Guðbjörg Jónsdóttir | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Guðbjörg Jónsdóttir

Fyrsta ljóðlína:Þau undu sjer glöð við það eins og það var
bls.308
Bragarháttur:Sex línur (þríliður+) fer- og þríkvætt:aaBccB
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1912

Skýringar

Undir heiti stendur: „frá Syðrimörk. Dáin 1912.“
Vitnað er í ljóðið í minningargrein um Björgvin Jónsson frá Syrðimörk í Morgunblaðinu 25. ágúst 1987 með þessum aðfararorðum:

Björgvin fæddist í Syðstu-Mörk undir Eyjafjöllum hinn 10. maí árið 1912. Foreldrar hans voru hjónin Jón Jónsson og Guðbjörg Jónsdóttir er þar bjuggu þá með fjórum börnum sínum ungum. Fæðingu Björgvins bar að með átakanlegum og örlagaríkum hætti, því að þessa vordaga 1912 reið yfir harður jarðskjálfti sem olli miklu tjóni   MEIRA ↲
1.
Þau undu sér glöð við það eins og það var,
þau önnuðust kyrrláta heimilið þar
og hlúðu að börnunum bæði.
Með höndunum iðnu þau höfðu það byggt,
sem hér var með dugnaði og samlyndi tryggt.
Þau vonuðu, og við, að það stæði.
2.
En landskjálftinn kom þar og bæ þeirra braut,
það böl er svo geigvæn, svo sligandi þraut,
þá verða’ eins og vikur úr stundum.
En þá fannst þó föðurnum birt upp í bráð,
er börnunum hafði’ hann og móðrinni náð
og bar þau úr húsunum hrundum.
3.
Og vinirnir raungóðu veittu þeim skjól.
Þá var eins og hlýnaði aftur af sól
og ógnirnar yrðu’ekki að meini.
Þau höfðu við landskjálftans leikbræður þreytt,
þær liðssveitir dauðans, og uggðu’ ekki neitt.
Nú lagðist hann sjálfur í leyni.
4.
Það var, þegar móðirin bjargráða beið
og barninu sjötta í hörmungar neyð,
þá settist hann bleikur hjá beði.
Hann hætti’ ekki við, uns þau hvíldu þar föl
við hlið sínum vin eftir grátlega kvöl.
Með þeim var svo grafin hans gleði.
5.
Og hann sýnist einsamall, hvar sem hann er.
En horfi’ hann á barnið, sem kvakandi fer
í fangið á föður og móður,
þá losnar um tárin, þau læðast á kinn,
þá lítur hann tvístraða hópinn sinn,
og þurrkar af hvörmunum hljóður.
6.
Ég hlustaði’ á þrautir hans. Þar hafði blætt
við þrá eftir vini, sem enginn gat bætt,
við minning frá sigrum og sárum.
Þar sögðu mér augun, hvað inni var geymt:
að ást þeirri og helstríði verði’ ekki gleymi.
Ég skildi’ hann, og trúi þeim tárum.