nýtur mann;
nú ég lesa vil um hann:
Gelmir kesju gildur vann
gera Jesú veg beinan.
7.
Þeygi smár á velli var
vitur ári bengríðar,
úlfaldshára úlpu bar,
afar knár og digur *þar.
8.
Fjölnis snót á frábærrar
fræðslu njóta dróttirnar.
Þornabrjótur beysinn þar
bjó hjá fljóti Jórdanar.
9.
Skírði plátu Þundur þar
þá sem játa syndirnar.
Við sína kátur sveina var;
sjálfur át hann flugurnar.
10.
Eitt sinn klár til köllunar
Kristur gár til Jórdanar,
– tjá það skrár mjög trúlegar –
tvisvar ára fimmtán var.
11.
Jóhannes með sveinum sá
sjálfan Jesúm til sín gá
Jórdans flesjum fögrum á,
fleina blesinn mælti þá:
12.
„Sjáið þann sem þarna fer,
það er hann sem kominn er.
Spádómanna kynnir kver
hverra manna þessi er.
13.
Að oss vinda ætlar sér,
– Alvaldskindar jóð það er –
heimsins synd á herðum ber
Herjans kyndla ramur grér.“
14.
Kristur hælinn koma vann.
„Komið þið sælir!“ innti hann,
skjótt við mælir skírarann:
„Skír mig dæli heiðursmann.“
15.
Aftur hjörva gegndi grér,
Grímnir örva þannig tér:
„Stórum þörf er meiri mér,
málma Njörvi á skírn af þér.“
16.
„Allt sem rétt er,“ ansar hinn,
„oss tilsetti skaparinn,
öngvar glettur gilda’ um sinn,
gerðu þetta, karlinn minn!“
17.
Þannig kýta þeir saman,
– þeygi nýtast soddan kann –
Jesús ýtinn jagast vann,
Jói hlýtur skíra hann.
18.
Skírði fleira skatna lið
skálma Freyr með prúðan sið.
Þarna meira’ en misserið
málma eirir þollur við.
19.
Jarli leturs lýsir mas;
ljótt karltetrið hafði fas.
Hans er getið helst við þras,
Heródes hét hann Antipas.
20.
Getið sé um gylfa þann,
Galíleu stýra vann.
Um það hve sig uppdró hann
ekkert félegt segjast kann.
21.
Einkanlega elskar jall
allavega svikabrall,
gæðatregur, gjarn á svall,
– geysilega vondur kall. –
22.
Sjálfur Fjandinn fúlum blés
fítonsanda’ í Heródes.
Þollur branda þar um les;
þá var stand með Jóhannes.
23.
Illa gáði að sér þá
oddaláða *reynir sá;
svo sem áður innt er frá
iðka náði skírnarstjá.
24.
Kenndi tóman sæmdar sið
sífellt rómað valmennið.
Ofboð frómum verst þó við
var hórdóm og gjálífið.
25.
Járna flesju Jólnirinn,
Jóhannes, er vandlætinn;
téður kesju hirðir hinn
Heródes, var rangsleitinn.
26.
Trauðla góður tjörgu Þór
tældi fljóðin kostasljór
og síns bróður uppá fór
auðarslóð og drýgði hór.
27.
Jói svona síst kann við
Salómonar lífernið.
Alveg honum óar við,
eins og von, er slíkum sið.
28.
Járnakálfur jarmaði,
jarlinn sjálfan skammaði.
Þvílíkt álfa áræði
er nú hálfgert glapræði.
29.
Helst með vesen harðsnúið
Heródes brást reiður við.
Járns lét gresið jagfengið
Jóhannes í tugthúsið.
30.
Alls kyns þrenging hrelldi hann,
huggaði enginn skírarann,
sáralengi’ í svörtum rann
sómadrengur hírast vann.
31.
Fátt var léð til líknsemdar,
la á beð dýflissunnar.
Ekkert geðug ævin var,
illri meðferð sætti ’ann þar.
32.
Jarl ei lausan lætur hann,
líftjón kaus á skírarann;
af honum hausinn höggva vann.
– Hinn ei rausa meira kann. –
33.
Heldur vægir þegninn þá,
þetta nægir honum stjá.
Þó ei hlæja’ að þessu má;
það var ægilegt að sjá.
34.
Svona trúi’ ég sá dæi
sínu lúinn af starfi.
Hún var búin hans ævi,
hann er nú úr sögunni.
35.
Ljóðin áður inntu frá,
óður náði þar um tjá:
Stóðu báðir bekknum hjá
bjóður náða og Jói þá.
36.
Greppur hagur, gallafrí
– gjörði bragur lýsa því –
skær og fagur skálmatý
skírði lagarstraumum í.
37 Starfi slíkur gekk með glans
gjörðir líka skírarans,
sæmdarríkum syni manns.
Sögunni víkur nú til hans.
38.
Skírnarslarki skolaður,
skjaldan kjarkinn hann brestur,
oddaþjarkur óblauður
eyðimakar til gengur.
