Ævisamlíking Kolbeins | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ævisamlíking Kolbeins

Fyrsta ljóðlína:Setta eg mér at semja óð
Heimild:JS 230 8vo.
Bragarháttur:Tíu línur (tvíliður) aBaBaccaDD
Viðm.ártal:≈ 1675
Flokkur:Bænir og vers

Skýringar

Fyrirsögn:
Enn eitt kvæði K: G: s: Gísli Konráðsson hefur fyrirsögnina Ævisamlíking Kolbeins.
Kvæðið er prentað í Mími 19. árg. 1. tbl. 1980, bls. 21–23.
Eg hefi róið illan sjó
og öfuga strauma barið,
landfallið ber mig heim í varið.

1.
Setta eg mér at semja óð
í samlíkingar greinum,
hvörsu að byltir bylgju flóð
bárukarfa einum,
má vel skilja maður og fljóð
mannsins líf það þýðir þó,
eg hefi róið illan sjó.
Þverstreymt er um þrautaslóð
þér á meðan hjarið,
landfallið ber mig heim í varið.
2.
Litlum báti líkjast má
lífið vort í heimi,
*ókyrrum í öldu sjá
er á leiðar sveimi,
straumaköst og storma þrá
stopult hrekur borðin mjó,
eg hefi róið illan sjó.
Ærið marga ólgu blá
yfir hefur hann farið,
landfallið ber mig heim í varið.
3.
Illar girndir öfugan straum
eg mun þýða láta,
þá leikur hold við liðugan taum
langt úr öllum máta.
Þessi fossa iðjan aum
undan landi drjúgt mig dró,
eg hefi róið illan sjó.
Eg hraktist frekt í glæpa glaum
og gat ei fetað parið,
landfallið ber mig heim í varið.
4.
Uppgangsveðrin óttasöm
eg mun saman bera
við ástríðurökin röm
sam rastir knappar gera.
Nauðum kvíðir hugarhöm,
hjartað ört sú pílan smó,
eg hefi róið illan sjó.
Sathans skeytin grimmdar gröm
geta flýtum farið,
landfallið ber mig heim í varið.
5.
Liggjandar og lognin kyr
langstundum ei blífa,
veltur uppá vonum fyr
veðraföll og drífa,
áður en nokkur eftir spyr
eyðist samviskunnar fró,
eg hefi róið illan sjó,
freistinganna heitur hyr
hefur mig líka marið,
landfallið ber mig heim í varið.
6.
Af óbyggðum stormastríð
stundum blæs á móti,
syndafalla hindrar hríð
til hafnar *fleyið fljóti,
ógnar bylgju áföll tíð
yfir mig drifu þeygi sljó,
eg hefi róið illan sjó.
Þreytist eg að þola um síð
þetta hættu snarið,
landfallið ber mig heim í varið.
7.
Þokan frek um flæðar lá
færir leiðar grillu,
syndadimman mæla má
mig so rak í villu,
réttu landi föðurs frá
flæmdist eg í krappan mó,
eg hefi róið illan sjó.
Ljóst það hindra leiftrið má
ef ljómann glepur skarið,
landfallið ber mig heim í varið.
8.
Hafs að auga hart eg nær
í heimskri villu renndi,
undirdjúpin öngvum fær
eru þar fyrir hendi,
andskotinn með krappar klær
*kremmir hvern sem náir þó,
eg hefi róið illan sjó.
Endalaus þann ánauð slær
sem í fer djöfla snarið,
landfallið ber mig heim í varið.
9.
Á höndum liggur harða strit
ef heim skal aftur draga,
kæmist fyrir villtan vit
vogs á kólguaga,
mætti verða á myrkri slit,
mál er við að rakna þó,
eg hefi róið illan sjó.
Hafs í volki hætt eg sit
en hartnær megnið farið,
landfallið ber mig heim í varið.
10.
Heim á þetta hafnar hléð
halda vil eg um síðir,
styrki drottinn stjórnartréð,
það stöðuga trúna þýðir.
Guðs mér engla lið sé léð,
leiði fram mitt ölduhró,
eg hefi róið illan sjó.
Í miðju skipi mastur sé,
það merkir krosstré svarið,
landfallið ber mig heim í varið.
11.
Láttu mér drottinn landi að
liðuga strauma fleyta,
alvarlega iðran það
eg mun láta heita,
tíðum renni táravað,
trú rétt ekki bili þó,
aftur heim af *illum sjó.
Um þetta blítt eg þriðja bað,
þýðlegt hugarfarið,
landfallið ber mig heim í varið.
12.
Stoltan vilda eg stýrimann
í stafni fyrir mig telja,
Jesús guðsson heitir hann
sem helst kann leiðir velja,
*farþegana flytja kann
friðarlands á hafnarkró,
aftur heim af *illum sjó.
Sá heldur öll þau heit með sann
sem hefur oss áður svarið,
landfallið ber mig heim í varið.
13.
Seglið upp eg vinda vil
það verkað er með sóma,
orðið guðs þar undir skil
og Evangelí ljóma,
heilagur andi hjálpar til
með hýrum blæ það áfram dró,
aftur heim af illum sjó,
föðurlands í eilífan yl
so ekki sakar parið,
landfallið ber mig heim í varið.
14.
Varið kalla eg vængjaskjól
volduga drottins góða,
þar skín réttlætis skæra sól,
skaparinn allra þjóða,
nafnkunnugan náðarstól
nefni eg þann á krossi dó,
eg hefi róið illan sjó.
Um himin og gjörvöll heimsins *ból
honum ei *þakkir sparið,
landfallið ber mig heim í varið.
15.
Þetta iðju sónar safn
so til þagnar dregur,
við aflinn smiðju er mitt nafn
og ókrókóttur vegur.
Lífs á miðju laginu *hafn
láti oss ná, sem fyrir *oss dó,
eg hefi barið illan sjó,
*Austra viðju Ægis hrafn
enn láti hálf farið,
landfallið ber mig heim í varið.


Athugagreinar

2.3 ókyrrum Lbs 1756 4to] ókyrrari JS 230 8vo.
6.4 fleyið JS 479 8vo o.fl. hdr.] fleygir JS 230 8vo.
8.6 kremmir flest hdr.] krammar JS 230 8vo.
11 og 12.7 illum flest hdr.] illa JS 230 8vo.
12.5 farþegana mjög fjölbreytilega stafsett] farteigana JS 230 8vo.
14.8 ból flest hdr.] hjól JS 230 8vo.
14.9 þakkir flest hdr.] þykir JS 230 8vo.
15.3-4 aflinn smiðju … ókrókóttur] = Kolbeinn.
15.5 hafn JS 230 8vo.] höfn önnur hdr.
15.6 oss JS 491 8vo o.fl.] mig JS 230 8vo.
15.8 Austra flest hdr.] Austrar JS 230 8vo.
Magnús Snædal bjó til skjábirtingar.