Don Ramíró | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Don Ramíró

Fyrsta ljóðlína:Donna Klara, Donna Klara
Höfundur:Heine, Heinrich
bls.107–112
Bragarháttur:Fjórar línur (tvíliður) OAOA
Viðm.ártal:≈ 1900
Flokkur:Ástarljóð

Skýringar

Ljóðið birtist fyrst í 43. tölublaði Þjóðólfs 11. september 1896.
1.
„Donna Klara, Donna Klara,
dóttir fríðleiks, göfga sprundið.
Mig þú hefir dauðadæmdan,
dýpsta mér í glötun hrundið.
2.
„Donna Klara, Donna Klara,
dýrmæt, — sæt er lífsins gjöfin,
en hið neðra ógn mér býður
ísköld bæði og niðsvört gröfin.
3.
Donna Klara, dátt þig leiðir
Don Fernandó, brúði rjóða.
Árdag næsta að altarinu —
er í hug þér mér að bjóða?“
4.
„Don Ramíró, Don Ramíró,
döpur mér þín orðin svíða
meira en álög meingra stjarna
mínum vilja sem að stríða.
5.
„Don Ramíró, Don Ramíró,
deyð þinn trega, kappinn gildi.
Velja máttu um ótal aðrar.
Okkar leiðir drottinn skildi.
6.
Don Ramíró, sem á Serkjum
sigur fékk við orðstír hæsta,
vinn þig sjálfan, kappinn kæri.
Kom í hóf mitt aftan næsta.“
7.
„Donna Klara, Donna Klara,
dýrast sver eg boð að þiggja,
gildið sæki eg, geng í dansinn,
góða nótt, — á það má byggja.“
8.
„Góða nótt!!“ — í glugga marrar,
grafkyrr stóð á tái niðri
halur þar til hvarf hann út í
húmið svart á óttu miðri.
9.
Dregst burt loksins dimma nóttin,
Dellings mögur vekur lýði.
Eins og reitur blóma breiður
blasir Tóledó með prýði.
10.
Hýrt á burstir borgarhalla
blikar sól og gulls með fágu
ljóma á morgni kyrrum kirkna
kúptu stöpulþökin háu.
11.
Eins og býja ymur suða
óðar klukknahringing byrjar.
Hölda fjöldi í húsum drottins
helgan bænasönginn kyrjar.
12.
Sjáið, sjáið þið ei þarna
þétt úr torg-kapellu ganga
tigið fólk og fagurbúið, —
fríð og prúð er sveitin langa.
13.
Riddarar í gerðum glæstum,
gullskreytt víf og snyrtnir þjónar
ganga þar, en gjalla klukkur,
glymja jafnframt orgeltónar.
14.
En í hópnum, er með lotning
undan víkur þá sem greiðast,
Donna Klara, Don Fernandó,
dýrðarhjónin ungu leiðast.
15.
Brúðgumans til hárrar hallar
hersing því næst öll er snúin.
Afar dýrðleg er sú veisla
eftir fornum hætti búin.
16.
Ágætt borðhald, íþróttleikir,
allt sem má til gleði haga.
Yndisstundir örskjótt líða
uns að nóttu fer að draga.
17.
Og til dansleiks svo í salinn
safnast brúðkaupsgestir hýrir.
Viður lampaskinið skæra
skrautbúningar ljóma dýrir.
18.
Síðan brúðhjón setjast bæði
sæmdarrík á tignarpalla:
Donna Klara, Don Fernandó
dátt í tómi saman spjalla.
19.
Fólks- í salnum glaður -grúinn
gengur líkt sem ölduföllum,
gnýja bumbur harks með hreimi,
hvella lúðrar rómi gjöllum.
20.
— „Herm mér fríða! Hví þú starir
hugarstola sama veginn,
út í salar ysta hornið?“
að spyr gumi furðu sleginn.
21.
„Don Fernandó, sérðu ei segginn
svartmöttlaðan? þann eg uggi.“
Hann með brosi aftur ansar:
„Ekki er þetta nema skuggi.“
22.
Skugginn nær meir þá sér þokar.
Það er maður alsvartbúinn.
Don Ramíró Klara kennir
kafroðnandi nýgift frúin.
23.
Dans er hafinn, drósum meður,
dansmenn snúast glaums við hrinur
ólmt í vals með ofurkæti;
undir skelfur gólf og dynur.
24.
„Don Ramíró, víst það veistu
við þig dansa eg fúsu hjarta,
hér samt koma ei þú áttir
allra síst með skikkju svarta.“
25.
Hvössum augum, hryggu bragði
hann á menja starir Hildi,
spennir miðja svo og segir:
„Sagðirðu ei eg koma skyldi?“
26.
Þeytast óðar þau í dansinn,
þyrlast eftir hljóðsins föllum;
gnýja bumbur harks með hreimi,
hvella lúðrar rómi gjöllum.
27.
„Hví þér ískalt er á höndum?“
innti hún skelfd og losast vildi.
Þau af stað og svar var sama:
„Sagðirðu ei eg koma skyldi?“
28.
„Slepp mér, slepp mér, hættu, hættu,
hugði eg síst þér nálykt fylgdi.“
Rómdimmt kvað við svarið sama:
„Sagðirðu ei eg koma skyldi?“
29.
Logi og reykur gýs úr gólfi
gígna og bassfíóla kliður
hvín og ymur — allt í salnum
ærist töfragang þann viður.
30.
„Don Ramíró, slepp mér, slepp mér,
slepp mér, þú hinn ógnum trylldi.“
Don Ramíró svarar sama:
„Sagðirðu ei eg koma skyldi?“
31.
„Guðs í nafni farðu, farðu,“
föstum rómi loks kvað svanni.
Við það dugur datt úr vofi,
Don Ramíró hvarf úr ranni.
32.
Klara er stirðnuð, helbleik hnigin
hrolli kólnuð, taugum slökum,
yndisfagra óvit hefir
umspennt sínum myrkratökum.
33.
Loksins burtu líður drunginn,
loksins brá hún sundur augum.
Voðaleg samt vék ei furðan
vífs úr fögrum sjónarbaugum.
34.
Upp því staðið aldrei hafði hún
allt frá því er dans nam byrja.
Brúðgumans við síðu hún situr,
síst er kvíðlaus, nú réð spyrja:
35.
„Hví ertu svo hvít í framan?
hví svo döpruð augun fríðu?“
„Hvað, Ramíró —?“ hægt hún stamar,
heftist mál af böli stríðu.
36.
Brúðguminn kvað brúnaþungur —
brúðar varð ei minni sorgin —:
„Spyr ei, drós, um dreyrgar skærur,
Don Ramíró, lést í morgin.“