39.
Ullur branda út á rann
eyðisandinn glóðheitan.
Fullur af anda heilags hann
hitti Fjandann þar sjálfan.
40.
Jesús flýja varla vann
voða lyginn Andskotann.
Fasta í allfrægur hann
fjörutíu daga kann
41.
Jesús Kristur auðn út á
öngvar vistir hafði hjá.
Mikið þyrsti manninn þá,
matarlyst nam einnig fá.
42.
Sverða hróki svinnum þar
sultur jók á freistingar;
gaula tóku garnirnar,
getur bók um hörmungar.
43.
Másuðu lungun eymdaróm,
urgaði tunga skrældan góm,
undir sungu iðrin tóm
ógnar hungurlegum róm.
44.
Kölski girnist Kristi’ að ná,
kjafti firnaljótum brá;
fölskum glyrnum gaurinn sá
gaut einbirni drottins á.
45.
„Best er að reyna brögð ótrauð,“
böls óhreinast sagði skauð.
„Þessum steinum breyttu í brauð,
bannaðu mein og léttu nauð.
46.
Guðs ef réttur arfi ert,
allvel þetta færðu gert,
það mun frétta þykja vert ,“
þrjótur prettvís mælti bert.
47.
Drottins sauður svar nam tjá
svörtum kauða vítis þá:
„Lifa brauði einu á
enginn hauðurbúi má.
48.
Því á storðu má hver mann,“
meiður korða segja vann,
„mat, sem borðar mjög góðan,
með Guðs orðum blanda hann.“
49.
Þannig hjalar þorna Freyr,
þögnuðu halir báðir tveir;
þar um tala tjáði ei meir,
til Jórsala fóru þeir.
50.
Inn í musterið þeir gá,
uppá burst þeir klifrast *há;
Kristur hlustar Kölska á,
kaldur gustur *blés um þá.
51.
Kölska brettist kjaftur á,
Kristi settist Djöfsi hjá;
allur fettist Fjandinn þá,
furðu grettinn til að sjá.
52.
Rammslægastan hót með hörð
hrekki brast ei púka vörð:
Skoraði fast á nadda Njörð
niður kasta sér á jörð.
53.
„Skrifað stendur,“ Skrattinn kvað,
„skjöldung kenndi himna það,
hann mun senda engil að
ei þig hendi neitt bölvað.
54.
Þig skulu ljót ei mæða mein,
málmanjótur, í þér bein
ekki brjóta áttu nein
eða fótinn reka’ í stein.“
55.
Þrautir leysti þorna ver,
þetta hreystisvarið tér:
„Aftur veistu, álmagrér,
ekki freista Drottins ber.“
56.
Jesús staka stilling bar,
stóðst óslakur freistingar.
Ekki hrakið þrjósku þar
þó af baki dottið var.
57.
Upp á fjall þeir arka ná,
yfir falleg ríki sjá,
heiminn allan horfa á.
– Hressir kallar voru þá. –
58.
Kristur iðar sætt með sinn,
sagði við hann Andskotinn:
„Leggstu niður manni minn
mig tilbið sem drottinn þinn.
59.
Ef þú gerir eins og ber,“
ýlduhverasjóli tér,
„allt hvað sér þú álma grér,
ætla ég mér að gefa þér.“
60.
Kristur varast Kölska réð,
klækja hara gat við séð;
lét ei fara langt sig með
lymskupara þrælbeineð.
61.
Ansvör nistis njótur fann,
nokkuð byrstur gjörðist hann.
Mælti Kristur margt við þann
myrkra ystu höfðingjann.
62.
„Snáfi’ að bragði burtu nú
brennu Agða vættur sú,
Drottinn sagði drengjum trú.
Djöfuls flagðið, heyrir þú.
63.
Þrætu stórum efldu ys,
ýtar fóu sátta’ á mis;
kostasljór með kjafta þys
Kölski fór þá heimleiðis.
64.
Heldur lítinn heiður fann
helst vill bíta frelsarann.
Ekki sýta Satan vann,
sjálft Helvíti gleypti hann.
65.
Saman lauk sér frónið fyrst,
foldar baukur lokaðist,
mæða aukin magnaðist,
moldin rauk um Jesúm Krist.
66.
Loksins sóttist ljóða smíð,
langa dróttum stytti tíð,
gaman þótti greindum lýð.
Góða nótt ég öllum býð.


Athugagreinar

7.4 var > þar Iðunn.
23.2 reinir reynir Iðunn.
39.3 heilags] helgum Iðunn.
50.2 há] fá Iðunn.
50.4 blés] lék Iðunn.
52.3 Skoraði fast á] lagði fast að Iðunn.
53.3 engla] engil Iðunn.
53.4 ei þig hendi neitt] ekkert hendi þig Iðunn.
56.2 óslakar] óslakur Iðunn.
60.4 lymskusnara] lymskupara Iðunn.