Laurentíusarkvæði | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Laurentíusarkvæði

Fyrsta ljóðlína:Filippus nefndur forðum einn
Heimild:ÍB 183 4to.
bls.118–124
Bragarháttur:Níu línur (tvíliður) fer- og þríkvætt aBaBcdcdc
Viðm.ártal:≈ 1725

Skýringar

Kvæðið er örugglega ort fyrir 1750
Kvæðið af Laurentio, einum Drottins píslarvott.
1.
Filippus nefndur forðum einn
frægur í Rómaveldi.
Keisari sá með kristni hreinn
kempur heiðnar felldi;
son einn átti sér.
Eins var beggja ættar nafn
arfinn kóngs sem ber.
Hönum enginn hittist jafn
hvar sem leitað er.
2.
Keisarinn studdi kristna best
kvaldi heiðna á jörðu,
ölmusur þeim aumu mest
ætíð feðgar gjörðu,
frjófgast trúin fríð.
Erkibiskup ágætan
yfir settu lýð.
Sixtus hét hinn mæti mann,
mestur á sinni tíð.
3.
Lesið er það hans lærisveinn
ljúfur að heiti væri
Laurentíus, lyndishreinn,
loflegt Guðs verkfæri.
Allt frá æskutíð
og að þrítugs aldri hann
ágætt framdi stríð.
Með Guðs krafti mjúkum vann
margan heiðinn lýð.
4.
Maður er nefndur – ef eg á,
illan svo að kalla –
Decius einn þar dögling hjá,
dyggur í lyndi varla.
Þessi heiðni þjón,
þetta versta víkingsgrey
varði Grikkja frón;
í helgar kirkjur kom aldrei,
kristnum veitti tjón.
5.
Hann með versta víkings skap
vísirs boð forsmáði,
síðan kónginn sjálfan drap,
sveitir landsins þjáði
og kúgar kristni frá.
Filippus yngri flýði strax
Frakkaveldi á.
Síðan allt til endadags
í útlegð hraktist sá.
6.
Sixto þetta sorgir jók,
segir í helgu fræði,
undir sig því allar tók
eignir, kirkjur bæði
og lofðungs lausafé.
Decius heimtar hann á tal
og heilsar biskupe;
kargur spyr hinn kristna hal
kirknagóss hvar sé.
7.
Bráðlega þessum bófa vann
biskup andsvör vanda.
„Öðrum kóngi“, ansar hann,
„á eg reikning standa.
Heimtist hann af mér
Christi sauðum kemur hann til,
kóngur, en ekki þér,
þeim eg greiða þetta vil,
þeir eru fátæker“.
8.
Ævareiður ansar þá,
illúðligur í bragði:
„Til morguns skaltu frest þá fá“,
fólskumennið sagði,
„að skila skatti mér,
annars engvan færðu frið,
fjörið í námi er.“
Helgur maður hann skilst við,
heim um kvöldið fer.
9.
Er á bæn þá alla nótt
eðla drottins maður.
Laurentíus fregnar fljótt
fóstra sinn, óglaður,
hvað til hryggða ber.
„Við nú skilja eigum að“,
aftur Sixtus tér.
„Býst eg héðan burt í stað,
boð gerir drottinn mér.“
10.
„Hvert þá viltu, hinn nam tjá,
héðan burtu vitja?
Æpandi eg eftir má
einmana því sitja
sem barn hafi móður misst.
Lofaðu fóstri mér nú með
sem mín er hjartans lyst.
Ekki get eg af þér séð
eftir í heimsins vist.“
11.
„Litla písl eg líða má
lausnara míns að vilja.
Verð eg því að víkja frá,
við þig fyrst svo skilja.
Þú mátt ei fylgja mér.
Á þriðja degi víst eg veit
verða samfunder.“
Kvöddust svo með kærleiksheit
kærir ástviner.
12.
Byrstur að morgni buðlung lands
biskup lætur deyða.
Laurentíum sveinar hans
sóttu og þangað leiða.
Fylkir spyr að fé
er afgenginn eðla mann
áður vaktaðe.
Skörulega skipar hann
skatturinn greiddur sé.
13.
Mælti hinn: „Að morgni dags,
mun eg skattinn greiða.“
Buðlung illur bað þá strax
burtu sveininn leiða.
Hyppodytus hét
maður sá er mætan rekk
í myrkvastofu lét.
Þessi með hann þangað gekk
því að biskup grét.
14.
Laurentíus lengi bað
