Kristrún Gissurardóttir | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Kristrún Gissurardóttir

Fyrsta ljóðlína:Ég átti tvær dætur og unni þeim heitt
bls.124-126
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:1918

Skýringar

Undir nafni móður hennar.
Ég átti tvær dætur og unni þeim heitt;
sú yngri var hvíldin, er sál mín var þreytt,
því bros hennar ljómaði upp bæinn;
og þegar hún kom upp í kjöltuna á mér
og kyssti mig alla og faðmaði að sér,
hve gjörði hún dýrlegan daginn.

Þá heyrðist úr Reykjavík farsóttarfrétt;
og fáum var auðvelt að taka því létt,
er sýkin um sveitirnar dreifðist
og herjaði án vægðar á veiklað og hraust
sem víkingur deyddi þar miskunnarlaust,
en skeytti því lítið hvað leyfðist.

Varhluta fórum af veikindum síst,
sem veittu það sár er ég fæ ekki lýst;
hvort lækna það tíminn og tárin?
Svo fárveik að horfa upp á helstríðið langt
míns hjartkæra barns var svo aftaka strangt,
það myrkvaði ókomnu árin.

En eftir það fannst mér ég önnur en var,
sem allt væri horfið og vissi ekki hvar
hið týnda var tök á að finna.
Þá bentu mér fötin og barnsrúmið autt,
hve bölsýnt er mannlífið huggunarsnautt
og grátlega gaf það til kynna.

Mitt tveggja ára hugljúfa, hjartfólgna blóm
var hulið í líkblæjum undir þeim dóm,
þá lægst var á loftinu sólin;
að hyljast í ískaldri, hrímþaktri jörð
var hjartanu ofraun svo fárlega hörð,
þar sverð beit mig sárast um jólin.

Þá braust fram í sorginni trúnaðartraust,
sem talaði: „Á himnum er skammdegislaust“,
þar svífur nú barnssálin bjarta
með englum, sem hvívetna leggja henni lið
og leiða hana alsæla að frelsarans hlið;
sú fullvissa huggi mitt hjarta.

Nú skoða ég þetta við skynsemi og trú
og skil, ekkert barn verður farsælla en þú,
en svífurðu í hóp þeirra hæstu,
hvar lítur þú umhverfis sólu við sól
og samfögnuð englanna um gleðirík jól
í guðsdýrðarsölunum glæstu.

Svo kveð þig mín elskaða, Kristrún, sem best
með kærustu þökk fyrir allt sem mig lést
í sambúð og söknuði finna;
því himneska auðlegð á heilögum stað
er háleitt að eiga með fullvissu um það,
að síðar ná allir til sinna.