Fíflið | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Fíflið

Fyrsta ljóðlína:Að móbrúnum lyngholtum fífusund felldu
bls.108
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1895
I

1.
Að móbrúnum lyngholtum fífusund felldu
sig flatlend og pyttótt um bæinn á Keldu,
og tindafjöll voru þar tilsýnum fjærri
en túnið þýft og holtin nærri.
2.
Og höggdofa fólkið á fálætissetri
hlaut fannmok og vatnsburð af sérhverjum vetri,
og meðan að sumarið lýsti yfir landi
gekk lúastirt að votabandi.
3.
En fátt þó þar væri um framför og hægðir,
í fóðursæl geymslulbúr skorti ei nægðir.
Hver unaðsemd gleymdi sér, gerði sér nauðugt
að góðu strit við búsafn auðugt.
4.
En spjöll voru á uppvexti, æskan varð bjáni,
og erfinginn stýrði ekki föðurins láni
en lagðist í eldskála, kúrði í krónni
á kolabing hjá öskustónni.
5.
Menn sögðu hann afhrak í æltinni vera
fyrst öðrum eins föður þá raun skyldi gera.
Því bjargálnir góðar og meðallags mennska
var markmið þar og sveitarlenska.
6.
Og skotspónn í hjúanna önugu aggi,
í öfundar launklípni, sérhlífnis naggi,
varð fíflið á bænum. Það minnst sín mátti
og mest af skapraun þola átti.
7.
En móðirin einsömul hlífði og hlúði,
á hamingju drengsins sín örvænis trúði.
Því hún þóttist eygt hafa ættleidda bauga
af ægishjálmi í fíflsins auga.
II
8.
Hann óx upp í þversynjun þarflegt að gera.
En þó sýndist mannsbragur á honum vera
við sögur um kappanna afrek við eldinn,
hjá aðkomu gesti um vetrarkveldin.
9.
En átján veturna viðskila orðinn
hann var nú — og örísa fjörður og storðin,
og þrárnar að vakna sem veturinn duldi,
því vorregn úti á þekju buldi.
10.
Þann morgun í býti til föður síns fór hann,
sem furðaði að sjá hann svo heimskan og stóran!
„Að leita mér hamingju héðan eg stefni,
en herklæði þarf og fararefni.“
11.
En góðbóndinn hæddist að heimtingum slíkum,
og henti í þann bænastað aglóga flíkum.
„Þeim spjörum er flakkara fullsæmt að slíta,
og flækingsprik mun lötum hlíta.“
12.
Svo gekk hann úr föðurhúsunum hljóður —
hann hafði þó eitt, það var fylgd sinnar móður,
hún kvaddi hann vonum og vinsemda hótum
á vansa-æsku gatnamólum.
13.
Að hinstu hún gaf honum gullhjalta fríðan,
sem geymdist í ætt hennar vandlega síðan
að forfeður báru’ hann á frægari dögum,
og fágaðan ljóðum og hetjusögum.
14.
„Þó gjöfin sé smærri en geð mitt og hugur
hún gersemi verður ef fylgir þinn dugur.
Ég sé með þér hamingju, góð verður gangan
er garpur berst með ættartangann.“
III
Þó tregt gengju fréttir um fáskipað strindi
barst frásagan vonglaðri móður að yndi
um afreksverk fíflsins i fjarlægum löndum
og frægðarlaun af konungs höndum.
Og þeir sem við ánann sitt ættarland földu
við íþróttamanninn til frændsemi töldu —
þeir skildu að orðin um ókomna daga
að ættarsæmd var fíflsins saga.
IV
Og enn er í heiminum margoft ið mesta
sem mannkynið eignast, ið djarfasta, besta
í vanræktar-fóstri í kofa-krónni,
á kolabing hjá öskustónni.