Hver er allt of uppgefinn | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Hver er allt of uppgefinn

Fyrsta ljóðlína:Hver er allt of uppgefinn
bls.291–293
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður) fer- og þríkvætt aBaaaB
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1906
1.
Hver er allt of uppgefinn
eina nótt að kveða og vaka,
láta óma einleikinn
auðveldasta strenginn sinn,
leggja frá sér lúðurinn,
langspilið af hillu taka?
2.
Ljóð mitt aldrei of gott var
öllum þeim sem heyra vilja!
Þeim ég lék til þóknunar
þegar fundum saman bar.
Ég gat líka þagað þar,
þeim til geðs sem ekkert skilja.
3.
Nú skal strjúka hlýtt og hljótt
hönd við streng sem blær í viðnum,
grípa vorsins þrá og þrótt
– þungafullt, en milt og rótt ­–
úr þeim söng, sem sumarnótt
syngur djúpt í lækjarniðnum.
4.
Það er hollt að hafa átt
heiðra drauma vökunætur,
séð með vinum sínum þrátt
sólskins rönd um miðja nátt,
aukið degi í æviþátt,
aðrir þegar stóðu á fætur.
5.
Birtan sest ei sjónum manns,
svona næturkvöldin þrauga.
Norðrið milli lofts og lands
línu þenur hvíta-bands.
Austur rís við geislaglans
glóbrún dags með ljós í auga.
6.
Skammt er að syngja sól í hlíð,
sumarblóm í mó og flóa.
Hvað er að víla um vöku-stríð?
Vaktu í þig og héraðslýð
vorsins þrá á þeirri tíð
þegar allar moldir gróa.
7.
Úti grænkar lauf um lyng,
litkast rein um akra sána.
Ég í huga sé og syng
sumardrauma allt um kring,
út að fjarsta aldahring
ystu vonir þar sem blána.
8.
Út í daginn, fögnuð frá,
fullum borðum, söng og ræðum.
Nóttin leið í ljóði hjá –
ljósi er neyð að hátta frá,
vil ég sjá hvað vaka má,
vera brot af sjálfs mín kvæðum.
9.
Vini kveð ég, þakka þeim
þessa sumarnætur vöku!
Úti tekur grund og geim
glaðasólskin mundum tveim.
Héðan flyt ég fémætt heim:
fagran söng og létta stöku.