Persíus rímur – fimmta ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Persíus rímur 5

Persíus rímur – fimmta ríma

PERSÍUS RÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Raddar gættir opnast enn
bls.46–57
Bragarháttur:Gagaraljóð – óbreytt
Viðm.ártal:≈ 1650
Flokkur:Rímur
1.
Raddar gættir opnast enn
eyrna portið hittir són,
fimmta ríma flýtur senn,
fer mér ekki að breyta tón.
2.
Þar sem vel er vísum hlýtt
og virðingarnar bæta um,
þeim er rétt komið kvæði mitt,
kvitt skemmtunar launin sum.
3.
Hvar sem fólkið hefur mas
og hafnar óð með sýslan bús,
þykir betri þögn og þras,
þá er eg burt í annað hús.
4.
Edda gjörir nú ekki par,
orðin standa skýr og létt,
verði hér til varnaðar
versum glósuð dæmið sett.
5.
Ofurefli að erta sitt
enginn taki sér í fang,
spilltu ekki um spart og fritt,
sporna við að hefja brang.
6.
Fellur oft sá fangið bauð,
fleiri dæmin sýna það,
álftin er við ernur trauð
en yfirvinnur kífi að.
7.
Þann sem guð og gæfan styður,
glestu ekki par við hann,
þó þú hyggir hann hafi miður
hamingjan milli skakka kann.
8.
Veraldar börnin bímóðug
betur þyrfti gæta sín,
þegar hinir herða dug
hefndin verði ei launa pín.
9.
Heiftar arfur, öfundar hót,
enn vill margan stríða á,
til reiðu er þeim rauna bót
sem ríkir drottins andi hjá.
10.
Ávallt gefur hann úrræði,
öruggt sinni, hraustan móð,
þótt ei sé nema þolgæði
er þrautir sigra utan blóð.
11.
Trúin vinnur tigulinn
og tíurnar við endahnút,
þjóðin nemur mansöng minn,
merkispil var slegið út.

12.
Eg skildist við í skjöldungs garð,
skemmdist boð og vistin öll,
upphlaup illt úr veislu varð,
vígin fjölga og rimmu sköll.
13.
Komumanna múgurinn kvað
mágsefnið og kóngurinn
drepnir skyldu strax í stað,
stöðvast ekki bardaginn.
14.
Gramur út var genginn þá,
griðum spilla bannaði,
heimafriðinn heitir á,
hvaða látum þetta sé.
15.
Phineas eggjar ýta lið
allvel skyldu sækja fram,
gestunum engin gefa grið,
það gildi annars þeirra skamm.
16.
Persíus greip sinn skyggðan skjöld,
skarpan brand í aðra mund,
býður öngva bót né gjöld,
berjast vill með hrausta lund.
17.
Af indíalandi ungur sveinn,
ærilega fagur og vænn,
með Phineas var í flokki einn,
við flein og boga nógu kænn.
18.
Svo var hans gervi sóma skreytt,
silki rauðan kyrtil bar,
um sig miðjan belti breitt,
af brennda gulli ofið var.
19.
Lénikki hét laufa Týr,
lést hann kunna hæfa flest,
fugl á flugi og fráust dýr,
feilar ekki um nokkurn brest.
20.
Benti að Persio boga sveif,
brátt vill njóta listar sín,
eldskíð hinn úr ofni þreif
og því fleygði honum á brýn.
21.
Illa kleimað enni fékk,
aftur á bak með pílu rauk,
heilinn út um hausinn gekk,
hetjan þanninn nösum lauk.
22.
Lagsmann hans hét Lycabas,
leit sá hvörninn kappinn féll,
hyggst að borga hefndar slas
hulinn eins með gull og pell.
23.
Greip þann sama boga beint,
bendir ýr og spennir stælt,
flennti gasir frakkann leynt,
fékk svo reiðuglega mælt:
24.
„Þú hefur þér í þessu keypt
þeygi mikil happa grið,
skammvinnt lof en langa heift,
lífið skaltu gefa við.“
25.
Örin flaug í öðlings skaut
inn um möttuls rykkingar,
framar ekki ferða naut,
flakti við og beit ei par.
