Ísland | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ísland

Fyrsta ljóðlína:Særinn er úfinn en svipvindar skýbólstrum feykja
Höfundur:Bjarni Lyngholt
bls.115–118
Bragarháttur:Fjórar línur (þríliður) fimkvætt: AABB
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:1913

Skýringar

Inngangsorð, prentuð smærra letri undir öðrum hætti:

Leggðu nú, drottinn, ljóð á tungu mína.
Ljúktu nú opnu hverju frónsku hjarta.
Láttu nú sól á landið kalda skína.
Leiddu hvern Íslendlng um vegu bjarta.
1.
Særinn er úfinn en svipvindar skýbólstrum feykja.
Sæbratta ströndina brimtungur mjallhvítar sleikja.
Stormbarin nes skýla djúpskornum víkum og vogum;
vella þar boðar á skerjum með orgum og sogum.
2.
Kalt er í sveitum, en sólþrot um grundir og hjalla.
Situr á gnípunni valur og horfir til fjalla,
þar sem að sauðaval krafsar um þeyslegna rinda
í þráviðris dal milli brattra og snæþaktra tinda.
3.
Rýkur upp mjallfok, en rökkvar um hóla og dali.
Ráfar á hjarninu þreyttur og klæðlítill smali.
Bragandi norðurljós lýsa’ honum hrímstorknar leiðir
en lífvana gilbúinn svellhjúp á fjölgresið breiðir.
4.
Stórviðris byljir, er stands’ allan guðslangan daginn,
steypa úr snjódufti, múr kringum vistþrota bæinn.
Háttar þar fólkið í rúm undir svignuðum súðum
er syrtir að nótt fýrir hrímuðum baðstofu-rúðum.
5.
Svo kemur vorið en dagarnir lýsast og lengjast
og lengst inni’ í afkima vermandi sólgeislar þrengjast.
Himininn blámar, en haföldur klökkar og þýðar
hvarfla til lands, þar sem blasa við grænkandi hlíðar.
6.
Söngfuglar kvaka en sóleyjar brosa í túnum.
Suðandi smálækir steypast af dalanna brúnum.
Spenna þar kjarr-viðir greipar um sprungur og hjalla
en speglast í svanatjörn ásjónur dimmblárra fjalla.
7.
Bæla sig jórtrandi hjarðir um hóla og dali,
hoppar í kringum þær léttfættur, syngjandi smali.
Glóandi daggperlur glitra um laufþakinn völlinn
en guðvefjar skikkjuna kvöldroðinn breiðir um fjöllin.
8.
Laxar og silungar leika í straumum og hyljum.
Ljóð syngja fossar, en berglindir ólga í giljum.
Troðjúgra lambærnar standa við stekkinn og jarma
en stórárnar þögular flóa’ út á grösuga barma.
9.
Lág-þýðir, titrandi lífhljómar hvervetna óma.
Lútir hvert strá, hjúpað tárfögrum eilífðar blóma.
Af frjó-hélu dögg verða reyrinn og reynirinn rakir
en rauð eins og eldur á hafinu náttsólin vakir.
10.
Þannig er Ísland. Hver gæti því gleymt, þó hann vildi?
Svo grimmúðugt, hrjóstrugt, en sveipað í fegurð og mildi!
Landið, sem veður í hafíss og stórelda streymi.
Stórskorna landið, sem fegurst er allra í heimi!
11.
Landið, sem Garðar og Ingólf af hafinu hyllti.
Hamingju-landið, sem morgunsól frelsisins gyllti.
Landið sem fyrst skráði lýðstjórn í menningar sögu.
Landið sem afreksverk geymir í þungskildri bögu.
12.
Þar áttu feðurnir frægðar- og hamingju-daga.
Fræjum til blessunar stráðu þær lðunn og Saga.
Ljúfmennskan, hreystin og harkan og þrekið og mildin,
háttprýðin, drenglyndið, viskan og tryggðin og snilldin.
13.
Gott er að kalla til arfs úr þeim ótæmda sjóði:
íslenskum drengskap og norrænu víkinga blóði.
Mest er þó sæmdin að sýna í orði og verki:
Sonur hvers lands sem þú ert, að þú berir þess merki.
14.
Og vittu það, barn, sem að hefur á landinu lifað
og lesið þær rúnir, sem tímarnir hafa þar skrifað
að föðurlands ást er þar letruð í sérhverri línu;
hún lifir þó fegurst í ókveðna ljóðinu þínu!

15.
Með glóandi sólskin á sérhverjum hnjúki og tindi,
sumar í loftinu og smáblóma angan í vindi:
að alveldis barminum Fjallkonan höfðinu hallar
og heim í sitt móðurskaut fjarlægu börnin sín kallar.