Á þingvallafundi 1873 | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Á þingvallafundi 1873

Fyrsta ljóðlína:Frelsis stövum fögru á
bls.137
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) fer- og þríkvætt aBaBcDcD
Viðm.ártal:≈ 1875
Tímasetning:1873
1.
Frelsis stöðvum fögru á
feðra tiginbornu
endurminning helg og há
hetju-aldar fornu
frjálst í æðum eldheitt blóð
örvar þeirra niðja,
sinni er eigin unna þjóð
og til fremdar styðja.
2.
Ekkert fremur bræðra-bönd
bindur eigin huga
en að láta líf og önd
lýði og Fróni duga.
Heill sé þeim er hetjumóð
hafa þann að geyma.
Eins og skylt er íslensk þjóð
aldrei mun þeim gleyma.
3.
Síst nú draga sig í hlé
sómir, þó að etja
viður ofurefli sé,
eður framkvæmd letja.
Dáð oss kennir deilan hörð.
Dýrstan eið þess sverjum:
Flýjum eigi fósturjörð,
en frelsi hennar verjum.