26.
Persíus fékk Harfa hrist,
hjó hann sundur rétt í tvennt,
brást þá hinum boga list,
betur kunni öngva mennt.
27.
Hvor á annars hæla fór
herlegustu bogmenn tveir,
í hryggðarfastan heljar kór
hraðfarlega runnu þeir.
28.
Hér næst herti hjörva ský,
hvör réð annan stinga og slá,
aukast heiftar efni ný
er þaug fornu bættust á.
29.
Einn vo annan ótt í renn,
alltjafnt hefndi maður manns,
stundum biðu báðir senn
bana í einu utan stans.
30.
Beggja rekkar reyndu þor,
rann um stræti heiftar blóð,
fordjúp opnast eggja spor,
úr þeim varmur boginn stóð.
31.
Glumdi skjóma skarkalinn,
skildir klofna, álmur gall,
skjálfa torgin turna stinn,
titra þótti land og hjall.
32.
Gráta meyjar, veina víf,
vóð þar fram og innar sorg,
kveina hátt þeir létu líf,
lengi undir tekur borg.
33.
Skvíarar þó skenktu vín,
skella niður hvörjum drykk,
bauð þeim heljan heim til sín
þá höfðu fengið bana þykk.
34.
Bitran reyndu spjóta sprett
spilmenn og so leikarar,
helsöng þeirra hermdu þétt
hljóðfærin og nóturnar.
35.
Hinir sem að hugðu þar
hvorugum veita fylgi neitt
sárar fengu sendingar
so það flesta gilti eitt.
36.
Phineas aldrei voga vann
vöskum mæta brynju Tý,
sveifar kólfinn senda vann,
sá gaf staðar skildi í.
37.
Beisklega eggjar ýta lið
allvel skyldi sækja fram:
„Brögnum enginn bjóði grið,
sem byrstast hristið hrævar gamm.„
38.
Persíus átti örðugt slag,
urðu langtum færri hans,
en hann gaf þó öngvum dag
er eggin náði frægðarmanns.
39.
Slyngur vígi velur sér,
vendar baki múrnum að,
svo á einn veg sækja er,
seggi vo með unda nað.
40.
Börðust við hann bræður tveir,
báðir voru hreystimenn,
honum í móti höggva þeir
hraustlegana báðir senn.
41.
Kjörvopn lætur kryfja þann
er kom hann fyrri slaginu á,
hinn þá reiða hjörinn vann
höndum tveim sem fastast má.
42.
Þá eð hann vigri veifa er
varð fyrir brún á múrnum há,
stökk í sundur stælti hér,
stykkið kom hans vangann á.
43.
Kleimu illa kappinn fékk
kesju brotið sem honum gaf,
Persíus hyggst að hjálpa rekk
hljóðin so nú tæki af.
44.
Harfa flengdi háls á rekk,
hausinn fauk þá langan veg,
ekkert borið fyrir sig fékk,
feigðin kom svo skyndileg.
45.
Phineas sína manar menn
mikið vel að duga nú,
ef hann kæmist undan enn
engin smán er meiri en sú.
46.
Allir sóttu að einum senn,
örvar fljúga, stökkva spjót,
tjörgu í éli týndust enn
túnin hárs og vanga mót.
47.
Fleina fjúkið hótar hel,
hvör má einn við mörgum lýð,
so gekk ákaft örva él
eins og mesta norðanhríð.
48.
Persíus þegar soddan sér
sótt að verður heimalið,
nauðverju að nú mun hér
njóta ofurefli við.
49.
„Undan líti allir menn
oss er hugðu sýna lið,
griðin skulu sjálfsett senn
seggjum þeim mig berjast við.“
50.
Bugnir sínum bylti um,
bráður ógnar haus á loft,
hlaðið Gorgons hýðis brum
hárs um flökti bana toft.
51.
Thessalus hét tiginn mann,
tala réð á þennan veg:
„Tröllin eigi þitt töfrabann,
taktu við því er sendi eg.“
52.
