Eftirmæli um Jón Magnússon | Vísnasafn Skagfirðinga
Vísnasafn Skagfirðinga

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (46)
Bæjavísur  (1)
Gamankvæði  (3)
Tíðavísur  (1)

Eftirmæli um Jón Magnússon

Fyrsta ljóðlína:Brosir sjaldan blíðan
Viðm.ártal:≈ 1916
Tímasetning:1916

Skýringar

Ort um Jón Magnússon, bónda í Minna-Holti í Fljótum. Jón lést árið 1916 en hann var góður kunningi höfundar.
Brosir sjaldan blíðan
bak við áramótin
norðankólgan kastar
köldum hjúpi á Fljótin.
Fleira yndi fargar
finnst mér geðum haga.
Ómar mér í eyrum
óvænt dánarsaga.

Einn er höldur hniginn
helst til fljótt í valinn
mjög sem var af mörgum
merkis garpur talinn.
Bjó hann snotru búi
beita ráðdeild kunni
hugur jafnt sem höndin
hreinleiks störfum unni.

Sinni sveit var tryggur
sem hann í var borinn
um fleiri pláss þó færi
flest hér átti sporin.
Hartnær kærstu högum
hinnsta seiddi hann lýðinn
líkt og garpinn Gunnar
góða fagra hlíðin.

Gömlum vinum gafst hann
glaður meira en hljóður
og á ýmsar hliðar
afar sagnafróður.
Glöggum var hann gæddur
gáfnahæfileikum
orð hans áttu rætur
ei á stofni veikum.

Hann vildi frið ei farga
en fljótur var að hlýna
í máli sjaldan myrkur
hann meining byrti sína.
Við hvern sem heldur átti
að heiðri lægsta og stærsta.
Hann var ei allur annar
á augnabliki næsta.

Festu feðra sinna
fyrri tíðar unni
merkar mannlýsingar
margar orðrétt kunni.
Við hans anda áttu
Agla best og Njála
síður virti sögur
sem að skáldin mála.

Hann stillti hörpu strenginn
en sterk í tónum var hún
og mörgum misjafnt þótti
hve mildan hreiminn bar hún.
Þá lét sig best í ljósi
hans loga snarpi andinn
sem traustum tökum reiddi
sinn tvíeggjaða brandinn.

Opt var gáfan góða
gamansöm og fyndin.
Íslenskt orðavalið
ætíð frumleg myndin.
Hann tók ei frá hinum
hugmyndanna kjarna
frómlyndur í flestu
finnast vildi gjarna.

Nú er halur horfinn
hnokkinn bragar drengur
alþýðunnar eyrum
ekki skemmtir lengur
þökk fyrir starfið þulur
þinnar ættar hlynur.
Fóstran mjúk þig faðmi
farvel gamli vinur.