Haustvísur | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Haustvísur

Fyrsta ljóðlína:Lóan í flokkum flýgur
bls.34–36
Bragarháttur:Fjórar línur (tvíliður) AbAb
Viðm.ártal:≈ 1850
1.
Lóan í flokkum flýgur,
fjarlægist sumar ból –
fyrri og fyrri hnígur
fögur að djúpi sól.
2.
Sumarsins sæli ylur
svalauðga storma flýr,
blásnu í fjalli bylur
bálvindur eigi hlýr.
3.
Sumarblóm höfði halla
hnípin í fjallaklauf,
fölnuð til jarðar falla
fríðustu bjarkar lauf.
4.
Haustið ber fljótt að höndum,
hraðfara tíminn er –
tímans í straumi stöndum,
sterklega sem oss ber!
5.
Gleðji því hver þann getur,
gefi þeim styrk er má,
hausti því víkur vetur
von bráðar fallinn á.
6.
Vetrar þá hjúpur hvítur
hvervetna sveipar land,
og augað úti’ ei lítur
unaðar nema grand.
7.
Saman og inni una
einhuga skulum vér,
minnast þess eins og muna
margt hvað til gleði ber.
8.
Hvað sem oss ber að höndum
hugfallast látum ei –
tímans í straumi stöndum
en stríðum á móti ei!
9.
Harmi þá stangast ströngum,
stríðanda máttinn þver,
í leik og sætum söngum
sorginni drekkjum vér.