ljúfa drottins mildi
að hjálpa sér en heyrði það
heiðinginn og skildi;
hönum til hjarta gekk.
Þessi ræða heilög hans
huganum var svo þekk
að af tali tignarmanns
tekið skírn þá fékk.
15.
Marga aðra, mælt er það,
menn af kóngsins dróttu
þénari Guðs í þessum stað
á þeirri skírði nóttu –
*það voru hundruð þrjú.
Milding svo að morgni fann
með þau kristnu hjú.
Sikling við svo sagði hann:
„Sjáðu skattinn nú.
16.
Kirkjugóssið Guðs er það,
gjöri eg þá svo nefna.
Því hefi eg í þennan stað
þessum gjört að stefna, –
svo eg segi þér
hverjum þettaa fólgið fé
fyrstum tilheyrer,
Guðs voluðum gefið sé,
Guð það reiknar sér.
17.
Allra þeirra eru nöfn
uppteiknuð, eg segi,
drottni hjá í himna höfn
á hverja þú siglir eigi;
önnur er ætluð þér
sem föður þínum fordæmdum
fyrirbúin er.
Hvað mun eg, gramur, husa um
hvað þú gjörir mér?“
18.
Kóngur reiður kappa bað
kvelja hann til sagna.
Illir Tyrkjar eftir það
ýmsar píslir magna, –
hann ei kveinar hót.
Sveinninn glaður sat og bað
sætt af hjartans rót.
Fjöldi manna flykktist að, –
furðar heiðinn þrjót.
19.
Í því heyrðist heilög rödd
sem huggaði svein í pínum:
„Senn verður þín sálin glödd
af sælu augliti mínu, –
vil eg vera með þér.
Út að standa áttu meir
enn til dýrðar mér.
Það skal bætast þegar þú deyr, –
þitt mitt ríki er.“
20.
Heiðinn talar hilmir þá:
„Herðum oss nú betur
ef hönum hjálpar einhver sá
á hann traust að setur –
aukum afl og dug.“
Rist af járni grípur greitt
gramur í beiskum hug.
Kynt var bálið undir eitt,
æstist neistaflug.
21.
Líkami hans svo lagður var
logandi járns á teina.
Ungur mann þá andvarpar:
„Eilíf þrenning hreina!
Heiður og þökk sé þér.
Hægri sæng eg fyrr ei fékk
en fram nú reiðist hér.
Ó, hvað mjúk er, þæg og þekk
þessi hvíla mér.
22.
Kenni eg engvan kvala snert,
kætist því minn hugur.
Í þínum breiskum börnum ert,
blessaður lífkröftugur.
Lausnari ljúfur minn!
Gef eg mig upp á guðdóms náð
og gæskukraftinn þinn.
Annastu nú allt mitt ráð, –
í þér styrk eg finn.“
23.
Síðan rakna sorgarbönd,
sofnaði hann í Guði.
Drottinn þá hans dýru önd
dýrðar með fögnuði
tók í sælu sal.
Hyppoditus leitar lags,
líkið tók og fal.
Maður sá að morgni dags
mætan jarðar hal.
24.
Hugur er mér að herma frá
heiðnum kóngi fleira.
Decius heitinn að mér á
ávarpskornið meira –
um hans afskeið hér.
Kom þá upp á kónginn stríð,
kristinn mektar her.
Þengill með sinn þrælalýð
þeim á móti fer.
25.
Sonur hans illur féll þá fyrst
í flokki heiðingjanna;
átti hann sér vísa vist
því vantaði trúna sanna, –
föðurs fótspor gekk.
Kristnir létu kóngsins þjóð
kanna heljarbekk.
Af þeim enginn eftir stóð
né undan komist fékk.
26.
Flæktist kóngur flótta á,
fékk hann sigur eigi.
Dettur ofan í díki þá
Decius á vegi, –
gáði ei glöggt að sér.
Sást hann aldrei síðan þar,
sína leið þá fer.
Það sem orðið af hönum *var
er nú til gátu mér.
27.
Kóngur engla, Kristur hreinn,
kirkju geymdu þína.
Lát ei orka óvin neinn
yfirgang að sýna
þinni helgu hjörð.
Gæti vor þín gæskan blíð
og geymi vel á jörð.
Sé þér einum alla tíð
eilíf þakkargjörð.


Athugagreinar

Tvö lesbrigði úr JS 84 8vo:
15.5. Línu 15.5 vantar í ÍB 183 4to. Henni er hér bætt inn eftir JS 84 8vo.
26.8 var] < er JS 84 8vo.