Velkomin | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Velkomin

Fyrsta ljóðlína:Velkomin hingað til vina í sveit,
bls.9-10
Viðm.ártal:≈ 1975

Skýringar

Flutt forseta vorum Vigdísi Finnbogadóttur er hún heimsótti Reykhóla í Austur-Barðastrandasýslu á fyrsta kjörtímabili sínu.
1.
Velkomin hingað til vina í sveit,
í kyrrlátar byggðir og kjarrgróinn reit.
2.
Þó vaxi nú hraðinn á vélanna öld
í sveitinni er dýrðlegt um sumarbjört kvöld.
3.
En fáþætt er lífið og föng eru smá
það víðförlir gestir í vetfangi sjá.
4.
Samt Jónsmessudraumar um dáðrakka menn
þeir lifa og bærast í brjóstunum enn.
5.
Hvar forystan vakir ei fölskvast sú glóð
er hugsjónir tendrar og hita í blóð.
6.
Að friði þú vinnur sem forseti vor
og fagnar því góða er grær í þín spor.
7.
Þinn andi er í samhljóm við Íslendings sál
af einlægni og hlýju er orðað þitt mál.
8.
Engum þú gleymir þó eitthvað sé fjær
því endilangt Frónið þitt umdæmi nær.
9.
Og ættlandið fagra við elskum það heitt
þar farmaður getur þér fulltingi veitt.
10.
Þó sigli hann fleyinu suður um höf
og líkt er um fygling á Látrabjargsnöf.
11.
Afdalabóndann sem erlar við fé
og kaupmann er flytur inn kaffi og te.
12.
Við sundurleit störfin er samhygðin best
ef þrengist í búi sú þörfin er mest.
13.
Þín ósk er að vera sem einingartákn
hroki er fjarri og hátignarbákn.
14.
En heimurinn man það um hafsbotnasker
að fönguleg kona er forseti hér.
15.
Og jafnréttið eflir þín embættisfrægð
betur en harka og baráttuslægð.
16.
Nú kærlega þökkum við komuna í dag
því óþvinguð kynning er öllum í hag.
17.
Fylgi þér Drottinn á framtíðarslóð
í samfylgd með glaðri og sjálfstæðri þjóð.