Eftirköst | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Eftirköst

Fyrsta ljóðlína:Kæri hnýsinn minn til mín
bls.223–228
Bragarháttur:Ferskeytt (ferskeytla)
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1901
Flokkur:Lífsspeki
Eftirköst
1.
Kæri hnýsinn minn til mín
miðinn spurning benti:
Hvort að bréfið það til þín
þyrði sjá á prenti.
2.
Ekki þarf í það að sjá!
– þér ég aftur gegni.
Ég er bóndi, allt mitt á
undir sól og regni.
3.
Þó að einhver þykkist mér,
það er smátt að tapi.
Veðuráttin aldrei fer
eftir manna skapi.
4.
Mér var heldur aldrei um
að eiga nokkru sinni
málsverð undir embættum
eða lýðhyllinni.
5.
Bóndamanni er bótin sú
við brestum skrauts og náða:
Fleðuskapinn heimahjú
hann þarf síst að ráða.
6.
Eins er hitt: Hvort ókvíðinn
eg sé við þá prentun,
sem þó skorti skilyrðin,
skólaganginn – menntun.
7.
Örðug verður úrlausn hér,
illa stend að vígi. –
Hálfsannleikur oftast er
óhrekjandi lygi.
8.
Það er satt, að menntun mér
mislögð víst er fengin.
Ef við hámark hana ber,
hún er næstum engin.
9.
En ef þú ert aðgætinn
– á þó minna beri –
sérðu víðar, vinur minn,
vondan brest í keri.
10.
Hámenntaða virðum vér
vora lærdómshróka,
sem eru andleg ígulker
ótal skólabóka.
11.
– Þitt er menntað afl og önd
eigirðu fram að bjóða:
hvassan skilning, haga hönd,
hjartað sanna og góða.
12.
Frá því marki manninn þann
ég menntaðastan dæmdi,
flest og best sem var og vann,
það vönduðum manni sæmdi.
13.
En í skólum út um lönd
er sú menntun boðin:
Fátt er skeytt um hjarta og hönd,
hausinn út er troðinn.
14.
Jafnvel þessi stefna sterk
stundum heppnast illa.
Það kvað undur örðugt verk
ýmsra koll að fylla.
15, Hún er í molum menntun enn
– um mína ei ég senni.
Hitt er fjandi, að færir menn
flaska líka á henni.
16.
Ég gat hrifsað henni af
hratið, sem hún vék mér,
meðan lúinn makrátt svaf,
meðan kátur lék sér.
17.
Hér er ei gert hvor gildir meir
– góð eru bæði skæðin.
Um það las ég líkt og þeir,
lærði sömu „fræðin“.
18.
Hindra mig ei þarf frá því
þar um rétt að segja
þó viti ei stofninn „Eos“ í
né „amo“ kunni að beygja.
19.
Eins fannst þér það illa misst
út úr þulu minni
að hafa ei með ljóðskálds list
lætt inn „skoðaninni“. –
20.
Eins og helstu hirðskáld þín,
hátturinn sé svo prúður. –
Ég er ekki, elskan mín,
andlegra sálma trúður.
21.
Listin sumra lýti ber
frá lítilmennsku og fleira –
í verki þess, sem óheill er,
oft er nokkur feyra.
22.
Svo var þarna ennþá eitt
á sem varst að steyta:
Það sé ætíð ofur leitt
öllu svona að neita.
23.
Sástu ei, kæri, hvernig fer
hverri sannleiks leitun?
Meira en helftin allténd er
á ósannindum neitun.
24.
Þegar grey um geð sitt þvert
grunuðu fylgi heita
þá er aldrei einskis vert
upphátt voga að neita.
25.
– Seinast vóru sorgarmörk
sár á þínu spjalli:
Allt sé lífið eyðimörk
ef að goðin falli.
26.
Í ekkert háleitt höggvum skarð
hugmynd forn þó rými.
Hrundi sól þá hún ei varð
höfuðið á Mími?
27.
Þó að heimur hnigi að
hinu, sem ég skrifa,
við myndum halda við fyrir það
að verða menn og lifa.
28.
Þetta gott og gilt ég tel
– guðfræðin er búin:
Hagnaðslaus að vilja vel
verður hreinust trúin.
29.
Ef þig fýsir fólksins að
farsæld nokkuð hlynna
leggðu hiklaust hönd á það –
heitust bæn er vinna.
30.
– Þér er svarað, þú hefur spurt.
Það er nóg að sinni.
Sé það, kæri, kalt og þurrt,
kveiktu í pípu þinni.
31.
Fimmtugir ei erum enn.
Oss er nægur tími
sem frægstu landsins listamenn
að liggja á bæn í rími.
32.
Sá er flestu lítið lið,
sem lifir til að hika.
Mér er yndi að ýta við
öllu og sjá það kvika.
33.
Njóttu góðs. – Um gráð og lönd
goð og menn þér eiri,
bróðir. Þér í bráða hönd
bögur legg ei fleiri.
1901