Vorhret | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Vorhret

Fyrsta ljóðlína:Í hafinu sprettur upp hríðstróka fans
Höfundur:Einar H. Kvaran
bls.28
Bragarháttur:Sex línur (þríliður+) fer- og þríkvætt:aaBccB
Viðm.ártal:≈ 1925
1.
Í hafinu sprettur upp hríðstroku fans
og hraðar sér líkt eins og vofur til lands.
Svo dans hefst á láði og lóni.
Og hvassviðrið áfram þá óðfluga ber
svo álíka völlur á djöflum þeim er
og heimskustu heimskunni á Fróni.
2.
Og ærin hún sér, nú er engu fritt
og er svo dauðhrædd um lambið sitt
og hverfur til bóndans heyja.
En ung og grænlituð gróðurnál
ei getur skilið hví vorið er tál,
hví undir eins á hún að deyja.
3.
Og sauðurinn krafsar í óða-önn
þótt ekki sé mjúkt né hlýtt við tönn.
En hestarnir híma undir veggjum.
Og lóunni er órótt því engin er laut
þar eftir þá hörðu ferðaþraut
sé óhætt kulvísum eggjum.
4.
Og stormurinn fátæklings brýst inn í bæ
og blæs þar með hurðunum sí og æ
og klappar hráblautum hrammi,
svo krakkarnir trítla með kaldan fót
en kerlingin fer ekki úr bælinu hót
og húsfreyjan hríðskelfur frammi.
5.
Já, hamingjan veit, hvenær veturinn fer
og vorgróðinn lætur nú bóla á sér
með skínandi skrautið og auðinn.
Og þó lifir vorið í vorri sál –
þótt veturinn komi eftir sumarmál,
það jafnvel ei drepið fær dauðinn.