Undir Kaldadal | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Norður fjöll (ferðakvæði) 2

Undir Kaldadal

NORÐUR FJÖLL (FERÐAKVÆÐI)
Fyrsta ljóðlína:Ég valdi óska það yrði nú regn
Höfundur:Hannes Hafstein
bls.46–47
Bragarháttur:Fjórar línur (tvíliður) tví- og ferkvætt aabbCdCd
Viðm.ártal:≈ 1875
Tímasetning:1880

Skýringar

Birtist fyrst í Verðandi, 1. árg. bls. 131–132. Frumgerðin, sem þar birtist, er sýnd neðanmáls hér.
1.
Ég vildi óska’að það yrði nú regn
eða þá bylur á Kaldadal,
og ærlegur kaldsvali okkur í gegn
ofan úr háreistum jöklasal.
2.
Loft við þurfum. Við þurfum bað,
að þvo burt dáðleysis mollu-kóf,
þurfum að koma’ á kaldan stað, —
í karlmennsku vorri halda próf.
3.
Þurfum á stað, þar sem stormur hvín
og steypiregn gjörir hörund vott,
svo þeir geti skolfið og skammast sín
sem skjálfa vilja; það er þeim gott.
4.
Ef kaldur stormur um karlmann ber
og kinnar bítur og reynir fót,
þá finnur’ann hitann í sjálfum sér,
og sjálfs sín kraft til að standa mót.
5.
Að kljúfa rjúkandi kalda gegn
það kætir hjartað í vöskum hal.
Ég vildi’ að það yrði nú ærlegt regn
og íslenskur stormur á Kaldadal.


Athugagreinar

1.
Ég vildi óska’að það yrði nú regn
eða þá bylur á Kaldadal,
og ærlegur kaldsvali okkur í gegn
ofan úr háreistum fjallasal.
2.
Vér þurfum loft, og vér þurfum bað,
að þvo burt dáðleysis mollukóf.
Vér þurfum að koma’ á kaldan stað, —
á karlmennsku vorri halda próf.
3.
Vér þurfum á stað, þar sem stormur hvín
og steypiregn gjörir hörund vott,
svo þeir geti skolfið og skammast sín,
sem skjálfa vilja; það er þeim gott.
4.
Ef kaldur stormur um karlmann ber
og kinnar bítur og reynir fót,
þá finnur’ann hitann í sjálfum sér,
og sjálfs sín kraft til að standa mót.
5.
Að kljúfa rjúkandi kalda gegn
það kætir hjartað í vöskum hal.
Ég vildi’ að það yrði nú ærlegt regn
og íslenskur stormur á Kaldadal.