Jólin 1891 | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Jólin 1891

Fyrsta ljóðlína:Fullvel man ég fimmtíu ára sól
bls.208
Bragarháttur:Fjórar línur (tvíliður) fimmkvætt aabb
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1891
Flokkur:Ævikvæði
1.
Fullvel man ég fimmtíu ára sól,
fullvel meir en hálfrar aldar jól,
man það fyrst, er sviptur allri sút
sat ég barn með rauðan vasaklút.
2.
Kertin brunnu bjart í lágum snúð,
bræður fjórir áttu ljósin prúð,
mamma settist sjálf við okkar borð;
sjáið, enn þá man ég hennar orð:
3.
„Þessa hátíð gefur okkur Guð,
Guð, hann skapar allan lífsfögnuð,
án hans gæsku aldrei sprytti rós,
án hans náðar dæi sérhvert ljóð.
4.
Þessi ljós, sem gleðja ykkar geð,
Guð hefir kveikt, svo dýrð hans gætuð séð;
jólagleðin ljúfa lausnarans
leiðir okkur nú að jötu hans.“
5.
Síðan hóf hún heilög sagnamál,
himnesk birta skein í okkar sál;
aldrei skyn né skilningskraftur minn
skildi betur jólaboðskapinn.
6.
Margan boðskap hef ég hálfa öld
heyrt og numið fram á þetta kvöld,
sem mér kveikti ljós við ljós í sál, –
ljós, sem oftast hurfu þó sem tál.
7.
Hvað er jafnvel höndum tekið hnoss?
Hismi, bóla, ský sem gabbar oss,
þóttú vinnir gjörvallt heimsins glys,
grípur þú þó aldrei nema fis!
8.
Ársól hver, sem öllu fögru hét,
ætíð hvarf á meðan rósin grét,
vorið hvert, sem bauð mér betri hag,
brást mér löngu fyrir vetrardag.
9.
Lukkan sagði: „Vind upp mína voð:
veröld alla gyllir sólarroð,
fyrir stafni leiftra sérðu ljós,
lukku þinnar frægð og sigurhrós.“
10.
Hvað varð úr því öllu? Last og hrós,
óró, blekking, trufl og villuljós!
Hafi nokkur hreinan sálarfrið
hjartafeginn skipti ég hann við.
11.
Þessi fáu, fölu lukkublóm
fælast lífsins kalda skapadóm;
allt vort hrós í hreggi veraldar
hrekst á milli drambs og öfundar.
12.
Loks er eitt það „evangelíum“,
er oss býðst hjá tímans vitringum:
„Trú er hjátrú, heimur töfraspil,
himinn, Guð og sál er ekki til!“ –
13.
Ljá mér, fá mér litlafingur þinn,
ljúfa smábarn; hvar er frelsarinn?
Fyrir hálmstrá herrans jötu frá
hendi ég öllu: lofti, jörðu, sjá!
14.
Lát mig horfa á litlu kertin þín:
Ljósin gömlu sé ég þarna mín!
Ég er aftur jólaborðin við,
ég á enn minn gamla sálarfrið.