Banvænlegt nam spenna spjót,
spora vildi hann í gegn,
varð hann fyrri gallhart grjót,
glataði bæði líf og megn.
53.
Annar sá eð Amphix hét
ávítar hinn stæði við,
rokna sverðið ríða lét
rétt að miðjum Jóvis nið.
54.
Nær eð höggið hálfrétt var
höndin verður nibbusteinn,
allur síðan upp stirðnar
so aldrei bærðist limur neinn.
55.
Nileus það næstur sá,
nafnkunnigur gyðju bur,
með gylltan skjöld og grafinn á
gervallur hans ætthringur.
56.
Stökkur fram með forsug orð,
flux til reiðir sverðið stælt,
hrökkur lið á bæði borð,
bímóðigur fékk so mælt:
57.
„Engin kynngi ærir mig
eður grandar konstra brek,
nú skal gegnum nísta þig,
næsta marga grátt eg lék.
58.
Huggun þín það heita má,
hefur þig fellt sá afreksmann,
kominn er guða kyni frá,
kappi frægur nefnist hann.“
59.
Þá nú hetjan hausinn leit,
hann veit ei til fyrr en það
fastir voru í foldar reit
fætur orðnir grjóti að.
60.
Stirðnar armur, stokkast brjóst,
stóð í kverkum orðið hálft,
inni byrgit allan þjóst,
augun fengu hvergi glápt.
61.
Álíka hinn fjórði fór,
fimmti og sjötti langtum ver,
skorbíldur og skakki stór
skerast tók í þeirra her.
62.
Phineas sína liðsmenn leit
lympast niður í kletta röð,
iðrast því hann öngva veit
útrétting á sinni kvöð.
63.
Undan sneri öldin sér,
ekki þorði að líta við,
aftur fyrir sig horfði hver:
„Herra Persíus, veit oss grið.
64.
Þú hefur unnið sigur og sæmd,
sé þér vel að njóta þess,
yður verði drósin dæmd,
döglings nafn og tignar sess.
65.
Á burt taktu andlits mynd
oss er gjörði þvílíkt vans,
lát ei fjölga björgin blind,
betri er annar sómi lands.
66.
Ei af hatri háði eg stríð,
heldur fyrir brúðar ást,
vorn málstaðinn studdi tíð,
stærri var þín liðsemd skást.
67.
Mér var lofuð fríða frú,
fundist hefur þú maklegre,
vil eg gjarnan víkja nú
sem vunnið og pungað taflið sé.
68.
Auðs og ásta ann eg þér,
einungis því bið um líf,
fyrirgjör ei fleirum hér,
forlíkunst og sefum kíf.“
69.
Persíus gaf honum soddan svar:
„So er að vera dristugur,
farið er þitt frækipar,
finn eg þú ert of hræddur.
70.
Fyrri varstu frakkur nóg,
furðu gramur uppá mig,
nú villt bjóða bleyðu bóg,
barnið hvört má raga þig.
71.
Nokkuð skal þér verða veitt,
virtu þann er soddan gaf,
ei skal bíta á þig neitt
unda tólið héðan af.
72.
Þess annars að þú skalt fá
það sem ei er minna vert,
vorri sængur hvílu hjá
hafa gervi þitt óskert.
73.
Húsfrú minni hugnast það,
hefur hún þig fyrir augum sér,
þó ykkur skildi örlög að
uppi hennar biðill er.“
74.
Phineas því feginn tók,
fylgdi honum í brúðar sal,
hinn þar að honum hausinn skók,
hér með endast þeirra tal.
75.
Að glerhalli undir eins
endilangur dólgurinn varð,
áminnileg stoðin steins
stendur þar í hilmirs garð.
76.
Á varð harki öllu hlé,
einum Persíus múgurinn laut,
sem dytti niður í dáviðre
og dúnalogn því storminn þraut.
77.
Full tvö hundruð féllu þar
forhörðnuð við Gorgons lit,
annað þvílíkt eftir var
af þeim höfðu tilkomit.
78.
Flúrað kvæði þanninn þver,
þveran girðir raddar múr,
múrað aftur Kjalars ker
kerann teppir hana úr.