Garnaflækja | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Garnaflækja

Fyrsta ljóðlína:Hervæddust margir hraustir drengir
bls.20
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður) ferkvætt AbAbcc
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:1931
1.
Hervæddust margir hraustir drengir,
Héðinn var þeirra general.
Harmóníkur og hörpustrengir
hljómuðu um borg og fjörð og dal.
Mynduð var skjótt ein mikil röð
og marsérað inn í garnastöð.
2.
Blóðrauðir fánar blöktu á stöngum,
borðalagður var maður hver.
Með óhljóðum miklum, ópum, söngvum
útþembdi sig hinn rauði her.
Litblindni fólks er ferleg enn,
því fanst þetta vera hvítir menn.
3.
Ólafur var á fimum fótum
framarlega og hræddist vart,
dansaði eftir dönskum nótum,
dinglaði skeggið tinnusvart.
Spiladós bar hann, boga’ og ör,
blikuðu augun hvöss og snör.
4.
Garnastöðin er góður staður,
– garnirnar krefjast hreinsunar.
Ari heitir einn heldri maður
hafandi alla forsjón þar.
Ari kvenmanna hefir her
harðvitugan og fylginn sér.
5.
Að garnastöðinni geyst nam þeysa
gríðarlega hið rauða lið.
Ari mátti’ ekki rönd við reisa,
þeir réðust þráðbeint á kvenfólkið.
ösluðu i görnum eins og bar,
og eins og að líka sjálfsagt var.
6.
Sá, sem í görnum gömlum flækist,
gæta sin fyrir slysum má.
Þar trúi’ ég margur maður rækist
meyjarlíkama fagran á.
Enda heyrðust þar andvörp hrein,
angistar-tíst og sálna-vein.
7.
Klöngraðist áfram kappaskarinn,
hjá kvenfólkinu var undanhald.
– Út um gluggann var Ari farinn. –
Allar gáfu sig þeim á vald.
Garnirnar tóku’ að gaula þá,
görpunum skyndilega brá.
8.
Þeir dreifðu sér út um dyr og glugga,
drós í fanginu sérhver bar,
Úti var kyrlát morgunmugga
og mátulegt kvenna- og skýjafar.
Þeir löbbuðu heim og litu’ ei við
og leiddu á eftir sér kvenfólkið.
9.
Þetta er altaf sama saga,
seggirnir ungu meyjar þrá.
Langar nætur og dimma daga
duglegir menn í konur ná,
elskast, kyssast og eiga börn.
– Andskoti’ er skrítin lífsins görn.