Lofsöngur | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Lofsöngur

Fyrsta ljóðlína:Ó, guð vors lands
bls.5
Bragarháttur:Ellefu línur (tvíliður) oaoabcbcddc
Viðm.ártal:≈ 1875
Tímasetning:1873

Skýringar

Í formála viðhafnarútgáfu íslenska forsætisráðuneytisins 1957 á þjóðsöngi Íslendinga er frá því greint að lofsöngurinn, Ó, guð vors lands, sé upphaflega sálmur, ortur við sérstakt tækifæri, og hvorki höfundi ljóðs né lags muni hafa hugkvæmst, að úr yrði þjóðsöngur, enda hafi liðið meira en mannsaldur áður en svo varð. Enn fremur segir í útgáfunni:

Árið 1874 voru talin 1000 ár liðin frá því, er Norðmaðurinn Ingólfur Arnarson nam fyrstur manna land á Íslandi. Voru það sumar hátíðahöld um   MEIRA ↲
Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!
Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans
þínir herskarar, tímanna safn.
Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár
og þúsund ár dagur, ei meir:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
:; Íslands þúsund ár, ;:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.

Ó, guð, ó, guð! Vér föllum fram
og fórnum þér brennandi, brennandi sál,
guð faðir, vor drottinn frá kyni til kyns,
og vér kvökum vort helgasta mál.
Vér kvökum og þökkum í þúsund ár,
því þú ert vort einasta skjól.
Vér kvökum og þökkum með titrandi tár,
því þú tilbjóst vort forlagahjól.
:; Íslands þúsund ár, ;:
voru morgunsins húmköldu, hrynjandi tár,
sem hitna við skínandi sól.

Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lifum sem blaktandi, blaktandi strá.,
Vér deyjum, ef þú ert ei ljós það og líf,
sem að lyftir oss duftinu frá.
Ó, vert þú hvern morgun vort ljúfasta líf,
vor leiðtogi í daganna þraut
og á kvöldin vor himneska hvíld og vor hlíf
og vor hertogi á þjóðlífsins braut.
:; Íslands þúsund ár, ;:
verði gróandi þjóðlíf með þverrandi tár,
sem þroskast á guðsríkis braut.

Edínaborg 1873