Stephan G. Stephansson 1853–1927
84 LJÓÐ — 40 LAUSAVÍSUR
Stefán fæddist á Kirkjuhóli í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði og var skírður Stefán Guðmundur Guðmundsson. Hann ólst upp á Kirkjuhóli, Syðri Mælifellsá og Víðimýrarseli, en fluttist árið 1870 norður í Þingeyjarsýslu með foreldrum sínum og réðist vinnumaður að Mjóadal í Bárðardal. Þar dvaldi hann uns hann fluttist til Vesturheims með foreldrum sínum og systur árið 1873, þá að verða tvítugur. Fyrst bjó hann í Wisconsinfylki í Bandaríkjunum í fimm ár og kvæntist sama ár og hann flutti þaðan náfrænku sinni, Helgu Sigríði Jónsdóttur. MEIRA ↲
Stefán fæddist á Kirkjuhóli í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði og var skírður Stefán Guðmundur Guðmundsson. Hann ólst upp á Kirkjuhóli, Syðri Mælifellsá og Víðimýrarseli, en fluttist árið 1870 norður í Þingeyjarsýslu með foreldrum sínum og réðist vinnumaður að Mjóadal í Bárðardal. Þar dvaldi hann uns hann fluttist til Vesturheims með foreldrum sínum og systur árið 1873, þá að verða tvítugur. Fyrst bjó hann í Wisconsinfylki í Bandaríkjunum í fimm ár og kvæntist sama ár og hann flutti þaðan náfrænku sinni, Helgu Sigríði Jónsdóttur. Áttu þau saman átta börn og komust sex þeirra upp. Næstu tíu ár bjuggu þau hjón að Görðum í Norður Dakóta. Þar lést faðir hans, en Stefán sá fyrir foreldrum sínum á meðan þau lifðu. Árið 1889 fluttist Stephan síðan til Albertafylkis í Kanada og bjó þar til dauðadags. Vestanhafs tók Stefán sér nafnið Stephan G. Stephansson.
Skólaganga Stephans í æsku var lítil sem engin og var hann erfiðismaður alla tíð, duglegur og vinnusamur og notaði stopular stundir til skrifta enda nefndi hann kvæðasafn sitt Andvökur. – Stephan lagði sig fram um að brjóta hvert mál til mergjar á eigin forsendum en gaf lítið fyrir viðteknar hugmyndir og hefðarsannleik. Hann var einlægur friðarsinni og baráttumaður fyrir þá sem minna máttu sín og voru órétti beittir. ↑ MINNA