Rímur af Tobías – Fjórða ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Rímur af Tobías 4

Rímur af Tobías – Fjórða ríma

RÍMUR AF TOBÍAS
Fyrsta ljóðlína:Suðrar ferju í fjórða sinni fram skal ýta
bls.196–200
Bragarháttur:Braghent – samrímað eða braghenda samrímuð
Viðm.ártal:≈ 1600
Flokkur:Rímur
1.
Suðrar ferju í fjórða sinni fram skal ýta.
Læt eg ekki lítið slíta
að ljóða meir ef þjóð vill nýta.
2.
Guð mun veita gamni þessu góðan enda.
Þá sem fyrr lét hryggðir henda
huggun mun þeim aftur senda.
3.
Illra og góðra ólík verður ævin seinni;
merkist það af álykt einni
athöfn hvörra að væri hreinni.
4.
Að upphafi kann illum margt til auðnu falla
en seinna gjörir heillum halla,
hverfa skjótt svo undrar alla.
5.
Margir hrepptu megna sorg en misstu kæti
þeir forðum vóru í góðu gæti,
glaðir af holdsins eftirlæti.
6.
Óskabarna öðru vís er auðnu vart.
Þau lýjast fyrst og líða hart,
löngum verða að reyna margt.
7.
En þau fá á öllum sorgum ending besta,
gleðina sem þá girnast mesta
gott mun ekki lengi fresta.
8.
Davíð reiknar réttlátra sé raunir margar;
öngvum þeirra eymdin fargar,
öllum frá eg þeim Drottinn bjargar.
9.
Þeim einum, sem óttast Guð og ætíð biðja,
hryggðin verður hagleg smiðja
hjálpræðis og gleðinnar iðja.
10.
Harla sæt er huggun sú er hvör má prísa.
Ef honum í móti hryggðir rísa
hann á síðar gleðina vísa.
11.
Soddan dæmi sýnast hér ef seggir gæta
hvörsu Drottinn gjörir að græta
góða menn og síðan kæta.
12.
Því skal tjá og tína frá um Tobías gamla;
óttast tók og um það vamla
hvað arfa sínum mundi hamla.
13.
Af dvölum þessum daprast hjón og drjúgum þreyja;
hryggðin gjörði hjartað beygja
og hvarmaskúr af augum teygja.
14.
Anna bar sig yfrið lítt og einatt grætur.
Hringþöll varla huggast lætur
og hafði sjaldan svefn um nætur.
15.
Tjáði margt og talaði svo með táraflóði:
Ó, minn sæti arfinn góði,
enginn er mér slíkur gróði.
16.
Okkar hjarta einka son og arfi kenndur,
illa tókst oss það fyrir hendur,
ófyrirsynju varstu sendur.
17.
Húsfrú hafði á hæsta bjargi hvörn dag sæti
þar víðsýnt þótti um vegi og stræti
og var svo þrátt á faralds fæti.
18.
Sætan tók af sorgar ekka sárt að gráta,
angursöm úr öllum máta,
ekki vill af þessu láta.
19.
Tobías þá með þýðum orðum þaggar brúði:
Okkar frændi fékk hinn prúði
fylgjara þann eg allvel trúði.
20.
Nú skal tjá um Tobías hinn og tvinna hildi;
hjá Ragúel sat í góðu gildi
en gjarnan aftur ferðast vildi.
21.
Drottinn bað hann dvelja enn hjá dýru mengi;
kostur gjörðist á því engi,
ærið kvað sig tefja lengi.
22.
Veit eg að frómust feðgin mín af fremdum gædd,
íhugandi og um mig hrædd,
af angri taka að verða mædd.
23.
Ragúel lét hann ráða því að reisa á braut
með fjárhlut sinn og falda laut,
fylgdarmenn hann ekki þraut.
24.
Fagnandi með fjárins gnótt hann fór af stað
með þrælakyn og kvikfénað,
kappinn hvör fyrir öðrum bað.
25.
Ósk mín er það, karlinn kvað, eg kýs að fá
ykkar börn með augum sjá
áður en eg skal falla frá.
26.
Feðgin kvöddu kærlegt jóð og kysstu bæði,
sögðu henni siðanna gæði,
hvað sætu mest til heilla stæði.
27.
Ektamann að elska sinn með allri tryggð,
hans foreldra heiðra af dyggð
og hvörugu þeirra veita styggð.
28.
Vinnuhjúum vanda stjórn og verkin sæta,
þar með um fyrir öllum bæta
og æru sinnar jafnan gæta.
29.
Engill talaði Tobías við og tjáði þá:
Föru við undan fljótt sem má
en fylgdin öll skal eftir gá.
30.
Taktu fisksins gallið grænt er geymdir fyrr;
faðir þinn mun feginn og kyrr
fagna þá hans augun smyr.
31.
Anna horfði enn sem fyrr um ýmsa vegi;
auga kom á örvasveigi;
inn gekk hún og seinkar eigi.
32.
Fögnuð hef eg að færa þér, kvað falda gná;
okkarn son eg úti sá
ekki langt þó bænum frá.
33.
Spratt á fætur spektar maður er spurði þetta,
meiddi sig á mörunum stétta, [skýra]
mest var honum búið að detta.
34.
Þénara nökkurn þangað kallar þegninn gildi,
sjálfan sig er seggurinn vildi
sjónlausan að leiða skyldi.
35.
Faðir og móðir fagna sínum fróma nið;
mörgum sinnum minntist við,
meinum firrt, og fengu frið.
