Kveðjuljóð til Hermanns og Guðbjargar | Vísnasafn Skagfirðinga
Vísnasafn Skagfirðinga

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (34)
Bæjavísur  (1)
Gamankvæði  (3)
Tíðavísur  (1)

Kveðjuljóð til Hermanns og Guðbjargar

Fyrsta ljóðlína:Ef nokkru ætti að unna
Viðm.ártal:≈ 1912
Tímasetning:1912
Ef nokkru ætti að unna
þá er það bænda stétt
sem vaka þarf á verði
og verjast jafnt og þétt
og standa í hörðu stríði
með sterkum hug og þrótt
að forða sér við falli
og fári dag sem nótt.

Hver bóndi er barist getur
með björtum sigurhjör
í gegnum áþján alla
og ótal mein þung kjör
og bæta bú sitt líka
með blómgum efnahag
á hrós og heiður skilið
og hærri laun en brag.

Við höfum átt og eigum
það enn á meðal vor
einn hraustan hetju maka
sem hafði táp og þor
að berjast fremstur bænda
og bera merkið hátt
og hvergi á hæl að hopa
en heldur sækja knátt.

Ég hér skal höldinn nefna
hann Hermann Þorsteins kund
vorn góða heiðurs gestinn
með glaða og frjálsa lund
er hjá oss dvalið hefur
um háa aldursltíð
sem betra bænda jafni
í bústjórn fyrr og síð.

Það mætti mörg um telja
þau merki og rök til sans
en best þá sögu sanna
og sýna verkin hans
og framkvæmdir í flestu
með fyrirhyggju og dug
þó ellin bakið beygi
hann brestur aldrei hug.

Og gumar síst því gleyma
hve gestrisin er lund
því öllum inn er boðið
sem á hans koma fund.
Og opt þar geislar glöðu
á guða dýrri veig.
Þá frelsið lifði forna
að fá sér mæran teyg.

Nú fer hann senn að flytja
úr Fljóta gömlu byggð
sem ávallt unnt svo hefur
og auðsýnt festu og dyggð.
Ég hygg að flestum finnist
á fleiru en einu snautt
á Reykjarhóli heima
þá hans er sætið autt.

Oss finnst það verðugt vera
með vinsemd kveðja hann
og eina glaðning gera
sem geyma nafn hans kann.
Og þeim svo báðum þakka
öll þýðleg vinahót
og allt sitt starf og elju
sem auðgað hafa Fljót.

Við óskum þess í anda
þeim ellin verði blíð
og drottins ljós þeim lýsi
um lífsgjörvalla tíð
og gæfan hjá þeim gisti
hún gleðji hug sál.
svo hrópum þrefalt húrra
og heilla drekkum skál.