Afmælisbragur kveðinn Jakobi á Lækjamóti | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (1283)
Afmæliskvæði  (11)
Ástarljóð  (10)
barnagælur  (1)
Biblíuljóð  (3)
Eftirmæli  (13)
Ferðavísur  (3)
Gamankvæði  (18)
Háðkvæði  (8)
Heilræði  (1)
Hestavísur  (2)
Hindisvík  (2)
Húnaþing  (8)
Húnvetningar  (7)
Jóðmæli  (1)
Jólaljóð  (3)
Kappakvæði  (1)
Lífsspeki  (2)
Ljóðabréf  (6)
Náttúruljóð  (48)
Oddi  (1)
Rímur  (1)
Sagnakvæði  (1)
Sálmar  (2)
Sálmur  (2)
Skáldsþankar  (44)
Strandir  (2)
Söguljóð  (11)
Söngvamál  (1)
Tíðavísur  (1)
Tregaljóð  (4)
Þululjóð  (1)
Ævikvæði  (2)

Afmælisbragur kveðinn Jakobi á Lækjamóti

Fyrsta ljóðlína:Nú skal taka hæglátt í hörpunnar streng
Viðm.ártal:≈ 1950
Flokkur:Afmæliskvæði
1.
Nú skal taka hæglátt í hörpunnar streng,
hefja ljóð um þjóðkunnan ágætis dreng,
syngja honum verðskuldað virðingarlag,
vinir hylla sjötugan öldung í dag.
2.
Þú varst jafnan starfandi, mildur, hýr og hress,
höfðingi því enginn þér betur skipar sess,
stóð og traust við hlið þína húsfreyja þín góð,
hamingjan var með þér á framfaranna slóð.
3.
Furðulega margvísleg, ótal andleg störf,
inntir þú af höndum þér með bræðranna þörf,
jarðlaganna vísindi hrifu huga þinn,
um heilar jökulaldir þú last í bergsins inn.
4.
Bændur hinir gömlu, sem bjuggu forðum hér,
býst ég við í öðrum heimi samfagni þér,
Lækjamóti reistir þú loflega höll,
“ljóma slær á skóginn” og blómum skrýddan völl.
5.
Óskum við þér hamingju og heilla hverja stund,
hérað okkar njóti þín enn á marga lund.
Einn ert þú af leiðtogum okkar kæra lands,
allt hið góða og fagra þér hnýti sigurkrans.


Athugagreinar

Afmælisbragur kveðinn Jakobi H. Líndal, Lækjamóti, á sjötugsafmæli hans 18. maí 1950