Dróttkvætt | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Dróttkvætt

Lýsing: Dróttkvæður háttur eða dróttkvætt dregur nafn sitt af því að dróttskáld (skáld við hirðir konunga) kváðu lof sitt um konunga og önnur stórmenni aðallega undir honum. Dróttkvæður háttur er bundinn við Norðurlönd og kemur einna fyrst fyrir í Ragnarsdrápu Braga Boddasonar hins gamla snemma á 9. öld; en þar eru bragreglur ekki fullmótaðar. Hann er líklega algengastur bragarhátta frá níu hundruð til fjórtán hundruð og verður á þeim tíma meginháttur bæði í kvæðum og lausavísum, og undir honum voru einnig síðar ort mörg helgikvæði. Þegar fram í sótti urðu aðrir bragarhættir vinsælli, ekki síst rímnahættir. Áfram ortu menn þó undir dróttkvæðum hætti allt til þessa dags en hrynjandi og fleiri atriði háttarins breytust vissulega mikið í tímans rás, einkum þó með hljódvalarbreytingunni.  

 Í hverju erindi eru átta línur og sex bragstöður í hættinum óbreyttum, þrjár þeirra sterkar (ris). Fimmta bragstaða er jafnan langt atkvæði og sterk, en sjötta bragstaða áherslulaus (hnig). Fyrri bragstöðurnar fjórar eru venjulega eitt atkvæði hver en geta þó haft tvö, hið fyrra þá stutt; slíkt kallar Snorri Sturluson leyfi. Tvíkvæð sterk bragstaða er líka nefnd klofið ris

   Innrím er tvenns konar, aðalhendingar (alrím) í síðlínum og skothendingar (hálfrím) í frumlínum; hendingar eru í sterkum stöðum, sú síðari (viðurhending) jafnan í fimmtu stöðu en sú fyrri (frumhending) í fyrstu, annarri eða þriðju stöðu.

    Stuðlasetning tengir saman tvö vísuorð (vísufjórðung): tveir stuðlar eru í frumlínum (jafnan í sterkum stöðum, þó ekki undantekningalaust) og höfuðstafur í síðlínum (nær alltaf í fyrstu sterkri stöðu).

    Þá eru reglur um innrím í hættinum óbreyttum mjög strangar. Í stöku braglínunum er hálfrím, skothendingar, en í þeim jöfnu alrím, aðalhendingar. Síðari hending í línu var ætíð á þriðja risi. Undantekningar voru þó frá þessum reglum, einkum hjá elstu dróttkvæðaskáldunum eins og Braga Boddasyni, Torf-Einari og fleirum.

   Hver vísa skiptist í tvo helminga sem eru oftast sér um mál; segir jafnan fulla hugsun.


Dæmi

Lætr, sás Hákun heitir,
– hann rekkir lið – bannat,
– jörð kann frelsa – fyrðum
friðrofs – konungr – ofsa;
sjalfr ræðr allt ok Elfar,
ungr stillir sá, milli
– gramr á gipt at fremri –
Gandvíkr, jöfurr, landi.
Snorri Sturluson: Háttatal Snorra-Eddu, 1. v.

Ljóð undir hættinum

≈ 1600  Höfundur ókunnur
≈ 960–975  Glúmur Geirason
≈ 1200  Kolbeinn Tumason

Lausavísur undir hættinum