36.
Af feginleika felldu tár og fengu alla
sinnishægð svo segist varla,
síðan fram til bænar falla.
37.
Sjálfum Guði þakkir þýðar þann veg færa
er auma gjörir að endurnæra
sem ótta Drottins vildu læra.
38.
Gallið fisksins Tobías tók og tíðum brá
síns blinda föðurs augun á
inn til þess hann fékk að sjá.
39.
Hörkuraun um hálfa stund hann hlaut að finna;
er sem dregin af eggi hinna,
einn má þetta Drottinn vinna.
40.
Aftur fékk hann alla sýn og augun skær;
þakkar Guði gáfur þær
er góðum jafnan stendur nær.
41.
Viku síðar Sára kom með sína alla,
kvikfénað svo kenndist varla,
kynja fé og nöðru palla.
42.
Sveitir allar samglöddust er soddan frétta.
Vinir og frændur víst af létta
fagna þá þeir vissu þetta.
43.
Feðgar tóku að tala um hljótt og tiginn svanni
launin hvör með ljósum sanni
lúka skyldi fylgdarmanni.
44.
Tobías yngri talaði um vel og tók að greina:
Oss hann veitti aðstoð hreina
og ending gjörði vorra meina.4
45.
Frá dauðans fári frelsti mig hans *forsjó góð,
óvin rak en oss til stóð
að eignast mætti eg þetta fljóð.
46.
Allan helming afla míns og eignar gróða,
er það fyrir hans umsjá góða
öngvaneginn nóg að bjóða.
47.
Feðgar báðu féð að þiggja félagann góða.
Hann kvaðst ei þann girnast gróða,
grettirs bing að safna í sjóða.
48.
heldur það þið heiðrið Guð af hjartans grunni
víðfræg svo að verða kunni
verkin hans af ykkar munni.
49.
Yfir höfðingja heimugleikum höldar þegi
en Drottins verkin dyljum eigi,
drengja hvör þau öðrum segi.
50.
Þið skuluð minnast miskunn hans og mörgum skýra,
með ölmösugjörð auma hýra
og ákall hreint á Drottin dýra.
51.
Soddan fé er seggjum betra að safna lengi
heldur en heimsins góss og gengi
er gjarnan plagar að svík[j]a mengi.
52.
Óguðrækir hreykjast hér á háum stóli,
leika sér að linna bóli,
litlu síðar velta af hjóli.
53.
Tók þá helgur himnabúinn hljótt að tjá
og sínum efnum satt í frá
segja rétt sem ljósast má.
54.
Eg er sjálfur engill Guðs til ykkar sendur,
Rafael með réttu kenndur
er rækilega frammi stendur.
55.
Þá þú gjörðir grátna bæn fyrir Guði þínum,
fanginn sút og flestum pínum
flutti eg þær herra mínum.
56.
En þú geymdir ótta Guðs til allra gjörða.
Hann lét eymdir á þér herða
að þú skyldir reyndur verða.
57.
Mæddi hann þá miskunnsemi mig að senda
eymdum þínum af þér venda
svo allar fengi góðan enda.
58.
Þakkið Guði þessa náð með þýðum hætti;
elskið hann af öllum mætti
er ykkar sorgir sjálfur bætti.
59.
Mér mun mál að hverfa heim og hitta þann
sem mig hingað senda vann
og sjálfur geymir himna rann.
60.
Á samri stundu sólarkóngsins sendiþjón
hvarf í burt frá seggja sjón;
þeir sungu Guði sætan tón.
61.
Feðgar síðan sátu um kyrrt í sínum ranni
þar til laun með lífsins banni
lukust þessum eldra manni.
62.
Hans var öll til enda lyktuð ævin klár,
hafði líka lukku fjár
og lifði meir en hundrað ár.
63.
Glaður sá sín barnabörn og býtti þeim
fortölum og fríðum seim
fór hann svo til hvíldar heim.
64.
Í Níníve borg hans ævin öll til enda gekk.
Hæstur Guð þar hvíldi rekk
og heiðarlega jarðan fékk.
65.
Anna gjörðist öldruð mjög og andast þar;
í sama leiði látin var
loflega sem henni bar.
66.
Tobías síðan tók sig upp með trausta lund,
fólkið sitt og fjárins mund,
ferðast þaðan á samri stund.
67.
Ríkan hitti Ragúel og réð til vista;
alla vill þar ævi gista
þó ættmenn sína hefði missta.
68.
Mága fólki forsjó veitti fyrr og síð,
neyta stoð um nökkra hríð
og nábjargir í dauðans tíð.
69.
Ragúelis alla eign að erfðum hlaut
eftir frægan fleina gaut,
forstóð vel og lengi naut.
70.
Elli góða öðlaðist og andláts frið,
fékk að sjá sinn fimmta lið
og farsællega skildist við.
71.
Allur fékk hans ættarliður auðnu sanna,
hylli Guðs og góðra manna,
gott má slíkum aldrei banna.
72.
Arfur einn sá allra vinnur auðnu parta
að óttast Guð og elska af hjarta;
ekkert gull mun svo vel skarta.
73.
Virðar þeir, sem vingan Guðs og virðing hljóta,
lengi þess þá niðjar njóta
ef náðina ekki af sér brjóta.
74.
Lofum Guð fyrir líf og sál og lukku alla.
Tungufæri tekur að halla
og týrs af munni dreggin falla.