Alþingisrímur – sjöunda ríma (Bakkusarríma) | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Alþingisrímur 7

Alþingisrímur – sjöunda ríma (Bakkusarríma)

ALÞINGISRÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Bakkus sjóli sæll við bikar
Bragarháttur:Langhent – hringhent
Bragarháttur:Langhent – víxlhent (skrúðhent)
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1902
Flokkur:Rímur

Skýringar

Talið er að Valdimar hafi lagt til efni rímnanna en fengið Guðmund skólaskáld til að yrkja þær.
Fleiri afbrigði langhendu koma fyrir í rímunni en þau tvö sem getið er í braggreiningu.
1.
Bakkus sjóli sæll við bikar
situr á stóli tignar hám;
eins og sólin öðling blikar
upp í jólna sölum blám.
2.
Hefur þengli þrúðgum lengi
þjónað mengi jarðarranns,
hraustir drengir vítt um vengi
veg og gengi framað hans.
3.
Þeir, sem mega athvarf eiga
óbráðfeigum kóngi hjá,
fagrar veigar fá að teyga,
flest þá geigar bölið frá.
4.
Hótel Ísland heitir stóra
höllin vísis tignarrík;
kappa hýsir hún, sem þjóra,
hvergi rís á jörðu slík.
5.
Halberg jarl og Júlíus snjalli
jöfurs höllu ráða þar;
hörpur gjalla’ að hilmis stalli,
hátt í fjöllum bergmálar.
6.
Þakið eldi líkast logar,
ljós á brá er sólin skín;
sterkir, hvelfdir, háir bogar
hvítir gljá sem postulín.
7.
Veggjatjöldin víða ljóma
vegleg strá um salargöng;
þar á kvöldin háa hljóma
heyra má og fagran söng.
8.
Byggð sem kirkja er höllin háa,
himnum móti turninn snýr;
rammleik styrkir stálið bláa,
sterka þrjótum mótvörn býr.
9.
Rauðagulli ritað stendur
ræsis hallar nafnið glæst. —
Sértu fullur, sértu kenndur
sjóli snjall þig metur hæst.
10.
Hofgæðinga hatar sjóli,
hans þeir skilja’ ei dýrlegt kram.
Þeir með kynngi steypa af stóli
stoltir vilja öldnum gram.
11.
Sumir slíkir sorgum drekkja
samt þeim hara ríkum hjá;
Jósefs líka þar má þekkja
þess frá Arimatíá.
12.
Bakkus víða vígi hefur
vafin prýði, smá og stór:
Fischer, Bryde, Thomsen tefur
Templaralýð og Bensi Þór.
13.
Það eg fregna á þessu landi,
þó um megnið sýnist fátt,
hafi þegna í þraut og grandi
þarfa og gegna Bakkus átt.
14.
Víða’ er tryggðin forna flúin,
fylla byggðir Templarar,
þjóðin styggð og þaðan snúin
þar sem hryggðin aldrei var.
15.
Í Bakkí veldi er uppreist orðin,
oft á kveldin þar er hljótt;
sveitin hrelld við sultarborðin
situr eldrauð fram á nótt.
16.
Fyrir þingið fór að bóla
feiknum á sem nú skal tjá:
Geirum stinga göfgan sjóla
garpar knáir vildu þá.
17.
Yfir Lauga brúna baugum
Bakkó móti hatrið gein;
sem úr drauga ógnar augum
yfir blótstall voði skein.
18.
Indriði spandi lýð í landi,
ljótur vandi að höndum bar;
út sig þandi Árni á gandi,
eins og fjandinn tilsýndar.
19.
Þingmenn skjótt í flokkum fóru,
fella vildu gylfa höll:
eiða fljótt þar ýmsir sóru,
að hún skyldi hrynja’ á völl.
20.
Inn þeir brutust, örum skutu,
í ofsa og flýti’ að jarlsmönnum;
augum gutu — enn þau flutu —
að ákavíti og bjórtunnum.
21.
Tók að langa lýði’ í dropann,
linuðust trylltum sóknum í;
létu ganga að grönum sopann,
glösin fylltu af kurt og pí.
22.
Þá vóru sköll og þá var gaman,
þá var köllum glatt í lund;
margir höllin héldu að saman
hryndi öll á samri stund.
23.
Fast var þjórað þá „á landi“,
þyrstir í bjór þeir voru’ um of;
út þeir fóru „óferjandi“,
enn hið stóra gleymdist hof.
24.
Aldrei síðan hilmis höllu
herjuðu stríðir á með brand,
enn liði hans fríðu eyða öllu
ætluðu víða þó um land.
25.
Ekki þó þeir urðu’ að spotti,
ýms þeir felldu vígi smá;
Bakkus hló og Halberg glotti,
heiðri og veldi krýndir þá.
26.
Þó verði’ in smærri vígi’ að þústum,
við því færrum görpum hrýs,
þau hin stærri þjóta úr rústum
þá með hærri veg og prís.
27.
Bakkus lifir öldum yfir, —
ekki skrifa’ eg meira um hann. —
Falda-Sifin fegurð drifin,
við förum að tifa í svefnarann.